Hver bað Vilhjálm Egilsson, Gylfa Arnbjörnsson, Eirík Jónsson, Árna Stefán Jónsson og þessa kalla sem sigla undir fána "aðila vinnumarkaðarins" að taka við stjórn landsins? Nú sitja þeir og karpa um hvernig ríkisfjármármálunum skuli háttað mörg ár fram í tímann. Fulltrúar opinberra starfsmanna gengu á dyr í dag, því þeir vilja meiri skatt en minni samdrátt ríkisútgjalda. Auðvitað, þeir eru fulltrúar opinberra starfsmanna. Hinir eru svo fulltrúar einhverra annarra, launamanna og atvinnurekenda og ganga á dyr af einhverjum öðrum tilefnum. Fjármálaráðherra er í útlöndum brýnna erindina að slá fyrir næstu útborgun, en minnti í útvarpsfréttunum á góðbónda sem staddur er af bæ þegar hann fregnar að vinnumennirnir séu komnir í hár saman og hættir að moka flórinn. Hvaða vitleysa er þetta, geta mennirnir ekki hætt að jagast um tiltlingaskít meðan mykjuhaugurinn hleðst upp, sagði hann.
Þetta hef ég lengi undrast: Af hverju halda menn að samkomulag "aðila vinnumarkaðarins" jafngildi þjóðarvilja? Hvað þá að menn haldi að útkoman jafngildi bestu þjóðarhagsmunum. Pólitík er ekki debet og kredit mismunandi hópa launamanna annars vegar og atvinnurekenda hins vegar. Pólitík snýst um innviði samfélagsins. Laun og hlutafjárarður eru afleiddar stærðir. Hversu farsæll yrði sá sem ákveður fyrst hvaða hann vill þéna og tekur svo stefnu í lífinu einvörðungu til að þjóna því markmiði?
Fært yfir á frétt dagsins; það er afar mikilvæg pólitísk ákvörðun fyrir kjörna fulltrúa að ákveða hvaða opinbera þjónustu við getum veitt eins og nú háttar, en það er ekkert sem Eiríkur Jónsson og Vilhjálmur Egilsson eiga að ákveða sín á milli.
24. júní 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli