10. ágúst 2009

Persóna í leit að höfundi sínum

Eftir fjögurra vikna sumarleyfisyndi hefst hversdagslíf á ný, á sjálfum afmælisdegi dótturinnar. Maður opnar gáttirnar eftir sumarleyfi frá stjórnmálum og átlisgjöf og sér lafhrædda þjóð. Þjóð sem elt hefur skottið á sér í allt sumar og stendur enn á sama stað, móðari og hræddari en nokkru sinni. Icesave málið óhugnanlega er samt í raun sáraeinfalt. Hvort treystirðu Steingrími eða vantreystir? Það er útilokað að prívatpersóna eigi kost á upplýstri skoðun í þessu máli, það þarf hernaðarlega afgreiðslu. Að velja aðra leið er að biðja um annan herstjóra. Hvern viltu, Bjarna, Sigmund Davíð, Saari? Þjóðin orgar af hræðslu. Menn eru gengnir af vitinu.

Það óróar mig helst að Steingrímur er hetja. Hann gengur til vopna í hildarleik sem hann ber enga ábyrgð á, en snýst til varnar af kjarki og ósérhlífni. Kemur fram hrokalaus og heiðarlegur og leggur líf sitt að veði. Enginn annar í þessari sögu kemst í námunda við hann að glæsileik. Og enginn fær fellt slíka hetju, nema eigin liðsmaður. Þjóðin grætur af hræðslu þegar hún skynjar að það er hetja sem fer fyrir henni. Hún á ekki skilið hetju, hún vill durt. Hrokafullan durt sem kúgar liðsmenn sína og fer með ofríki heima fyrir. Slíkum myndi hún fylgja, ekki hetju.

Íslands óhamingju verður allt að vopni er leiðarstefið í hrunsögu Íslendinga. Ótrúlegri sögu þar sem hið versta af verstu gerist hvað eftir annað og gæti nú nálgast nýjan hátind. Skynsemin segir annað, það er pólitísk fásinna vinstri græns að fella foringja sinn. Þess vegna hef ég hingað til sagt, að það muni ekki gerast. En í Íslendingasögunni, harmleiknum um hrunið verður samt svo að fara. Við erum áhrifalusar persónur, hvernig sem á allt er litið, en brátt fáum við úr því skorið hvort við erum áhrifalausir borgarar í raunveruleikanum eða persónur í sögu.

Engin ummæli: