30. mars 2009

Kirkjan afneitar guði og öllum er sama

Kirkjan er kölkuð gröf. Íslenska þjóðin verður ekki einu sinni fyrir vonbrigðum þegar þjóðkirkja hennar afneitar guði sínum, enda trúlaus þjóð fegin að geta afskiptaslaust dýrkað Mammon. Ekki svo að skilja að kirkjan hafi ekki kennt að andleg verðmæti séu fremri efnalegum gæðum. En þegar á reyndi voru gagnvegir til hinna andlegu linda kirkjunnar ekki greiðari en svo, að hún þekkti ekki guð sinn. Fattaði ekki að andskotinn hafði tekið sæti hans og stolið hjörtum fólksins.

Sjáið hvað græðgi og skefjaleysi náði ótrúlegum hæðum á örfáum árum. Sjáið hvernig valdhafarnir blessuðu græðgina. Sjáið andvaraleysi okkar og fákænsku þegar við héldum að auðæfin væru raunveruleg og siðferðið ásættanlegt. Sjáið hvað trú kirkjunnar var veik. Aldrei reis íslensk þjóðkirkja upp og mótmælti valdhöfunum, auðmönnunum, bönkunum og blekkingunni. Hún sá ekki það sem gerðist. Sá ekki að þjóðin var ekki lengur trúlaus eins og venjulega, heldur andtekin. Þjóðin sá það ekki sjálf, en hún er trúlaus. Úr því að kirkjan sá það ekki heldur, hlýtur hún líka að vera trúlaus. Nema hún sé svona fullkomlega huglaus og það er trúleysi út af fyrir sig.

Engin ummæli: