2. desember 2009

Stríðið um raunveruleikann

Raunveruleikinn er lúxus þeirra sem lifa við stanslaust öruggi, hinir þurfa skáldskap. Dómarar í réttarríki eru varðir í bak og fyrir og hafðir í bómull svo þeir leiðist ekki út í skáldskap. En á Hlemmi, þegar réttað er út af stolinni bokku er ekki spurt um sennilega afleiðingu og orsakatengsl heldur hvor deiluaðila býður betri skáldskap. Í samfélagi sem vaknar til daglegs amsturs í föstum skorðum dag eftir dag og ár eftir ár trúir fólk á raunveruleikann. Malandinn í morgunútvarpinu og dagblaðið með kaffibollanum færir fólki raunveruleikann. Svo er spjallað og smárifist við vinnufélaga og vini um hitt og þetta, sem allt er fyrir fram gefið og augljóst, enda hluti af raunveruleikanum sjálfum. Þetta er kallað að allt leiki í lyndi.

En um leið og stríðið skellur á hverfur raunveruleikinn. Jafnvel kaffinu sjálfu er ekki treystandi, hvað þá blaðinu eða útvarpinu. Þá lifir sannleikurinn bara í skáldskapnum, skopmyndirnar sýna sannleikann en leiðararnir eru húmorslausar skopstælingar. En ef sannleikurinn býr í skáldskapnum, þá hefur hann sama heimilsfang og lygin því lygin er líka skáldskapur og sennilega oft styttra á milli en mann grunar. Það sem var raunveruleiki meðan allt lék í lyndi reynist blekking og lyga verst. Um þetta stendur stríðið. Nýja útgáfu af sannleikanum sem færir okkur aftur líf með rjúkandi morgunkaffi, blaði og þægilegum malanda í útvarpinu.

Fyrst trúðum við því að hrunið myndi færa okkur sannleikann. Iðrunin yrði slík yfir rústum veruleikans og hrikaleiki afleiðinganna myndi þjappa okkur saman. En auðvitað fengum við stríð um nýjan veruleika. Skyldum við nú trúa því að Sannleikurinn, á silfurfati frá Sannleiksnefndinni jafni um þetta stríð og færi okkur réttlæti og nýjan raunveruleika? Nei, auðvitað ekki, hversu þarft sem þeirra starf í nefndinni annars er.

Allt sem okkur hefur verið sagt kann að vera afvegafært, málað og hjúpað, svo við verðum að treysta eigin hjarta og berjast fyrir málstaðinn, sem er raunveruleiki handa venjulegu fólki. Líf fyrir einfalt fólk, sem beygir sig undir sígildar siðareglur um heiðarleika, sanngirni, samhjálp, hófsemi eða hvað það er sem felst í orðinu mannasiðir. Það er einfaldara að greina góðan málstað frá slæmum, en að vita hvað er satt eða logið á hverjum tíma. Og eitt ætti að minnsta kosti að vera einfalt að skilja, gamli raunveruleikinn er vondur málstaður. Það er siðferðislega drukknaður maður sem vill aftur um borð í þann dall. Aumkunarvert er að heyra menn, sem hanga á gamla raunveruleikanum eins og skipbrotsmenn á rekaldi úr brakinu og hrópa: Allir hingað, ég er búinn að finna skipið.

30. nóvember 2009

Hvað boðar morgundagurinn?

Þegar ljósin á Oslóartrénu voru tendruð í gær spurði góður maður hvort ég héldi að þetta tré ætti líka eftir að brenna eins og það í fyrra. Góð spurning. Í spaklegu svari mínu kom fram að þó sennilega væri næg reiði og örvinglan í fólki til að kveikja í skitnu jólatré, væri ekki á döfinni neitt einstakt, einfalt og sjálfsagt mál, eins og afsögn ríkisstjórnarinnar var fyrir ári.



Eftir kvöldmatinn áðan komu stórfréttir. Fyrst var það sjónvarpsfréttin um að þessi Arionbanki myndi komast í annarra og óþekktra manna hendur á morgun, fullveldisdaginn, 1. des. Og hvað þetta boðar er ómögulegt að einföld sál viti. Svo sá maður á netmiðlum tvenn merkileg ummæli Steingríms J Sigfússonar. Fyrst segist hann efast um að Alþingi ráði við endurreisn efnahagslífsins! Hefur nokkur í sambærilegri stöðu sagt annað eins um sjálft Alþingi, sem eitt sinn bar titil hins háæruverðuga? Og það sem verst er, maður er honum hjartanlega sammála. Skömmu seinna komu svo þessi torkennilegu orð hans að Icesave máli yrði að ljúka, núna. Af ástæðum sem ekki mætti greina þingheimi frá, en væri á vitorði þingflokksformannanna. Bíddu nú við, hvað er þetta hugsaði maður og datt næstum í hug orðið atarna í þokkabót. Þetta atarna, er semsagt mjög erfitt að skilja. Hvað vakir fyrir SJS? Hvernig geta þessi orð á nokkurn hátt bætt stöðu hans, jafnvel þótt ömurleg sé. Liggi nú fyrir einhver hótun, eða kannski leynilegt samkomulag, hverju er Steingrímur þá bættari að segja að greina frá því á þennan hátt ? Nú þarf ekki að taka fram að enginn getur haldið að yfirlýsingu um leyndó sé ætlað að hafa bein áhirf á þingmenn. Steingrímur er að firra sig ábyrgð á einhverju sem hann telur í vændum fáist Icesave frumvarpið ekki samþykkt fyrr en seinna. Hann er að segja okkur fyrirfram að þetta hafi hinir flokkarinir vitað. En hvað er þá í vændum? Og í kjölfarið kemur önnur spurning, um hvað snýst þá Icesave málið eiginlega?



Hér kemur engin samsæriskenning, en fleiri mánaða málflutningur um Icesave hefur vakið furðu og nú þegar allir venjulegir landsmenn eru löngu hættir að nenna að þræta um málið tekur stjórnarandstæðan sig til og heldur uppi málþófi. Til hvers?



Kannski er Steingrímur bara orðinn úrvinda eða farinn á taugum eins og Egill Helgason viðrar. Ummæli hans benda hvað sem öllu líður ekki til þess að hann eða þessi ríkisstjórn hafi mikla stjórn á málum. Hvorki á Icesave né því atarna sem er í húfi.



Mér finnst allt í einu eins og eitthvað gæti komið fyrir jólatréið á Austurvelli.

11. október 2009

Að sleppa til að halda

Dag nokkurn í fyrra haust lá Range Rover á hvolfi á miðri götunni okkar. Út úr flakinu dró löggan strákinn í næsta húsi, ósáran en alveg útúrspíttaðan. Bíllinn karlsins á horninu hafði sýnilega orðið á vegi hans og karlfautinn lét dæluna ganga með svívirðingum yfir skelkaða nágranna mína, foreldra ökumannsins, sem komnir voru á vettvang. Eftir þetta er lífið í götunni ekki eins og áður.

Það stingur mig í hjartað að minnast þeirra stunda að maður hallaði sér yfir í garðvegginn í spjalli við stolta foreldra, sem töluðu um fátt annað en afrek sonarins. Sögðu stolt frá uppeldi sem byggðist á að banna aldrei, eða letja, enda tíðrætt um sína eigin bældu æsku. Og viti menn, stráksi blómastaði í viðskiptum frá ungum aldri, algerlega óbældur. Og þess gætti sannarlega í öllum umsvifum fjólskyldunnar. En þennan dag var hann afhjúpaður. Þetta stráktrippi var þá bara kengdópað spíttfrík í jakkafötum. Viðskiptaveldi hans ekkert nema skýjaborgir, sukk og skuldir. Skuldir sem foreldranir sitja uppi með og skuldir sem viðskiptavinum hans um allar jarðir eru tapað fé.

Því er ég að rifja þetta upp nú að ég heyrði ég það fyrir skemmstu frá frænda mínum, sem þekkir náið til fjölskyldunnar, að þaðan sé fátt góðra frétta. Útistöður við karlinn á horninu vegna bílviðgerðarinnar hafa heltekið fólkið, og það virðist hafa fengið verkstæðisreikninginn á heilann. Stórfjölskyldan er komin í hár saman og hver höndin upp á móti annarri. Einn vill fara í mál, af því að karlinn á að hafa lagt bílum viltlaust, en annar hefur fundið bónda norður á Stöndum sem getur tekið drossíuna bæði í viðgerð og klössun fyrir nánast ekki neitt. Allir keppast um að segjast vilja borga minna en hinir. Svo rífst þetta fólk og þráttar innbyrðis fram og til baka án niðurstöðu. Samt er þessi krossbölvaði viðgerðarreikningur ekki nema lítill hluti af öllu peningatapi þessa fólks. Það segist vilja standa í lappirnar með því að standa upp í hárinu á karlinum, en hugsar ekkert um að standa í lappirnar gagnvart sjálfu sér.

Sonurinn hefur enn ekki verið látinn svara fyrir eitt eða neitt neitt. Einnhver mun hafa pínt þau til að panta tíma hjá fjölskylduráðgjafa, sem leiddi þau rakleitt í sæla afneitun þangað til. Nú hefur tímanum verið frestað fram í febrúar. Fráleitt að taka eitthvað á sig áður en maður veit hvaða skít þessi ráðgjafi ætlar kasta, hafði einn sagt við frænda minn. Þau barma sér endalaust yfir örlögum sínum og fjölskyldunnar, en minnast ekki einu orði á neinn hinna sem tapað hefur fé og æru fyrir tilstilli sonarins.

Hér er um tvennt að ræða segir frændi. Annað hvort er þetta séræktað fjölskyldulægt siðleysi eða það er skömmin og sektarkenndin sem fær fólkið til að líta undan og loka augunum svo þau sjái ekki í eigin barm. Það forðast allir aðalatriðið. Allir hafa tapað fjársjóðum sínum, líka þeir sem allan tímann voru á móti þessum umsvifum. Þeir töpuðu sakleysi sínu þegar hinir töpuðu peningunum sínum. Saman segist þetta fólk vera að verja efnahaglegt sjálfstæði fjölskyldunnar og stolt sitt, en sér ekki að með hegðun sinni fyrirgerir það sjálfstæði sínu og svívirðir heiðurinn. Það rís ekki undir verkefninu og ferst í storminum. Enginn vill láta neitt af hendi og því missa allir allt.

5. október 2009

Villtar álftir

Sú dæmisaga sem mér verður oftast hugsað til var sögð af Þorsteini Gylfasyni í einhverri alþýðubóka hans. Hún fjallar um siðleysingja. Mann sem lagði á sig að ganga ofan úr Háskóla niður á pósthús til að kaupa frímerki á eitt prívatbréf, frekar en að leggja það með vinnupóstinum. Þessi maður sá, eftir því sem Þorsteinn sagði, ekki mörkin milli siðlegrar og ósiðlegrar notkunar almannafjár, en hélt að það væri ráðvendni að ganga sem lengst. Mun grimmara dæmi skilst mér megi finna í bókinni Villtir Svanir, þar sem pótintáti í kínverska Kommúnistaflokknum lætur þungaða konu sína hlaupa langferðalag á eftir bílnum sínum. Hann vildi ekki að misnota eigur Flokksins og alþýðunnar.


Það eru nýjir tímar og nýtt Ísland. Nú eru komnir þingmenn sem standa við sannfæringu sína fremur en selja atkvæði sín fyrir embætti og bitlinga. Og þessi háttur mun breiðast út og varpa oki gömlu spillingarinnar af herðum þjóðarinnar. Ferðalagið er hafið. Þjóðin fylgir á eftir.


Einhverjir munu þó hafa séð að bílinn ekur í hringi. Og að þjóðin er tekin að mæðast.

21. ágúst 2009

Leyfi veitt, nema leyfi hafi fengist fyrir banni

Skólabróðir minn í menntaskóla fékk sumarvinnu við stíflugerð. Nýliðarnir á virkjanasvæðinu voru settir inn í djobbið af sköruglegum verkjstjóra. "Á þessum vinnustað er góður mórall..." sagði hann í lokin "....og ef einhver er ekki með góðan móral verður hann rekinn".

"Agi verður að vera" sagði góði dátinn Sveik. Það er gildir alls staðar, líka þegar krafan um góðan móral og umburðarlyndi er annars vegar. Skítamórall er bannaður, heyriði það moðhausarnir ykkar.

Það er skítamórall að vera með nefið ofaní hvers manns koppi og það er skítamórall þegar ríkisreknir meðaljónar eru hafðir til að leggja stein í götu dugandi fólks. Til þess að bæta úr þessu var sett á laggirnar nefnd, Karlanefndin. Það skildi enginn setja af stað eftirlit og afskifti nema hafa til þess fengið leyfi hjá Karlanefndinni, Eftirlitseftirliti Ríkisins. Sighvatur krati greinir frá

10. ágúst 2009

Persóna í leit að höfundi sínum

Eftir fjögurra vikna sumarleyfisyndi hefst hversdagslíf á ný, á sjálfum afmælisdegi dótturinnar. Maður opnar gáttirnar eftir sumarleyfi frá stjórnmálum og átlisgjöf og sér lafhrædda þjóð. Þjóð sem elt hefur skottið á sér í allt sumar og stendur enn á sama stað, móðari og hræddari en nokkru sinni. Icesave málið óhugnanlega er samt í raun sáraeinfalt. Hvort treystirðu Steingrími eða vantreystir? Það er útilokað að prívatpersóna eigi kost á upplýstri skoðun í þessu máli, það þarf hernaðarlega afgreiðslu. Að velja aðra leið er að biðja um annan herstjóra. Hvern viltu, Bjarna, Sigmund Davíð, Saari? Þjóðin orgar af hræðslu. Menn eru gengnir af vitinu.

Það óróar mig helst að Steingrímur er hetja. Hann gengur til vopna í hildarleik sem hann ber enga ábyrgð á, en snýst til varnar af kjarki og ósérhlífni. Kemur fram hrokalaus og heiðarlegur og leggur líf sitt að veði. Enginn annar í þessari sögu kemst í námunda við hann að glæsileik. Og enginn fær fellt slíka hetju, nema eigin liðsmaður. Þjóðin grætur af hræðslu þegar hún skynjar að það er hetja sem fer fyrir henni. Hún á ekki skilið hetju, hún vill durt. Hrokafullan durt sem kúgar liðsmenn sína og fer með ofríki heima fyrir. Slíkum myndi hún fylgja, ekki hetju.

Íslands óhamingju verður allt að vopni er leiðarstefið í hrunsögu Íslendinga. Ótrúlegri sögu þar sem hið versta af verstu gerist hvað eftir annað og gæti nú nálgast nýjan hátind. Skynsemin segir annað, það er pólitísk fásinna vinstri græns að fella foringja sinn. Þess vegna hef ég hingað til sagt, að það muni ekki gerast. En í Íslendingasögunni, harmleiknum um hrunið verður samt svo að fara. Við erum áhrifalusar persónur, hvernig sem á allt er litið, en brátt fáum við úr því skorið hvort við erum áhrifalausir borgarar í raunveruleikanum eða persónur í sögu.

10. júlí 2009

Óhugnaður: Myndhverfing raungerist

Áður en mér tekst að loka augunum berast þær fréttir að Hótel Valhöll, Þingvöllum standi í björtu báli. Í alvöru, ekki á allegorískan hátt brennur Þingvallahótelið. Nýja Ísland, nýju Þingvellir.

Mange underbara ting

Ógæfu Íslands verður allt að vopni, áfram. Þetta er kunnuglegt úr Íslandssögunni, þegar það fer að ganga illa, þá skal það ganga illa, alla leið. Frekar þann versta en þann næst besta. Ofan á allt annað, já allt annað, sem dunið hefur yfir síðan pótemkíntjöldin hrundu er landið aftur stjórnlaust. Alþingi er í háalofti, því enginn vill kvitta undir nótuna eftir partíið sem rústaði hótelið og nú vilja þingmenn líka komast undan því að banka upp á annars staðar og spyrja hvað kostar. Íslendingar þurfa engan her, hann dræpi sig sjálfur frekar en að berjast.

Ég get ekki lengur horft á þetta. Nú dreg ég mig í hlé og bíð þess sem verða vill. Eftir allt, þá er svo marga dásemd sköpunarverksins að sjá og undrast á þessum tíma árs.

28. júní 2009

Grimmt gras

Fögur er Hlíðin, einkum út-Hlíðin. Ég var í Múlakoti um helgina og varð heillaður af Hlíðinni, einkum þó út-Hlíðinni. Þar sem hjalandi skopparalækir heilsa á aðra hönd, en á hina gnæfir Eyjafjallajökullinn, sú hin mikla mynd. Mitt formlega erindi austur var að slá gras. Með garðsláttuvél. Og gras kemur alltaf á óvart, það vex nefnilega yfir og hylur. Veggur sem reistur var fyrir nokkrum árum hefur í sumar sokkið í gras og er að hverfa. Þó sláttuvélar og bensínorf veiti sleitulaust viðnám, hefur grasið alltaf sigur.

Ég gúgglaði því gras þegar ég kom heim. Gras og ljóð. Mundi óljóst eftir samnefndu ljóði Carl Sandburg, án þess að muna höfundinn og hélt í þokkabót að Magnús Ásgeirsson hefði þýtt, en fann þetta ekki í mínum bókum. Kom í ljós að það var Steinn Steinarr sem snarað hafði ljóði Sandburg og það hafði ég oft lesið. Svo verð ég þess vís við að grúska þetta að Steinn hafði í raun ort nýtt ljóð. Aukið, bætt við og hnýtt framanvið Sandburg. Lesið nú finnst manni þetta eiga einkar vel við okkar blæddu útrásarþjóð.

Skreytið hendur og eyru
með glitrandi gimsteinum.
Haldið danskleiki og veislur
undir vorbláum himni.
Hrópið afreksverk ykkar og heljudáðir
af húsþökunum

Ég er gras og ég græ yfir spor ykkar.
......

Önnur og sannari íslensk snörun hlýtur að vera til, og er eins og mig minni að eina sé t.d. að finna í tilraunaútgáfu á nútímaljóðum fyrir skólaunglinga og kennd var í Hagaskólanum á liðinni öld. Nafn Finns Torfa Hjörleifssonar kemur upp í hugann, sennilega ritstjóri.

Snorri Hjartarson orti líka um grasið sem grær yfir leiðin, /felur hina dánu /friði og von. Þetta er úr ljóðinu Vor og það hefst svona:

Blessað veri grasið
sem grær kringum húsin
bóndans og les mér
ljóð hans,
þrá og sigur
hins þögla manns

Tilvitnunin er fengin af vef Mjólkursamsölunnar: jonas.ms.is. Vona ég að hér sé rétt til vitnað, en mjólkursamsalan hafi ekki hnýtt framanvið frá eign brjósti.

En aftur að að grasi Carl Sandburgs. Það er örugglega engin bændahylling og það fjallar ekki um hrokann eins og útgáfa Steins, heldur um grimmdina. Snilldin í þessari hnífbeittu stríðsádeilu er afstaða grassins. Grimmd grassins. Grasið hylmir yfir og því flökrar ekki við neinu. Þannig urðu vígvellir fyrra stríðs, því höfuðafreki vítisverkfræðinnar, strax iðagrænir aftur. Við lærum aldrei neitt, bötnum ekkert. Við teljum okkur trú um að tíminn sé hinn mikli dómari, en þvert á móti er hann á endanum sekur um mestu grimmd allra ódæðisverka, gleymskuna. Og þar af leiðandi endurtekninguna.

I am the grass.
Let me work.

Rekur þá á fjörurnar þessi dásamlegi flutningur skáldsins sjálfs, þökk sé youtube.

25. júní 2009

Ugla sat á kvisti, átti börn og missti......

Það er hægara um að tala en í að komast að vera í pólitík, eins og ýmsir fá nú að reyna. Vegna Icesavemálisins blasir við, ég leyfi mér að segja áhugaverð staða í íslenskri pólitík. Við lifum jú á áhugaverðum tímum. Nokkrir þingmenn Vinstri grænna hafa mjög látið í veðri vaka að þeir hyggist ekki samþykkja samninginn í þinginu. Einn þeirra, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sagði vegna þessa máls að nú væri tímabært að þingmenn fylgdu eigin sannfæringu. Sjálf greiddi hún samningsumboði ríkisstjórnarinnar mótatkvæði á þingsflokksfundi VG. Jú, er þetta ekki hárrétt hjá Lilju, eiga þingmenn ekki að fylgja eigin sannfæringu í hverju máli?

Gefum okkur nú að stjórnarandstaðan sammælist um að greiða atkvæði gegn samningnum. Þá standa þeir stjórnarþingmenn sem eru á móti honum frammi fyrir því, fylgi þeir sannfæringu sinni, að fella ríkisstjórnina og setja allar aðgerðir hennar í uppnám. Og sennilega margt fleira, því hvað yrði ekki sett í uppnám, liggur mér við að spyrja. Að ríkisstjórnin falli er auðvitað ekki sjálfgefið, en það yrði skársti kosturinn. Fyrir alla. Því eftir slíka lífsreynslu væri þessi ríkisstjórn óstarfhæf og biði ekki annars, ef hún dræpist ekki strax en að fjara út. Þá hefðu þingmennirnir sem fylgdu sannfæringu sinni komið til leiðar ástandi, sem erfitt er að ímynda sér hvernig yrði, eða til hvers leiddi. Maður gæti til dæmis vel hugsað sér að niðurstaða alls yrði í raun miklu verri en samingurinn sem þeir felldu, og þá meina ég verri á þeirra eigin mælikvaraða. Leiddi af sér enn frekara afsal fullveldis eða leiddi af sér enn þyngri drápskylfjar fyrir íslenskan almenning, svo ég grípi orðalag að láni. Það er einfalt að segjast fylgja eigin sannfæringu, en það er alls ekki einfalt þegar á hólminn er komið og afleiðingarnar eru ófyrirséðar.

Nú kann svo að fara að einhverjir þingmenn stjórnarandstöðunnar greiði atkvæði með samningnum og bjargi þar með ríkisstjórn, sem annars hefði fallið. Mega þá ekki allir vel við una? Tja, stjórnin stæði samt eftir stórlega löskuð. Enginn gæti vitað hvort andstæðingar samningsins í stjórnarliðinu notuðu bara tækifærið til að vera á móti, án þess að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingunum, eða hvort þeir hefðu verið á móti engu að síður. Og þó menn vissu það, þá væri það ekkert skárra. Stjórnin væri byrjuð að liðast í sundur á fyrsta erfiða málinu og eintóm erfið mál framundan.

Nú fer það að hljóma sennilega að stjórnarflokkarnir smyrji þessum Icesave samningi í gegn um þingið uppá eigin spýtur, hvað sem stjórnarandstaðan gerir. En samt geta einhverjir verið á móti, eða amk setið hjá. Og það er bara fínt að glöggt verði á munum, því hann er ekkert ástarbréf þessi samningur. Þá er bara spurningin, hvernig þeir verða valdir sem mega fylgja sannfæringu sinni?

24. júní 2009

Hvað eiga aðilar upp á dekk?

Hver bað Vilhjálm Egilsson, Gylfa Arnbjörnsson, Eirík Jónsson, Árna Stefán Jónsson og þessa kalla sem sigla undir fána "aðila vinnumarkaðarins" að taka við stjórn landsins? Nú sitja þeir og karpa um hvernig ríkisfjármármálunum skuli háttað mörg ár fram í tímann. Fulltrúar opinberra starfsmanna gengu á dyr í dag, því þeir vilja meiri skatt en minni samdrátt ríkisútgjalda. Auðvitað, þeir eru fulltrúar opinberra starfsmanna. Hinir eru svo fulltrúar einhverra annarra, launamanna og atvinnurekenda og ganga á dyr af einhverjum öðrum tilefnum. Fjármálaráðherra er í útlöndum brýnna erindina að slá fyrir næstu útborgun, en minnti í útvarpsfréttunum á góðbónda sem staddur er af bæ þegar hann fregnar að vinnumennirnir séu komnir í hár saman og hættir að moka flórinn. Hvaða vitleysa er þetta, geta mennirnir ekki hætt að jagast um tiltlingaskít meðan mykjuhaugurinn hleðst upp, sagði hann.

Þetta hef ég lengi undrast: Af hverju halda menn að samkomulag "aðila vinnumarkaðarins" jafngildi þjóðarvilja? Hvað þá að menn haldi að útkoman jafngildi bestu þjóðarhagsmunum. Pólitík er ekki debet og kredit mismunandi hópa launamanna annars vegar og atvinnurekenda hins vegar. Pólitík snýst um innviði samfélagsins. Laun og hlutafjárarður eru afleiddar stærðir. Hversu farsæll yrði sá sem ákveður fyrst hvaða hann vill þéna og tekur svo stefnu í lífinu einvörðungu til að þjóna því markmiði?

Fært yfir á frétt dagsins; það er afar mikilvæg pólitísk ákvörðun fyrir kjörna fulltrúa að ákveða hvaða opinbera þjónustu við getum veitt eins og nú háttar, en það er ekkert sem Eiríkur Jónsson og Vilhjálmur Egilsson eiga að ákveða sín á milli.

19. júní 2009

Hver er hræddur við Evu Joly?

Jón Kaldal aðalritstjóri Fréttablaðsins er beygður í leiðara dagsins. Þjóðhátíðartillögu hans um að reka Evu Joly var illa tekið. Jón barmar sér yfir viðbrögðunum. En auðvitað vissi hann hver viðbrögðin yrðu. Hann veit að Íslendingar hafa lagt óhemjutraust á Evu Joly og segir það sjálfur. Traust og trúverðugleiki er Íslendingum latína um þessar mundir og Joly kemur að utan. Hérlendis finnst í besta falli fólk sem talar þetta annarlega tungumál traustsins með sterkum hreim. Jón vissi vel hvers var að vænta þegar hann stendur upp, eins og Guðbergur á frægri bókmenntahátíð og segir við heiðursgestinn: gó hóm. En leiðari dagsins hjá Fréttablaðinu gæti vel hafa verið saminn á undan hinum. Hann er fyrirsegjanlegur þeim sem fylgjast með og sjá tekið í taumana. Þetta liður í tafli, þetta er Sikileyjarvörn. Og orðið Silkileyjarvörn ekki valið af handahófi.

En Jón Kaldal grípur til gamla ráðsins að snúa flíkinni við. Beitir eigin veikleika sem vopni. Fjölmiðlarnir voru skammaðir svo mikið segir hann. Þeim var kennt um svo margt, en sjáið það brugðust allir. Meira að segja listamennirnir, sem eiga þó allra manna fyrstir að vara við, brugðust. Hvers ætlast menn eignlega til af okkur, dauðlegum blaðamönnum? Og nú er þetta að endurtaka sig segir Jón Kaldal. Í þetta skiptið blindast menn af Evu Joly.

Einmitt það. Það má ekki einu sinni segja Eva Joly gó hóm og allt verður vitlaust.
Eigum við ekki að þakka Jóni fyrir að standa vaktina? Fyrir að benda á nýju hættuna. Benda okkur á að við stöndum í sömu sporum og þegar Fréttablaðið, saklaust en blint, boðaði á sínum tíma fögnuð hins íslenska efnahagsundurs . Nú ætlar ritstjórinn hins vegar að standa sig betur og vara við hættunni í tæka tíð. Hættunni sem persónugerist í þessari konu, Evu Joly. Eva Joly gó hóm!


Hver er hræddur við Evu Joly? Ert þú hræddur við Evu Joly eða veistu um einhverja sem hafa ástæðu til að óttast?

16. júní 2009

Þjóðhátíð 2009

Oft hef ég séð undrunarsvipinn á útlendingum þegar maður svarar þeim um fólksfjölda á Íslandi. Þeim finnst fáheyrt að sjálfstæð þjóð getir verið svo fámenn. Og víst er það fáheyrt, en aðstæður hér eru líka einstakar. Fólk hefur lifað á þessari eyju lengur en ellefu aldir, sami ættstofn, sama menning. Afrek að hjara allan þennan tíma við harðindi, hamfarir, farsóttir og heimsku. Svo skánaði þetta eitthvað, veðrið batnaði og ilmur af nýrri heimsmenningu barst til landsins, þökk sé hinni sönnu móður þessa lands um allar aldir, hafinu og íbúum þess. Hin nýja veröld tækninnar ruddi á Íslandi nýja vegi, nýja atvinnuvegi. Og hin nýja veröld lýðræðis, frelsis og jafnræðis gaf þeirri hugmynd vængi að fólk það sem byggði þessa eyju væri sérstök þjóð, sem verðuskuldaði að vera fullvalda þjóð. En ekki eru allar þjóðir sjálfstæðar og fullvalda, jafnvel þótt stærri séu, margfalt stærri. En hér hefur þessi þjóð búið, í þessari veiðistöð, þar sem enginn skyldi trúa að nokkur kynni að búa, eins og Norðmenn segja. Og eins og fjölskylda sem byggt hefur sama bæinn mann fram af manni eiga Íslendingar landið. Þetta er þeirra land og þeirra veiðislóð og þeir sem hér fæðast eða hingað flytjast eignast hlut í þessu landi um leið og þeir verða hluti af þessari skrítnu þjóð. En þetta er eins og alltaf bæði debet og kredit, eign og skuld í senn. Landsýn Steins Steinarrs hefur mér alltaf fundist eina skynsamlega ættjarðarljóðið: "Sjá hér er minn staður, mín þjáning mín þrá/mitt þróttleysi og viðnám í senn".


En hvernig getur slík örþjóð staðið sjálfstæð, spyrja útlendingar. Ég veit það ekki, en spyr mig af hverju þjóðin lagði ofurkapp á fullkomið sjálfstæði. Við lærðum í barnaskóla miklar sögur af arðráni og verslunránauð nýlenduþjóðarinnar, engum er treystandi til að tryggja afkomu fólksins eða nytja auðlindirnar öðrum en Íslendingum sjálfum, lærðum við. Rökin í sjálfstæðisbaráttunni voru efnahgsleg, hvað sem allri fjalladýrðinni og ylhýrri íslensku leið. Fjórtán ára gamall tók ég þátt í 50 mílna þorskastríðinu. Gekk eldheitur til baráttunar með stríðsöskrum með heimatilbúið kröfuspjald, sem í sjónvarpsfréttum kvöldsins sást hverfa inn um brotinn glugga breska sendiráðsins. Óskoruð yfirráð Íslendinga yfir íslenskum auðlindum, takk fyrir. Þetta var fyrir 34 árum, þá voru 31 ár frá lýðveldisstofnun. Þrjátíu ár frá stríðslokum.


Í dag er 17. júní 2009. Sjáið okkar stað, okkar þjáningu, okkar þrá! Drottinn minn dýri, hvað höfum við gert? Verðskuldar þjóð sjálfstæði sem leyfir örfáum mönnum að vaða yfir allt og alla með bókhaldsránum, yfirgangi og firringu.? Þjóð sem lætur það gott heita að auðlindunum sé úthlutað til örfárra. Þjóð sem leyfir spekúlöntum að veðsetja alla sína sjóði svo þeir geti þjónað sínum hégómadyntum.

Ég veit ekki hvernig örþjóðin fer að því að standa sjálfstæð meðal þjóða. Þrjúhundruð þúsund manns sem standa undir sjálfstæðu, nútíma ríki. En hitt veit ég, að þessi þjóð hefur gengið hreint til verks við að svívirða öll helstu rök eigin sjálfstæðis. Og nú þegar haldin er þjóðhátíð í skugga nauðarsamnings við Breta getur ekkert breytt biturri staðreynd. Hversu ósvífnir sem viðsemjendurnir hafa verið, hversu óhönduglega sem við höfum tekið á málinu á öllum stigum, hverjum lagalegum vafa samningurinn kann að vera orpinn, hversu auðsveipin og aum íslensk stjórnvöld eru í þessu máli, fær ekkert breytt þeirri biturri staðreynd að ánauð okkar kemur nú ekki að utan, hún er okkar.

Við höfum séð nóg af þróttleysi okkar, nú reynir á viðnámið. Viðnámi okkar hvers og eins, þjóðarinnar sjálfrar gegn þeim persónulega, sem augljóslega finnst þeir hafa einskis að iðrast og ætla engu að breyta og viðnámi gegn hugarfarinu sem að baki býr.

24. apríl 2009

X-bé model 2009

Framsóknarflokkurinn er með framsæknasta PR-listamannin. Fyrir síðustu kosningar var flokkurinn seldur unga fólkinu. Fannst ykkur það ekki snjallt? Sú fáránlega hugmynd að Framsókn væri svalasti flokkurinn sló hina út af laginu. En í augum ungdómsins er heimurinn alltaf nýr og x-bé hugmyndin ekkert fáránleg.

Nú er annað snilldartriði í gangi. Óvænt kosningaloforð á síðustu stundu: Nýtt hrun.

21. apríl 2009

Stundin er komin

Áður fyrr var ég andsnúinn umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Man að einhver kallaði mig þjóðernisíhaldsmann á háskólaárunum. Ég var á móti aðild vegna þess að mér fannst að þá myndi Ísland ekki ráða sér sjálft. Var undir áhrifum tveggja Jónasa, annars frá Hrauni hins frá Hriflu. Sá síðarnefndi ritaði Íslandssögu fyrir börn, sem svei mér þá virðist enn ráða söguskoðun þorra Íslendinga. Síðar komst ég á þá skoðun að aðild að Evrópusambandinu væri óumflýjanleg og er nú löngu búinn að sætta mig við tilhugsunina. Afstaða mín byggir ekki á neinni aðdáun á þessu fyrirtæki og hún byggir heldur ekki á neinni Brusselglýju, þó ég hafi búið þar einn góðan vetur hér um árið. Afstaða mín hefur sennilega mest mótast af örlítið meiri lestri Íslandssögu.

Þó sagnfræði Jónasar frá Hriflu sé skemmtileg, einkum fyrir únga dreingi og rómantísk þjoðernishyggja Fjölnismanna menningarlegur hornsteinn eru þetta slakir pólitískir manúelar. Íslendingar hafa alltaf verið undir ægishjálmi stórvelda og verða það áfram meðan hér er eftir einhverju að slægjast. Og viðskipti við útlönd hafa alltaf ráðið auðnu þessa lands. Ég sá því Evrópusambandsaðild ritaða á vegginn fyrir löngu. Viðskiptin myndu reynast rómantíkinni sterkari og við því væri hreint ekkert að segja. Og enginn er eyland, ekki einu sinni Ísland. Smám saman sætti ég mig við þessa hugsun svo að þegar ég var beðinn um að skrifa undir sammála.is var því fljótsvarað. Samningaviðræður, svo þjóðaratkvæði: Sammála.

Nú er stundin er komin. Fyrr og verr en nokkurn gat grunað. Í raun er ekkert val, Ísland þarf að leita skjóls. Það er ekki einu sinni val um að vera ósammála, nema bara í nefinu. Þetta er að renna upp fyrir fólki. Tillaga Sjálfstæðisflokksins að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn verði beðinn um að láta leyfa okkur að nota evru!! segir allt sem segja þarf um valkostina. Okkur stendur ekki einu sinni til boða að taka upp rúblu. Teningunum er kastað. Við reyndar misstum þá úr höndunum, en verðum að hlíta kasti engu að síður.

2. apríl 2009

Íslands feilspekúlering

Ég las heimsku út úr myndinni af klikksögu Íslands. Ég átti þar við, að á einhverjum tímapunkti hafi atburðarásin hrifsað stjórnina úr höndum þeirra sem héldu sig ráða. Þeir hefðu verið að fikta við hluti sem þeir réðu ekki við. Nú stígur fram hagfræðingur sem segir að Seðlabankinn hafi af heimsku gert hlut þjóðarinnar stórum verri en annars hefði þurft að vera. Hagfræði 101: Hygginn maður tekur í verðmætum veð. Það lítur því út fyrir að heimskan hafi ekki bara hrundið hruninu af stað heldur hafi heimskan svo gert illt verra þegar í óefni var komið.

Voru það mennirnir sem brugðust eða stefnan spurðu menn í Sjálfstæðisfloknum og svöruðu upp á fimm komma núll. Auðvitað er rétt svar að það var hvoru tveggja, menn og stefna. En spurningin er góð: menn eða stefna? Í útlöndum hafa fjámálakerfin siglt strand eftir sömu stefnu og hér, en löndin samt ekki hrunið. Við Íslendingar höfum nefnilega heimskuna fram yfir hina. Íslandsheimskan virðist því vera áhugavert rannsóknarefni og verst hvað Íslensk erfðagreining á bágt núna, kynni einhver að hugsa. En heimska okkar hefur ekkert með genin að gera. Hins vegar kann fámennið að skipta máli. Þjóðin er svo lítil að það er ekki sjálfgefið að hér sé til staðar fólk sem hefur burði í ýmiss snúin stöf. Það er ekkert grín að halda flóknu samfélagi í góðu standi í heimi sem er sífellt verður tæknilegri og flóknari. Það gerir málið ennþá verra fyrir okkur, að fámennið með klíkuskap og nebútisma ýtir undir að einmitt grínistarnir veljast í erfiðustu stöfin. Samt höfum við í raun ekki efni öðru en tefla alls staðar fram okkar færasta fólki.

Hinn brúnaþungi, finnski heimspekingur Georg Henrik von Wright var ekki bjartsýnn í bók sinni "Vetenskapen och förnuftet" sem kom út 1986. Hann rekur hugmyndasögu Vesturlanda og sér ljón á veginum framundan. Umfjöllun hans um umhverfismál hefur spámannlegan kraft lesin nú, en það er fleira sem vekur honum ugg. Stöðugt tæknilegri og flóknari samfélagsgerð kallar á sterkara og sterkara sérfræðingaveldi. Þetta verður um leið ógnun við lýðræðið, því hinir pólitísku fulltrúar þurfa reiða sig á sérfræðingana. Litlar þjóðir, með fáa sérfræðinga og litla burði í rannsóknum og þekkingarleit lenda í vanda. Tilvist þeirra getur meira að segja verið ógnað. Það er athyglisvert að lesa þessi orð nú, einkum fyrir Íslendinga:

"Ákvarðanamistök geta orðið heilum þjóðum örlagarík. Þannig fer vísinda- og tækniþekkingin að vega þyngst við ákvarðanir sem varða framtíð þjóðarinnar. Hér kemur í ljós hve "tæknileg nauðhyggja" ræður miklu í samfélagsþróuninni. Æðsu ráðamenn gera sér iðulega ekki grein fyrir hagsmum (óskum) hverra þeir þjóna. Óljósum hagsmunum þjóðarinnar (fólksins, samfélagsins) eða þrengri og betur skilgreindum hagsmunum sérfræðinga, markaðsmanna og framleiðenda? Valið er bara í orði kveðnu, ákvörðunin er í raun þvinguð fram af aðstæðunum." (síða 139-140).

(Feilinvesteringar kan visa sig vara ödersdigra nationella misstag. Sålunda får det tekniskt-vetenskapliga kunnandet ett avgörende ord i det beslut, som styr nationernas öden. Häri visar sig "det teknologiska imperativets" dirigerande roll i samhällsutveclingen. De högste beslutsfattarana kan ofta inte längre bedömma vems intressen (önskningar) deres beslut tillmötesgaar: "folkets" (nationens, samhällets) obestämde eller experternas, marknadsförarnas och producentarenas mera begrensede men därför i regel bättre definerade maalsettningar. Beslutet ar bara skenbart fritt och i själva verket framtvigat av "omstendigheterna").

31. mars 2009

Ísland: Spillvirkjainni

Ég hef verið beðinn að rökstyðja orð mín um þjóðkirkjuna. Það gefur mér tilefni til að hugsa. Afstaða mín hvílir á tveimur forsendum, annars vegar að efnishyggja síðustu ára hafi verið svo skefjalus að rétt sé að tala um siðbreytingu, siðbrest. Hins vegar að kirkjan eigi að láta til sín taka þegar slíkt hendir.

Fyrri hugmyndin, að á Íslandi hafi orðið siðaskipi, er samferða þeirri hagfræðiskýringu að bóluhagkefið sem spratt upp sé annars konar en það kerfi sem var, eða þeirri læknisfræðilegu skýringu að þjóðin hafi orðið manísk. Margir hafa sem sagt lýst því, hver með sínu orðalagi, að skyndilega hafi samfélagið orðið afbrigðilegt eða sjúkt. Hvað finnst trúmönnum? Hvernig vilja þeir lýsa þessum umskiptum? Ég notaði í fyrri pistli orðið andsetinn, talaði um að andskotinn hefði rænt hjörtum fólks og sagði að guði hefði verið afneitað. Allt saman bara orð amatörs, sem veit ekki hvaða orð guðfræði þjóðkirkjunnar hefur í sínum bókum til að lýsa þessu.

Kannski eru sumir trúmenn ekki sammála. Guðleysið sé það sama hvort sem auðmaðurinn hafi hundraðföld laun verkamansins eða tíföld, hvort sem við látum glepjast af sumarhöll eða uppþvottavél, hvort við förum yfir á visakortinu eða tæmum sjóði Seðlabankans. En slík afstaða er bókstafstrú, sem ég held að þjóðkirkjan okkar sé til allrar guðs mildi laus við. Fúndamentalismi eða bóksafstrú sneiðir hjá því að taka siðferðislega afstöðu til venjulegs lífs með því að halda fram reglu án viðmiðs. Málið hér snýst um það, að traðkað var á öllum venjulegum viðmiðum. Hér má grípa til dæmisögu. Það er bannað að stríða og hrinda eins og kunnugt er. Kennari er látinn fylgjast með skólabörnum að leik í frímínútunum. Hann sér að þau stríða hvert öðru og hrinda, en hann lætur það átölulaust á stað og stund, þrátt fyrir að hafa ótal sinnum kennt að svona eigi ekki að haga sér. Þegar hann verður hins vegar var við einelti, að hann telur, skerst hann strax í leikinn. Börnin skilja kannski ekki mun stríðni og eineltis eða verður a.m.k ekki ætlaður sami siðferðisþroski og kennarinn. Við gerum hins vegar kröfur til þess að kennarinn hafi þroska, þekkingu og frumkvæði til að stöðva einelti.

En hvað getur kirkjan gert? Þessu má líka svara með dæmisögu. Dæmið gefur Kristur sjálfur. "Jesús gekk inn í musterið....borðum þeirra, er reiðupeningum skiptu og stólum þeirra, er dúfur seldu, hratt hann um." Segir Oddur Gottskálksson í sinni þýðingu. "Er það eigi skrifað að mitt hús skuli kallast bænahús öllum þjóðum? En þér hafið gjört það að spillvirkjainni."

30. mars 2009

Kirkjan afneitar guði og öllum er sama

Kirkjan er kölkuð gröf. Íslenska þjóðin verður ekki einu sinni fyrir vonbrigðum þegar þjóðkirkja hennar afneitar guði sínum, enda trúlaus þjóð fegin að geta afskiptaslaust dýrkað Mammon. Ekki svo að skilja að kirkjan hafi ekki kennt að andleg verðmæti séu fremri efnalegum gæðum. En þegar á reyndi voru gagnvegir til hinna andlegu linda kirkjunnar ekki greiðari en svo, að hún þekkti ekki guð sinn. Fattaði ekki að andskotinn hafði tekið sæti hans og stolið hjörtum fólksins.

Sjáið hvað græðgi og skefjaleysi náði ótrúlegum hæðum á örfáum árum. Sjáið hvernig valdhafarnir blessuðu græðgina. Sjáið andvaraleysi okkar og fákænsku þegar við héldum að auðæfin væru raunveruleg og siðferðið ásættanlegt. Sjáið hvað trú kirkjunnar var veik. Aldrei reis íslensk þjóðkirkja upp og mótmælti valdhöfunum, auðmönnunum, bönkunum og blekkingunni. Hún sá ekki það sem gerðist. Sá ekki að þjóðin var ekki lengur trúlaus eins og venjulega, heldur andtekin. Þjóðin sá það ekki sjálf, en hún er trúlaus. Úr því að kirkjan sá það ekki heldur, hlýtur hún líka að vera trúlaus. Nema hún sé svona fullkomlega huglaus og það er trúleysi út af fyrir sig.

26. mars 2009

Góðir Íslendingar

Geir Hilmar Haarde hefur beðið Sjálfstæðismenn afsökunar á mistökum við landstjórnina. Frammistaða forystunnar kemur Flokknum illa í komandi kosningum. Hann drjúpir því höfði frammi fyrir því valdi sem veitti honum brautargengi, en er nú ekki í aðstöðu til að útnefna arftaka hans nema til hálfu leyti. Flokkurinn fær nýjan formann, ekki forsætisráðherra.

En hvað með þjóðina? Hver á að biðja þjóðina afsökunar á þessum afglöpum? Þessu er engan veginn einfalt að svara. Hvor á að afsaka fyrir hvorum og hvor að fyrirgefa hvorum, Flokkurinn eða þjóðin? Mörkin milli þjóðar og Flokks hafa löngum verið óljós. Gamall skólabróðir minn hermdi snilldarvel eftir Geir Hallgrímssyni. Hann fór jafnan með þetta ávarp: "Góðir Íslendingar og aðrir Sjálfstæðismenn!"

22. mars 2009

Á valdi heimskunnar

Grafið sýnir klikkögu Íslands, erlendar skuldir í áranna rás (sem hlutfall af þjóðarframleiðslu). Eftir mörg ár lítilla breytinga gerist eitthvað um aldamótin. Við sjáum skarpan vöxt, þá veldisvöxt og svo líður að hruni. Virtir geðlæknar segja að íslenskt samfélag hafi orðið manískt. Það er eflaust rétt, en manía eykst ekki með veldisvexti. Þó myndi manía í kanínur gera það væri hún metin út frá fjölda kanína. Grafið sýnir að Íslandsklikkunin var óskapnaður sem óx stjórnlaus af sjálfum sér. Á einhvern hátt höfðu menn hleypt til í bönkunum svo að skuldirnar gátu sjálfar tekið að æxlast. Græðgin var ugglaust mikil, en það skildi enginn vanmeta þátt heimskunnar í klikksögu Íslands.

Gísli... Eiríkur...Helgi

Helgi keypti, út á krít, tíaur af Gísla. Greiddi tuttugu aura fyrir. Hann seldi Eiríki aftur á fjörtíu, sem Eiríkur hafði fengið lánaðar hjá Sparisjóði Svarfdæla, enda áhættulaus viðskipti. Ljóst var nebbnilega að Gísli var meira en viljugur að láta áttatíu aura fyrir slíkan forláta tíaur. Tíaurinn á Bakka kostaði tæpan tíkall þegar Sparisjóðinn þvarr lánstraust hjá faktornum á Akureyri og fór á hausinn. Var það mikill hnekkir fyrir Svarfdæla. En á ótrúlega skömmum tíma risu þeir aftur upp till fyrri vegsemdar. Svarfdælingar eru nebbnilega þekktir fyrir frumkvöðlaeðli. Og stuttar boðleiðir, ekki má gleyma því.

16. mars 2009

Lygi

Ég hef verið bloggstola lengi. Gert margar atrennur en allt runnið út í sandinn. Það liggur andlega lamandi þoka yfir bænum, sennilega prófkjörseimur. Þetta verður leiðinleg kosningabarátta, þykist sjá það á flugi fugla.

Lygin hefur legið mér á hjarta, hún tók við af rigningunni eftir að við fluttum heima frá Bergen. Ég hef reynt að blogga um hana, en orðið frá að hverfa vegna leiðinda. Ég var að reyna halda því fram að gamla ríkissjórnin hefði fallið á lyginni. Forsætisráðherra gripinn vegna óvenjulegra mannaferða undir Arnarhóli skrökvar eins og stákur. Ríkisstjórnin sem fetar sama veg áfram þrátt fyrir hrun og viðurkennir ekki að hafa gert neitt rangt en lofar öllu góðu, líka því sem hún ætlar ekki að efna. Ríkisstjórn með Stokkhólmsheilkennið, gísl bankakerfis sem fór landa á milli með boðskap um "traust íslenskt fjármálakerfi og góða stöðu bankanna". Boðaði lygi af ótta við sannleikann. Þannig var það og þetta verður að segjast eins er. Hversu ósanngjarn sem heimurinn annars er verður lygin að njóta sannmælis. Lygi er lygi. En allir eiga leiðréttingu orða sinna nema andskotinn var haft eftir Elíasi Mar. Þegar leiðréttingin lét á sér standa og ljóst að hugarfarsbreyting yrði engin braust búsáhaldabyltingin út.

Lygin er laukur. Ef byrjað er að skralla stendur ekkert eftir. Þægindalygi á sunnudegi spretta úr jarðvegi sem nært hefur lygi. Stjórnmál ímyndar og leikritunar, pí-errs og spuna byggja á lygi. Þeim mun lengra sem þau ganga, þeim mun flinkari sem atvinnumennirnir eru, þeim mun meiri er lygin. Af sjálfu leiðir. Orðið sjálft "almannatengsl", "public relations", segir sína sögu. Það eru notað um áróður, própaganda, sem hefur ekkert með tengsli að gera. Menn kaupa ekki pí-err til að læra sjálfir eða leita sannleikans, heldur til að gera fiksjónina sennilega. Hitt kann svo að gerast að menn gangi sjálfir inn í skáldskapinn og fari að trúa ímyndinni. Halda að þeir hafi orðið Anna Frank með aðferðum Leni Rifensthal. Leiðin að sannleikanum er hins vegar bara ein.

Lygin býr í okkur sjálfum. Ekkert samfélag byggir slíkar hátimbraðar blekkingaborgir eins og nú hrynja víða um lönd, nema að lygin sem þær eru reistar á hafi áður breiðst út meðal einstaklinganna. Og fólk er ginnkeypt. Miklu hryllilegri lygi en okkar hefur heltekið heilu þjóðirnar bæði nýlega og nálægt okkur. Okkar lygi var auðvitað tilbrigði við dansinn kring um Gullkálfinn. Efnahagsleg gæði hafa verið megin stefið í stjórnmálum með kröfunni um meira handa öllum. Deilan hefur snúist um aðferðina, ekki tilganginn. Við völdum líklega versta kostinn, hreina viðskiptatrú. Viðskipti sem sannleikurinn og lífið, markaðurinn guð. Þetta er sá öfugsnúni kristindómur sem segir að til að komast inn í himnaríki þurfi að kasta frá sér öllu öðru en veraldlegum gæðum. Við lugum því að okkur sjálfum að græðgi væri ekki til, réttlætið fælist í góðum bisness og kærleikurinn í hagnaði. Við sögðum að öræfakyrrðina mætti meta til þeirra verðmæta sem fengjust í aðgangseyri. Sögðum að auðsöfnun einstaklinga endurspeglaði velmegun þjóðarinnar. Héldum að kaupgetan væri manngildi.

Nú snýr það að okkur sjálfum að leiðrétta lygina. Vegurinn að sannleikanum er aðeins einn og hann er liggur inn á við. Til að geta krafið aðra um sannleikann verðum við að vera sjálfum okkur samkvæm og heiðarleg. Við sem viljum breytingar, nýtt gildismat, verðum fyrst að svara hver okkar persónulegu lífsgildi eru. Málið snýst ekki um hverjum jakkafötin fari best.

4. mars 2009

Fegurð minni pokans

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra er á móti álveri í Helguvík. Er þetta ekki fáheyrt, sé ég bloggara býsnast. Í þessarri tíð, að blessuð manneskjan hafni þrjú þúsund störfum handa 6000 auðum höndum. En Mörður Árnason, hinn græni varaþingmaður Samfylkingarinnar, er líka á móti Helguvík. Össur er hins vegar með, guði sé lof og ætlar að hafa sitt fram, enda meirihluti á þingi fyrir slíku stórvirki. En verður það ekki hneysa fyrir Kolbrúnu að umhverfisráðherrann láti í minni pokann?

Í Reykjavíkurtjörn stendur ráðhúsið, sem flestum þykir nú dálítið vænt um. Gamlir Reykvíkingar muna æstar umræður þegar Davíð Oddsson óð út í Tjörnina með þetta gælumannvirki sitt. Pólitískir andstæðingar sökuðu hann um bruðl og oflátungshátt, en hann strauk líka gamla reykjavíkuríhaldinu í eigin flokki hastarlega andhæris með þessari byggingu. Það mega sagnfræðingar um dæma, en mér finnst sennilegt að sigur Davíðs í þessu máli hafi orðið honum mikilvægt veganesti. Löngu seinna upplýsti Davíð Oddsson að hann hefði í raun alls ekki viljað þetta hús, heldur annað, en varð undir í atkvæðagreiðslu. Hann fór þá fram á nýja atkvæðagreiðslu og greiddi vinningstillögunni atkvæði sitt. Þetta fór fram á lokuðum fundi og varð ekki opinbert fyrr en hann sjálfur sagði frá.

Davíð var með þessu að lýsa aðferð sem hann lagði mikla áherslu á: Mál skulu útkljáð fyrirfram. Samstaða er nefnilega skynsamleg og hún virkar. Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér. Spyrjið gömlu vinstrimennina hve mörg góð mál hafa verið eyðilögð með innbyrðis deilum um aukaatriði. En þó samstöðupólitík gefi styrk verður hún fjandlýðræðilsleg gerð að reglu. Í höndum machiavelliskra stjórnmálamanna breytist samstaða í sameinuðu furstadæmin. Fyrir luktum dyrum hætta menn að miðla bara málum, en fara að miðla gæðum. Deila með sér völdum og auði. Þetta er hættan sem býr í kerfinu, sama hvaða fólk á í hlut. Á endanum verður pólitík sem metur samstöðu og styrk ofar öllu að mafíustarfsemi. Fasismi í gæru lýðræðis.

Án þess að hafa ástæðu til að væna fólk um sjálfshygli, hvað þá heldur fasisma er pólitíski veggurinn, þessi skilyrðislausa samstaða ljótur hvar sem hann birtist. Fjölbreytileikanum er hafnað, hinu veikburða vikið til hliðar og falið. Falskur samhljómur tekinn fram yfir polyfóníu samfélagsins. Áróðurstækni tekin fram yfir sannleikann. Styrkurinn tekinn fram yfir fegurðina.

En áhrifa árangursríkra aðferða Flokksins sem ráðið hefur lögum og lofum á Íslandi áratugum saman gætir víðar en menn þora að viðurkenna. Þegar Samfylkingin varð til sem breiðfylking jafnaðar- og vinstri manna var Flokkurinn fyrirmyndin, leynt og ljóst. Og keppinautur. Ingjbjörg Sólrún var hið fullkomna mótspil. Andstaða innmúraðs karlaveldis og spillingar Flokksins, en um leið sterkur foringi. En lífið er bæði duttlungafullt og mótsagnarkennt því styrkurinn og viljinn urðu henni að falli. Og veikasta ríkisstjórnin með ólíklegasta forsætisráðherrann reynist nú svo miklu sterkari en sterkasta ríkisstjórnin með óhjákvæmilegasta forsætisráðherrann.

En aftur að niðurlæginu ráðherrans á þingi. Kolbrún og félagar hennar til vinstri og græns hafa margoft sagst mótfallin fleiri álverum. En nú eru aðrir tímar og kannski breyttar forsendur svo þingmenn þurfa að meta afstöðu sína á ný. Það hefur umhverfisráðherrann gert og komist að sömu niðurstöðu og áður: Hún er á móti álveri í Helguvík. Svo er um fleiri á þingi, en þó örugglega minnihluta. Þá eiga þessir þingmenn auðvitað að greiða atkvæði á móti. En skipta atkvæði taparanna máli? Jú, þeir setja með þessu verðmiða á aftöðu sína gegn álversbyggingum. Þrátt fyrir árferðið og allt að þrjúþúsund stöfum á byggingatíma eru þeir samt á móti. Þeir ljá umhverfispólitík sinni skýrari merkingu. En með ákvörðun sinni fæla þeir frá einhverja kjósendur, eða laða til sín. Þá þarf þess að gæta þegar kosið er til þings. Vilji samfylkingarsinni til dæmis launa Merði en refsa Össuri verða að vera tök á því. Krafa um persónukjör til þings eru því eðlileg viðbrögð um leið og almenningur hafnar leiðtogaveldinu. Persónukjör á þing þar sem allur þingflokkurinn er alltaf sammála er óþarft. Þingið sjálft er í raun óþarft.

Til að svara spurningunni í upphafi, nei. Það er ekki alltaf veikleiki að lenda í minnihluta, jafnvel fyrir ráðherra. Það getur þvert á móti verið styrkur, töpuð orrusta í sigurstríði. Á hinn bóginn, sá sem vinnur allar orrustur tapar að lokum fyrir sjálfum sér.

25. febrúar 2009

Boðin vinna í Noregi

Ingimundi Friðrikssyni fráfarandi seðlabankastjóra var boðin vinna í Noregi. Ráðgjafahlutverk við norska seðlabankann. Honum líst vel á boðið og er að hugsa um að taka því, en hefur ekki ákveðið sig endanlega. Þetta kom fram í öllum helstu fréttamiðlum landsins í gær. Það sem hins vegar kom ekki fram, er að mér hefur einnig verið boðin vinna í Noregi. Khatan Al-Azawy yfirlæknir og sviðsstjóri lungnadeildar Haukeland Háskólasjúkrahússins í Björgvin sagði í tölvubréfi að ég væri velkominn til vinnu ef svo færi "að vestanvindarnir bæru mig yfir hafið". Er ég efins um að vinnutilboð Ingimundar hafi verið jafn ljóðrænt. Þótti samt stórfrétt.

20. febrúar 2009

Opið bréf til jarðarbúa

Kallið mig Íslending! Ég krýp ekki fyrir neinum. Sjálfstæði og frelsi hef ég tekið mér, ekki þegið. Hendiði gaman að íslenskum her, einum manni undir vopnum. Ég heyri engan hlæja nú þegar ég miða byssunni minni. Sjálfstæði mitt og frelsi kemur úr byssuhlaupinu. Frelsistákn Íslands er hvalskutulinn. Minnsti her í heimi mun hafa sigur.

Jarðarbúar! Gefist upp strax. Ég hef tekið í gíslingu alla þá hvali er synda í landhelgi minni. Ég hika ekki við að skjóta þá, einn af öðrum þar til gengið verður að kröfu minni. Ég vil full yfirráð yfir náttúruauðlindum míns eigin hafs. Að þeim fegnum mun ég skjóta ennþá fleiri hvali.

17. febrúar 2009

Indriðafundir

Ferill minn í stéttabaráttunni var stuttur. Ég sat nokkra mánuði í samninganefnd Læknafélags Íslands fyrir hönd unglækna. Menn gera sér væntanlega grein fyrir að langt er um liðið. Formaður okkar var Sverrir Bergmann, húmorískur og kvikur taugalæknir sem setið hafði á þingi fyrir Framsóknarflokkinn og hefur eflaust verið fenginn í verkið vegna þekkingar sinnar á stjórnsýslunni og pólitískri refskák. Foringi andstæðinganna, samninganefndar ríkisins, var Indriði Þorláksson, sá ágæti maður sem nú hefur verið kallaður úr pensjón sinni að stýra fjármálaráðneytinu í boði Steingríms Sigfússonar. Hafi Sverrir verið klókur verður honum þó seint jafnað til Indriða.

