30. nóvember 2009

Hvað boðar morgundagurinn?

Þegar ljósin á Oslóartrénu voru tendruð í gær spurði góður maður hvort ég héldi að þetta tré ætti líka eftir að brenna eins og það í fyrra. Góð spurning. Í spaklegu svari mínu kom fram að þó sennilega væri næg reiði og örvinglan í fólki til að kveikja í skitnu jólatré, væri ekki á döfinni neitt einstakt, einfalt og sjálfsagt mál, eins og afsögn ríkisstjórnarinnar var fyrir ári.



Eftir kvöldmatinn áðan komu stórfréttir. Fyrst var það sjónvarpsfréttin um að þessi Arionbanki myndi komast í annarra og óþekktra manna hendur á morgun, fullveldisdaginn, 1. des. Og hvað þetta boðar er ómögulegt að einföld sál viti. Svo sá maður á netmiðlum tvenn merkileg ummæli Steingríms J Sigfússonar. Fyrst segist hann efast um að Alþingi ráði við endurreisn efnahagslífsins! Hefur nokkur í sambærilegri stöðu sagt annað eins um sjálft Alþingi, sem eitt sinn bar titil hins háæruverðuga? Og það sem verst er, maður er honum hjartanlega sammála. Skömmu seinna komu svo þessi torkennilegu orð hans að Icesave máli yrði að ljúka, núna. Af ástæðum sem ekki mætti greina þingheimi frá, en væri á vitorði þingflokksformannanna. Bíddu nú við, hvað er þetta hugsaði maður og datt næstum í hug orðið atarna í þokkabót. Þetta atarna, er semsagt mjög erfitt að skilja. Hvað vakir fyrir SJS? Hvernig geta þessi orð á nokkurn hátt bætt stöðu hans, jafnvel þótt ömurleg sé. Liggi nú fyrir einhver hótun, eða kannski leynilegt samkomulag, hverju er Steingrímur þá bættari að segja að greina frá því á þennan hátt ? Nú þarf ekki að taka fram að enginn getur haldið að yfirlýsingu um leyndó sé ætlað að hafa bein áhirf á þingmenn. Steingrímur er að firra sig ábyrgð á einhverju sem hann telur í vændum fáist Icesave frumvarpið ekki samþykkt fyrr en seinna. Hann er að segja okkur fyrirfram að þetta hafi hinir flokkarinir vitað. En hvað er þá í vændum? Og í kjölfarið kemur önnur spurning, um hvað snýst þá Icesave málið eiginlega?



Hér kemur engin samsæriskenning, en fleiri mánaða málflutningur um Icesave hefur vakið furðu og nú þegar allir venjulegir landsmenn eru löngu hættir að nenna að þræta um málið tekur stjórnarandstæðan sig til og heldur uppi málþófi. Til hvers?



Kannski er Steingrímur bara orðinn úrvinda eða farinn á taugum eins og Egill Helgason viðrar. Ummæli hans benda hvað sem öllu líður ekki til þess að hann eða þessi ríkisstjórn hafi mikla stjórn á málum. Hvorki á Icesave né því atarna sem er í húfi.



Mér finnst allt í einu eins og eitthvað gæti komið fyrir jólatréið á Austurvelli.