Nema hvað, þarna sat ég fund eftir fund í afhýsi sem kallað var Hosíló, gömlu fátæklegu timburhúsi sem stóð að baki hins mikla Arnarhváls, eins og Hriflu-Jónasi hafi hreinlega sést yfir að rífa það. Indriði sást hvergi, heldur stýrði nefndinni Gunnar Björnsson, sá sem lengi síðan fyllti föt Indriða sem aðal andskoti ríkisstarfsmanna í launaviðræðum. Sverrir var laus við, átti alltaf einhver brýn erindi hingað og þangað. Hann var kvikur maður á fæti, fótnettur og gekk jafnan í mokkasíum. Fundir þessir voru einhverjir þeir erfiðustu sem ég hef setið. Í upphafi lagði hvor aðili fram sínar kröfur og var úthaf á milli. Svo sátu menn og þögðu. Langtímum saman sátu nefndirnar andspænis hvor annarri og þögðu. Sá sem horft hefur á Gunnar Björnsson þegja heilan dag skilur hvaða mannauð ráðuneyti fjármála á í þeim manni. Í dagslok lá manni við sturlun. Þetta virtist hins vegar lítið bíta á Sverri. Hann hélt sínu létta skapi og káta fasi. Svo loks einn dag eftir langan fund, þar sem ekkert hafði þokast og örvænting var farin að naga hjartað, hóaði Sverrir okkur saman undir húsvegg. Hann leit snöggt á klukkuna eins og undirstrika hversu væri áliðið og sagði "Jæja, nú er orðið tímabært að ganga frá þessu. Ég fer og tala við Indriða". Daginn eftir skrifuðum við undir nýjan kjarasamning.

Þegar þessi saga gerðist hafði ég aldrei heyrt talað um orðræðuna sem heimspekingarnir segja að kenni manni svo margt um þankaganginn í samfélaginu. Þaðan af síður hafði ég heyrt talað um samræðustjórnmál og hafði þó unnið sem liðléttingur hjá stjórnmálfræðiskor Háskóla Íslands á námsárunum. Svona hefur nú heimurinn sótt í sig verið og batnað. Ég hef oft haft það til marks um gamla tímann að tveir kallar hafi gert út um málin sín á milli. Rökræður, samningaviðræður, vinnuhópar og þess háttar atriði verið talin eins konar leiklistarstarfsemi. Í huganum hét slík milliliðalaus afgreiðsla foringjanna indriðafundir.

En hvílíkur barnaskapur var að halda að orðræða um samræðustjórnmál væri til marks um breyttan heim. Indriðafundirnir hafa reynst enn í fullu gildi og hvort sem fótgönguliðarnir eru látnir þegja eða tala, kunna foringjarnir einir að ráða. Loks hefur þó þessi pólitík siglt á sker, eins og sést á skoðanakönnun um traust fólks á stjórnmálamönnum. Fram til þessa þessa hefur hverjum stjórnmálaflokki þótt það mikilvægast að eiga öflugan foringja. Fólk kýs foringja var sagt. Nú raðar almenningur foringjunum, sem haft hafa völdin í eina rófu aftast og forsetinn flýtur með. Og formaður Samfylkingarinnar, sem borinn var til forystu í nafni lýðræðis og samræðustjórnmála stóreykur fylgi flokksins með því loksins, loksins að stíga til hliðar og treysta öðrum.

11. febrúar 2009

Sögulok

Hvernig verður sagan sem lifir af þessum örlagadögum okkar? Sú saga verður sögð öldum saman, spái ég. Þetta er svo stórt dæmi. Ég er þá ekki að tala milljarðana heldur dæmi fyri sögu, dæmisögu. Saga um mannlega smæð á risaskala. En það er ekki bara ófæddar kynslóðir sem þurfa að reiða sig á sögur þegar talið berst að atburðum okkar tíma. Við sjálf þurfum sögu, eins og alltaf. Þegar þú komst heim með klesstan bíl þurfti sögu. Og alltaf þegar saga fer af stað brunar hún rakleiðis að landamærum raunveruleika og skáldskapar og hlykkjast þar eftir óljósum slóða, sem jafnvel sá sem segir, veit ekki alveg hvar liggur. Við lifum alla ævi í einhverri sögu hverjir sem tímarnir eru, sögu sem við hversdagslega megum eða þorum ekki að rjúfa.

Hrunið hefur nú rifið okkur út úr lygasögu sem sögð var allt of lengi og gekk allt of langt. Mörgum leið illa í þessari sögu, hún var fyrir löngu orðin ótrúverðug. Leið fólki til dæmis vel að sjá ríkisbankanna svo augljóslega afhenta völdum bokkum? Óraði þó engan fyrir stórfengleik glæpsins. Nýleg skýrsla hagfræðinganna Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega dregur upp ágæta mynd af nokkrum sterkum þáttum gömlu sögunnar. Blekkingarvefur, lygafjötur!

Nú erum við stödd á einskissagnalandi. Við erum persónur sem stigið hafa út úr sögu sinni á leið inn í nýja og vonandi betri sögu. Og þegar gamall raunveruleiki verður saga, eins og nú gerist, skiptir máli að skilja þá sögu, vegna þess að ný saga ræðst af því hvernig sú gamla er sögð. Í nýrri sögu erum við aftur persónur, ekki áheyrendur, og hún verður raunveruleiki okkar.

En það hlýtur að vera ógnvekjandi tilfinning að missa jörðina undan fótum sér, eins og hendir stóru persónurnar í gömlu sögunni. Vera raunverulegur maður, sem er skrifaður út úr lífi sínu eins og persóna í leikriti. Er nema von að einhverjir þráist við á sviðinu? En persónurnar skrifa ekki söguna, ekki einu sinni kóngar og drottningar hennar. Brotthvarf úr sögunni snýst ekki um sök. Ekki rugla saman refsingu og úreltu hlutverki. Persónurnar sem þóttust harðast ganga fram í glímu við sökudólgana eru jafn afskrifaðar í sínum hlutverkum. Sögunni er lokið, nýr raunveruleiki er önnur saga.

4. febrúar 2009

Forvarnir gegn sálarháska

Jón Ásgeir Jóhannesson heldur því fram að fyrirsjánlegt gjaldþrot Baugs Group sé vegna einhvers konar starfslokasamnings sem "skilanefnd Sjálfstæðisflokksins" (í Landsbankanum) gerir við hinn brottrekna Davíð Oddsson seðlabankastjóra. Hvaða fáheyrða þvæla er þetta eiginlega? Hvað fá þeir Ingimundur og Eiríkur fyrir sinn snúð? Verður Fiskbúðin Freyjugötu 1 þvinguð í gjaldþrot fyrir annan og Blómatorgið, Birkimel fyrir hinn?

Það er eins um samsæriskenningar og spádóma, hvoru tveggju er venjulega hreint bull, en samt ómótstæðilegt sumu fólki. Sjálfur féll ég í þá freistni á þessu bloggi mínu að spá leðjuslag, sem aldrei varð. Þetta var um miðjan nóvember og norska sjónvarpið sýndi þátt um Baug sem varð mér tilefni til að spyrja hvort þetta væri liður í því að beina athyglinni að Jóni Ásgeiri fremur en öðrum persónum og leikendum hrunsins . Ég féll sem sagt í samsæriskenningafreistnina líka. Sagði sem svo, að sameiginlegir hagsmunir gætu fengið svarna óvini til að þegja, en þegar engu væri lengur að tapa kæmi hroðinn upp á yfirborðið. Mér finnst nú kjánalegt að hafa fallið í þá gryfju að fara með spádóma um upplausn einhverrar ímyndaðrar þagnarmafíu, omerta, sem ég hef engin rök fyrir. Og mér leiðist líka, eins og flestum, óendanlega þessi sturlungaöld Jóns og Davíðs. Ég veit því ekki af hverju ég er að skrifa um kauða, en held að sálfræðilegir varnarhættir komi málinu við.

Jón Ásgeir kastar hanskanum. Fólk virðast trúa að þessu verði svarað. Senn mun smjörfjallið gjósa, skrifar einhver í dag. Smjörfallið Davíð. Mann hryllir við tilhugsunni um enn einn kafla þessarar ömurlegu sögu. Í þetta skiptið ætla ég engu að spá um leðjuslag þeirra stórbokkanna eða annarra. Orðum Jóns Ásgeirs þarf heldur ekki að svara. En verði það á okkur lagt, og hér koma varnarhættirnir til sögunnar, skulum við líta á það sem nauðsynlega hreinsun. Sem lið í endurnýjuninni. Við erum að skipta um innréttingu og þetta er skíturinn bak við eldavélina.

3. febrúar 2009

Hausverkur

Það er eins og að vakna hausverkjalaus eftir þriggja mánaða mígrenekast að sjá nýja ríkisstjórn tekna við. Maður liggur enn upp í rúmi og kvíðir því örlítið að fara á fætur. Veit ekki hvað gerist. En er samt verkjalaus, það skiptir öllu.

Forsætisráðherran talaði skiljanlegt mál á sínum fyrsta blaðamannafundi, var hún sjálf eins og sjálfshjálparbækurnar kenna. Við eigum sennilega eftir að heyra Jóhönnu segja meira frá félagslegum úrræðum og tilteknum aðgerðum, eins og verkstjóri á saumatofu tali til saumakvennanna í illa rekinni sjoppu á víðsjárverðum tímum í textílbransanum. Þetta er fínt. Við þolum alveg nokkrar vikur án klókinda og ósannsögli.

Um leið og öll þjóðin andar léttar, nú þegar óbærilegu ástandi linnir, dvín reiði margra. Hvernig andlegu ástandi þjóðarinnar er nú háttað sáum við á skoðanakönnun í dag. Flestir eru óákveðnir, 38% + þau 10% sem vilja sitja heima, en af þessum helmingi sem afstöðu tók völdu flestir Sjálfstæðisflokkinn (sic!). Ástandið er því eins og vænta má eftir voveiflega lífsreynslu: Ringulreið, reiði, afneitun. Mismuandi hvar hver er á vegi staddur. Batahorfurnar líka mismunandi.

Hvað um það, þann 25 apríl n.k. verða fæstir kjósendur komnir með fast land undir fætur og hætt við hausverk í kjörklefanum. Kannski það verði skammlíf ríkisstjórn sem þá fæðist.

1. febrúar 2009

Fagna ég mjöll sem fellur

Fátt veður slær út fagra vetrardaga. Birtan er svo sterk að heilabörkurinn exponerast og fixerast eins og svarthvít filma. Svona voru vetur bernskunnar finnst manni. Snjókoma kveikir líka hjá mér sérstaklega sterka tilfinningu og stundum örlitla desjavú-angan. Þegar þessi snjór féll, sem nú liggur yfir Reykjavík kviknuðu skyndilega í huga mér myndir frá góðri gönguferð á Ulriken um páskana í fyrra. Í Bergen bindur maður á sig skó eða skíði heima og er á öræfum eftir tuttugu mínútur.

Fyrir mörgum árum, á göngu minni um Norðurmýrina eitt sunnudagskvöld, byrjaði allt í einu að snjóa af sérstökum ákafa. Þungar, stórar flyksur féllu til jarðar í blanka logni og fyrr er varði var allt orðið alhvítt af snjó. Fegurð stundarinnar leiddi göngu mína fram á nótt og það var ógerlegt annað en að yrkja. Stemmningin kallaði á fornan hátt.

Fagna ég mjöll sem fellur
fögur á nætur stræti.
Þagnar þjóð í logni
þreytu er svefnins leitar.
Óspjölluð mjöllin að morgni
marin er fótum offari.

29. janúar 2009

Ábyrg íhygli miður ökuhæfra bílstjóra

Í kjölfar tveggja hörmulegra umferðaslysa vill Rannsóknarnefnd umferðaslysa benda sjúklingum á að "íhuga ökuhæfni sína af ábyrgð". Ekki síst ættu væntanlega heilabilaðir að hugsa sinn gang.

Svo er háttað á Íslandi, að það er eins og enginn geti svipt mann ökuréttindum vegna heilsubrests. Það hefur komið fyrir að alvarlega skert fólk, sem eindregið er ráðið frá akstri af lækni keyri samt. Lögreglunni er tilkynnt, en hún vill ekkert með tilkynninguna hafa. Enginn vill hengja bjölluna á köttinn. Þá er ekki minnst á öll þau tilvik þegar læknar vita ekki eða vilja ekki vita um akstur sjúklinga sinna. Íslenskum læknum er ekki uppálagt neitt sérstakt í þessu efni og engar reglur leggja á lækna að tilkynna um hættulega ökumenn. Að sjálfsögðu leysast lang flest mál farsællega, því fólk fer að ráðum maka, barna og sérfróðra hafði það ekki sjálft frumkvæðið.

Í Noregi, er læknum gert að banna fólki akstur að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Svo eiga þeir að senda tilkynningu til fylkislækins, sem fylgir málinu eftir. Íslendingar flýðu kannski Noreg undan svona leiðinlegum reglum, en er ekki samt rétt að hafa eitthvað aðeins strangara kerfi en að hið opinbera biðji óökuhæft fólk um að íhuga ökuhæfni sína?

Tímabundin hógværð

Bljúgir Framsóknarmenn skildu að kjósendur þeirra höfðu verið blekktir. Hin tiltölulega fáu atkvæði greidd Framsókn voru svo illa fengin að nýji formaðurinn taldi flokkinn ekki hafa umboð til að setjast í bráðabirgðastjórn fram að kosningum, en stakk heldur uppá að Framsókn verði falli rauðgræna ríkisstjórn. Jæja, nú þegar hyllir undir slíka stjórn koma Framsóknarmenn fram með dálítil skilyrði sem þeir vilja setja hlutleysi sínu. Fyrst er að nefna að Ísland fái nýja stjórnarská. Ha? Jú, flokkurinn sem ekki hefur siðferðislegt umboð til að leggja nýrri kreppustjórn til, segjum landbúnaðarráðherra, setur skilyrði um stjórnlagaþing.

Stjórnlagaþing! Mæltu manna heilastur Sigmundur. Gaman þegar bæði er hægt að velja þá kosti sem eru þægilegastir og vinsælastir. Bara verst hvað það fer illa með útlitið að taka svip af Glistrup.

27. janúar 2009

Íslenzk stjórnmálafræði fyrir byrjendur

Orð forseta Íslands við stjórnarmyndun hafa vakið athygli margra. Bent er á hversu vandmeðfarið það er, þegar forseti bregður út af viðtekinni venju við embættifærslu á slíkri ögurstundu lýðræðisins sem stjórnarmyndun ætíð er. Stjórnarskrá lýðveldinsins kveður ekki á um í smáatriðum hvaða háttur skuli hér hafður á, en enginn þarf að velkjast í vafa um að menn hafa talið tryggt að forseti lýðveldisins myndi ætíð gæta mikillar varúðar á slíkum stundum og fylgja í þeim efnum þeirri hefð sem skapast að beztu manna yfirsýn í þroskuðu lýðræðisríki. Í þessu ljósi verður að skilja áhyggjur manna af því hefðrofi sem hér blasir við.

Hitt hlýtur þó að teljast enn meira áhyggjuefni, að ekkert bendir til annars á þessari stundu, en að stjórnmálamenn þeir, sem fengið hafa það vandasama verkefni að mynda ríkisstjórn á þessum ólgutímum í íslenzkri sögu, muni rjúfa áratuga langa hefð og mynda ríkisstjórn án samráðs við ritstjóra Morgunblaðsins. Er hægt að hugsa sér verra veganesti nokkurri ríkisstjórn?

Skríddu upp úr öskutunnunni

Sjálfstæð hugsun íslenskra fjölmiðla endurspeglast ágætlega í þeirri frétt að erlendir fjölmiðlar reki stjórnarslit á Íslandi til götumótmælanna. Vá! Það voru líka erlendir fjölmiðlar sem lýstu lömun stjórnvalda gagnvart yfirvofandi hruni hins fáránlega stóra bankakerfis sem pólitískri gíslatöku bankanna. Vahá!

Íslenskir fjölmiðlar hafa enn ekki brotist undan forræði flokkanna. Þeir treysta sér ekki til að draga eigin ályktanir, hversu augljósar sem þær kunna að vera. Þeir tína ofan í okkur nestið sem stjórnmálaflokkarnir hafa smurt, flatbrauð með slátri frá einum, vínarbrauðsenda frá öðrum.

Það er talað um að hafa asklok fyrir himin. Íslenskir fjölmiðlar eiga enn eftir að skríða upp úr askinum. Eiga enn eftir að skríða upp úr öskutunninni.

25. janúar 2009

Pólitískur hvítasunnudagur

Ég vaknaði snemma í morgun með ungum börnum. Áttafréttirnar tíðindalitlar og meðan börnin sátu stillt yfir sjónvarpinu notaði ég tíman til að skrifa blogg um ríkisstjórn sem er fallin, hvað sem þingstyrk liði. Hún nyti ekki lengur nokkurs trausts, væri framkvæmdavald sem ekkert gæti framkvæmt. Svo birti af degi og okkur langaði út í garð og pistilinn beið. Eftir góða stund í garðvinnu átti granni minn leið úr húsi og vinkaði til mín. Hann sagði mér frá afsögn viðskiptaráðherra. En það var fyrst eftir aukafréttatímann í hádeginu að ég áttaði mig á hvílík stórtíðindi hér væru á ferð.

Sá ráðherra sem þarna talaði virtist allt annar maður en sá sem áður kom fram undir þessu nafni í sama líkama. Þessi stjórnmálamaður sagði hluti sem aldrei hafa áður heyrst í íslenskri pólitík. Björgvin G. Sigurðsson sagði sunnudagsmorguninn 25. janúar að hann segði af sér m.a. því hann bæri sinn skerf af pólitískri ábyrgð á illu ástandi landsins. Til samanburðar talar Geir H. Haarde þessa dagana um pólitíska ábyrgð sem felst í því að hann og ríkisstjórnin megi ekki segja af sér. Björgvin sagði að ríkisstjórninni hefði mistekist að afla sér trausts meðal þjóðarinnar og því gæti hún ekki komið nauðsynlegustu verkum í kring. Hann segði því af sér, m.a. til þess að rýma fyrir öðrum. Til samanburðar sögðu bæði Össur og Þorgerður Katrín hvor í sínu lagi þetta: Ef ríkisstjórnin hefur gert mistök, þá felast þau í því að hafa ekki gumað nægjanlega af afrekum sínum.


Byltingin heldur áfram að birtast í nýjum og nýjum myndum. Nú síðast í þessu ávarpi viðskiptaráðherra, sem markar tímamót í stjórnmálasögunni. Björgvin segir af sér, ekki eins og Framsóknarmaður með hnífasett í bakinu, heldur barinn burt af slætti pottasettanna. Þá allt í einu fer hann að tala mannamál. Skilur hvað er pólitísk ábyrgð. Skilur hvað leiðtogi er. Kannski hann hafi skilið að gamla tungumálið hans er dautt og merkingarlaust. Og það er hugsanlegt nú hafi stjórnmálamaður fattað, að grátbeiðni fólks um upplýsingar er vegna þess að tungumál stjórnmálanna er því óskiljanlegt babl. Um leið og íslenski bankababelsturninn hrundi, í byrjun október 2008, hættu landsmanna að skilja undarlegt tungumál stjórnmálamannanna, skilja nú bara mannamál.

Viðbrögð almennings við afsögn viðskiptaráðherra virtust á einn veg. Þetta þótti rétt. Ýmsir pólitískir bloggarar og stjórnmálamenn eins og Steingrímur Sigfússon, létu sér hins vegar fátt um finnast. Sáu í þessu einhver persónuleg sniðugheit eða fannst þetta lítið og seint. Seint kom það, það er rétt. Og lengi má velta sér uppúr sálarfriði, iðrun og siðbót persónunnar Björgvins G. Sigurðssonar, en frétt dagins snérist ekki um það. Hún snýst um nýja hugsun, nýtt tungumál sem allt í einu heyrðist.

Það segir sína sögu að þeir sem eru innvígðir í íslensk stjórnmál skilji ekki aðal tíðindi dagsins. Þau voru á útlensku.

23. janúar 2009

Draumur í framboði

dv.is segir hugsanlegt að Sjálfstæðisflokkurinn slíti stjórnarsamstarfinu nú í hádeginu. Það væri frábært. Svo segir í sömu spáfrétt að þannig gæti Flokkurinn komið sök á upplausninni á stjórnarheimilinu yfir á Samfylkinguna sem stæði uppi með 17 prósenta fylgi og "svarta pétur" .

Líklega vilja allir kjósendur Samfylkingar í seinustu kosningum og næstum allir "virkir meðlimir" þess sama flokks grundvallarbreytingar á stjórnskipun þessa lands. Og þeir eru reyndar miklu, miklu fleiri. Þessir kjósendur vilja líka aðra skiptingu auðs og byrða í samfélaginu. Var fólk ekki að kjósa lýðræði, siðbót, jöfnuð? Þetta fólk kaus draum. Kjósendur Flokksins kusu valdhafana. Vildu meira af því sama.

Svarti-Pétur Samfylkingar var að fara í stjórn með Flokknum segja sumir. Annars konar stjórn hefði litlu breytt, segi ég. Ekki til langframa. Kerfinu sjálfu þurfti að bylta, kerfinu sem nú hefur hrunið undan sjálfu sér. Svo nú getum við byrja aftur frá grunni.

Heimur Flokksins er hruninn, en draumurinn er ennþá til. Nú er ekkert annað til, það er bara hægt að kjósa draum. Hvort nafnið Samfylking lifir eða deyr skiptir engu máli. Við þurfum nýja stjórnmálaflokk. Tækilega séð myndi það spara tíma og útúrsnúninga að geta notað bréfsefni og skrifstofuaðstöðu Samfylkingar fram að kosningum.

Beðið

Gagnrýnendur segja nú að ríkisstjórnin hafi ekki brugðist við ástandinu, veiti ekki forystu, tali ekki til þjóðarinnar. Geir segir að fólk verði að sýna þolinmæði, það er svo skammt síðan hrunið varð. Hér er gömul bloggfærsla mín frá 4. Nóvember. Hvað er nýtt? http://hjabeck.blogspot.com/2008/11/biin-er-verri-en-allt-sem-bur-okkr.html

22. janúar 2009

Lifi byltingin!

Byltingin hefur brotist út. Byltingin varð um leið og kerfið hrundi, en nú er hún orðin sýnileg á götunum, dansar undir takföstum potthlemmaslætti kring um varðeld reiðinnar. Stemmingin á Þjóðleikhúströppunum í gærkvöldi var þjóðsagnakennd. Fólk dillaði sér undir rythma dósatromma og heimagerðra lúðra fyrir framan biðröðina í Þjóðleikhuskjallarann, þar sem Samfylkingin fundaði. Þetta hefur aldrei áður sést á Íslandi. Á bekk hinna brostnu vona, lága steinveggnum við austurdyrnar, þar sem óparaðir nátthrafnar komu saman eftir böll í Laranum á árum áður, sat óeirðalögreglan með hjálma og skildi. Aldrei áður hafiði séð slíkt á Íslandi. Allt er breytt. Það gamla er hrunið. Það skiptir engu máli hvað forsætisráðherran segir.

Það vill enginn endurtaka pólitík síðustu tuttugu ára. Það vill enginn halda lífi í hinu pólitíska kerfi á Íslandi. Það vilja allir flokkana dauða, stjórnmálaflokkana í sinni núverandi mynd. Þeir hrundu með öllu hinu. Heitir það ekki bylting?

20. janúar 2009

Mótmælin miklu

Mótmælin miklu í dag settu svip sinn á heimilislífið. Börnin horfa aldrei þessu vant á fréttirnar með athygli. Það komu gestir í kvöldmat og þeir voru varla komnir inn úr dyrunum þegar mótmælafundur hófst í stofunni. Unnsteinn, 5 ára, gekk í hringi og kvað fast að: "Ríkisstjórnin víki. Ríkisstjórnin víki. Ríkisstjórnin víki." Ég stóð fram í eldhúsi að útbúa sódastrím oní gestina. Til að lægja mótmælaöldurnar í stofunni brá ég á gott ráð sem ég hafði í hendi. "Unnsteinn, viltu gera sódastrím?" Drengurinn kom á harðahlaupum, tók undir sig stökk, upp í stól, lagðist af öllum þunga ofaná sódastrímtækið og þrýsti takkanum niður. Þegar tækið gaf frá sér eimpípuvælið kunna öskraði strákur af öllum lífs- og sálarkröftum: "Gas! Gas!"

16. janúar 2009

Lærisveinn galdrameistarans

Nú setja menn á langar ræður og rifja upp hvernig stjórnmálamenn og eftirlitsmenn kerfisins lögðu nótt við dag til þess að fullvissa heiminn um að allt væri í himnalagi í íslenskum bankaheimi. Hvernig blístrað og baulað var á viðvörunarraddir. Hvernig landsmenn voru blekktir til að halda að allt væri í lagi, þó allir með einhverja fjármálaþekkingu máttu vitað annað. Gott og vel, en af hverju er þetta ekki sagt á þann einfalda hátt sem best lýsir atvikum? Bankarnir uxu Íslendingum yfir höfuð. Bankarnir stýrðu landinu, sögðu stjórnmálamönnum fyrir verkum, létu eftirlisstofnanirnar snatta fyrir sig og urðu svo sjálfir stjórnlausir.

Ef ég ætti að persónugera orsakir hrunsins í einum manni, þá væri það í lærisveini galdrameistarans. Stráknum í ævintýrinu sem stalst til að magna galdur úr kveri meistara síns sem hann hafði svo ekki kunnáttu til að kveða niður. Kústurinn frábæri sem sópaði gólfið sjálfur, einkavæddi kústurinn, lúbarði að lokum skapara sinn.

Ábyrgð

Allsstaðar er spurt hver beri ábyrgð. Kannski væri betra að spyrja hvernig þetta gerðist. Svo má spyrja hver lék hvaða hlutverk. Þegar menn deila um hver beri ábyrgð gætir stöðugt orðaruglings. Að bera ábyrgð á einhverju af því manni er falin ábyrgð er annað en að vera valdur að einhverju, (þó það sé stundum kallað að bera ábyrgð á). Valgerður frá Lómatjörn, einn af aðal arkitektum hrunsins, segir Framsókn ekki bera ábyrgð á hruninu, því flokkurinn var ekki í stjórn þegar það varð. Já, já. Einmitt það.

13. janúar 2009

Hvað er Samfylkingin að pæla? Skemmtileg gestaþraut

Margir eru forviða á formanni Samfylkingarinnar, hvað er hann eiginlega að pæla? Hvers vegna gerir Samfylkingin sig að hækju í eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins? Ég hef spurt marga spjallara og lesið færslur. Sumir óttast að eitthvað ógnvænlegt eigi enn eftir að koma í ljós, eitthvað sem girði fyrir stjórnarslit á þessum tímapunkti. Aðrir halda að Samfylkingin hafi á örskömmum tíma orðið valdafíkn dauðans að bráð. Ýmist virðast halda að ISG sé óstarfshæf vegna veikinda. Jón Kaldal tekur málið upp í leiðara Fréttablaðsins í dag http://www.visir.is/article/20090113/SKODANIR04/154435679/-1. Hann leitar skýringa í kenningu Benedikts Jóhannessonar: ISG vilji feta út úr ógöngunum inn í ESB með ervu í stað dauðrar ískrónu. Þar með yrði þessi óvinsæla ríkisstjórn orðin tímamótastjórn.


Er þetta sennileg kenning? Já og nei. Það er ekki sennilegt að Ingibjörg Sólrún deili því lífsviðhorfi með Benedikt að landsfundur Sjálfstæðisflokksins sé æðsta og merkasta samkoma landins. Að sá sem nær að knýja fram stefnubreytingu hjá Sjálfstæðisflokknum verði ódauðlegur af verkum sínum, jafnvel þó krati sé. Og það má hundur í haus minn heita ef Samfylkingin skilur ekki að þessi ríkisstjórn á ekki framtíðina fyrir sér.


Hins vegar kann IGS að meta það svo að evruvæðing sé bráðamál og forgangsatriði. Evra verði hins vegar ekki tekin upp í óþökk ESB. Það dugar þó væntanlega að byrja aðildarviðræður, þó samingur um inngöngu hljóti að hafa fyrirvara um samþykki þjóðar. Samfylkingin neyðist því til að hanga í stjórninni fram yfir frægan landsfund Sjálfsæðismanna, sem hún hefur þó fengið flýtt. Strax í kjölfar hans yrðu þá annað hvort stjórnarslit ef ESB er þumall niður eða, ef þumallinn upp, virkjuð áætlun um snarlega upptöku evru. Með þetta í höfn gæti komið los á Samfylkinguna. Hún mun réttlæta stjórnarsetuna með þessari "neyðaráætlun" sinni. Sjálfstæðisflokkur vill hins vegar auðvitað að draga málið á langinn, eins og GHH lagði til með "sáttatillögu" um þjóðatkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Þetta er slappur leikur, enda staðan léleg. Samfylking hefur tak á Flokknum, sem er þverklofinn í málinu í þokkabót. Svo ber hann með sér að vera fyrir Flokkinn frekar en þjóðina.

Eftir að hafa til gamans glímt við gestaþraut dagsins, má nefna næstu þraut. Hún er þyngri. Hvað verður um þessa stjórnmálaflokka?

11. janúar 2009

Hættu. Þetta er vonlaust.

Heilbrigðisráðherra er eins og Roy Roggers í lagi Halla og Ladda. Birtist skyndilega sætur og klár með fyrstu sparnaðartillögurnar í ár. Hafnarfirði er skotið til Keflavíkur, Hornafirði til Selfoss, Sauðárkróki til Akureyrar og Patreksfirði til Skutulsfjarðar. Blaðamannafundi ráðherrans á Hilton hótelinu er hleypt upp af hafnfirsku skurðstofufólki í grænum sloppum með höfuðskýlur. Vantaði bara maska til að hylja með andlitið og hnífa til að berjast með. Það verður næst, lá í loftinu. Viðbrögð almennings eru með sama bragði. Hafnfirðingar púa á ráðherrann á borgarafundi. "Við erum þúsund, þú ert einn. Þú verður drepinn ungi sveinn". Hringinn í kring um landið, alls staðar sömu viðtökurnar hjá þolendum aðgerðanna. Ráðherranum er kastað út úr búllunni í stórum boga.

Þrátt fyrir annálaða ættrækni Sjálfstæðisflokksins gleymdi ráðherrann að hafa mikilvægustu ætt landsins með í ráðum, Heimamannaættina. Þessu var bara slengt framan í Hafnfirðinga, Hornfirðinga, Sauðkrækinga, Barðstrendinga og alla hina. En hengjum ekki heilbrigðisráðherra fyrir forsætisráðherra. Svona eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í öllum málum. Enginn veit fyrr en allt í einu. Talar og hagar sér eins og einhver karakter hjá Ladda.


En þrátt fyrir öll lætin hafa sparnaðartillögur heilbrigðisráðuneytisins samt varla litið dagsins ljós ennþá. Nýju heilbrigðislandafræðinni er ekki ætlað að spara nema fimmtunginn af því sem ráðuneytinu var sett fyrir. En þar sem ráðherrann magalendir nú í forinni fyrir utan búlluna getur hann hætt að telja. Þetta er vonlaust. Næstu tillögum verður mætt af enn meiri hörku, enn meiri reiði. Það verður vonlaust verk að spara áætlaða upphæð í heilbrigðiskerfinu án ófriðar. Svo eru það félagsmálin og menntamálin líka.


Þjóðin er reið og hún treystir ekki ríkisstjórninni. Hvernig ætti nokkur svo sem að treysta henni? Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti fyrir kosningar að efnahagsstjórnin væri stærsta velferðarmálið. Í ljósi reynslunnar af þessari rómuðu efnahagsstjórn er stærsta velferðarmálið að koma flokknum frá völdum. Til að bæta gráu ofaná svart hefur ríkisstjórn ekki einu sinni sýnt vilja til að bæta ráð sitt og ná til baka einhverju trausti, en góð byrjun hefi verið að hætta að segja ósatt og opinbera almenningi aðgerðaráætlun sína.

Ríkisstjórninni er ógerlegt að framkvæma það sem hún ætlar sér og hefur lofað lánveitendum sínum. Öll þjóðin er orðin að mótmælendum. Hún kemur ekki öll saman á Austurvöll á hverjum laugardegi, en hún mótmælir hverjum aðgerðum stjórnarinnar sem á henni brenna. Það ríkir engin sátt um erfiðan niðurskurð. Þessi ríkisstjórn verður að hætta. Þetta er vonlaust.

6. janúar 2009

Tjásureiði

Það væri verðugt rannóknarefni að stúdera reiðina sem ólgar á bloggum þessa dagana. Ekki í pistlunum heldur í athugasemdunum, tjásunum eins og lagt var til að það héti. Ég er með öðrum orðum að hugsa um tjásureiði. Margir formæla, uppnefna, öskra og bölva. Sumir eru eflaust reiðir vegna eigin aðstæðna, reiðir og örvæntingarfullir. Slíkt ástand hefur áhrif á orðaforðann og verður maður eiginlega bara að sætta sig við það. Sumir kunna að brenna af réttlátri reiði, er misboðið og nota bölv og ragn til að kveða fastar að orði. Þetta er auðvitað misskilið stílbragð, því formælingar hitta formælandann frekast fyrir. En sumir eru bara sömu þröngsýnu fúlmennin og þeir hafa alltaf verið. Skáka í skjóli ástandsins og gera stykki sín í tjásum. Maður kannast svo sem við svona orðbragð í pólitíksu þrefi, en fyrir daga bloggsins var því ekki fjölmiðlað. Smjörklípur fótgönguliðanna hafa alltaf verið fyrirlitlegar.

Það eru margir reiðir og eðlilegt að þess gæti í skrifum fólks. Bestu pistlarnir eru jú fullir af krafti reiðinnar, en skítkast er dapurlegt og gerir mig svartsýnan.

1. janúar 2009

Ávörp, skaup og íslensk tunga

Frábært áramótaskaup. Andrúmsloftið er svo afkáralegt að skaupið er besti fréttaskýringaþáttur ársins. Innhaldslaus malandi stjórnmálamanna, þversagnir og ósannsögli komust vel til skila. Þjóðin ringluð og reið. Helvítis fokking fokk og ævintýri eru að gerst samtímis.

Áramótaávörpin voru ömurleg eins og allir vissu fyrir. Lamaðar afsakanir heyrðust muldraðar án þess að nánar væri tilgreint hvað átt væri við. Svo kom hjal um réttlæti, mikilvægar rannsóknir og lærdóma. Nákvæmlega eins og áður, orð á skjön við gerðir sem róa engan en rugla alla. Reyndar var ekki annað að skilja á forsetanum en að hann viðurkenndi að í mótmælunum fælist vilji þjóðarinnar og krafa um breytingu á sjálfu kerfinu. Vantraust á núverandi pólitík. Hann nefndi í lokin óljósa hugmynd um nýjan þjóðarsáttmála sem yrði borinn undir atkvæði. En þetta eru bara enn fleiri orð út í tómið. Forsetinn gengur bara lengra en pólitíkusarnir í orðum. Skákar í því skjóli að hafa ekki vald til framkvæmda. Engar vísbendingar eru um að neinar viðhróflanir eða breytingar sem skipta máli muni eiga sér stað. Yfirlýsing forseta dregst því í sama dilk og ruglandi stjórnmálamannanna.

Yfirbragð og orðfæri áramótaávarpa var með algerlega hefðbundnu sniði. Þessi talandi er dauður. Hafði aldrei svosem mikið gildi, en eftir hrunið er hátíðlegt yfirborðssnakk skreytt með ljóðatilvitnunum ekki bara absúrd heldur móðgandi í þokkabót.

Nýjir tímar krefjast nýs máls, mannamáls. Klisjan um land, þjóð og tungu sem er fastagestur áramótaávarpanna á kannski eftir að rætast skilvíslegar og fyrrenmargurbjóstvið.