16. mars 2009

Lygi

Ég hef verið bloggstola lengi. Gert margar atrennur en allt runnið út í sandinn. Það liggur andlega lamandi þoka yfir bænum, sennilega prófkjörseimur. Þetta verður leiðinleg kosningabarátta, þykist sjá það á flugi fugla.

Lygin hefur legið mér á hjarta, hún tók við af rigningunni eftir að við fluttum heima frá Bergen. Ég hef reynt að blogga um hana, en orðið frá að hverfa vegna leiðinda. Ég var að reyna halda því fram að gamla ríkissjórnin hefði fallið á lyginni. Forsætisráðherra gripinn vegna óvenjulegra mannaferða undir Arnarhóli skrökvar eins og stákur. Ríkisstjórnin sem fetar sama veg áfram þrátt fyrir hrun og viðurkennir ekki að hafa gert neitt rangt en lofar öllu góðu, líka því sem hún ætlar ekki að efna. Ríkisstjórn með Stokkhólmsheilkennið, gísl bankakerfis sem fór landa á milli með boðskap um "traust íslenskt fjármálakerfi og góða stöðu bankanna". Boðaði lygi af ótta við sannleikann. Þannig var það og þetta verður að segjast eins er. Hversu ósanngjarn sem heimurinn annars er verður lygin að njóta sannmælis. Lygi er lygi. En allir eiga leiðréttingu orða sinna nema andskotinn var haft eftir Elíasi Mar. Þegar leiðréttingin lét á sér standa og ljóst að hugarfarsbreyting yrði engin braust búsáhaldabyltingin út.

Lygin er laukur. Ef byrjað er að skralla stendur ekkert eftir. Þægindalygi á sunnudegi spretta úr jarðvegi sem nært hefur lygi. Stjórnmál ímyndar og leikritunar, pí-errs og spuna byggja á lygi. Þeim mun lengra sem þau ganga, þeim mun flinkari sem atvinnumennirnir eru, þeim mun meiri er lygin. Af sjálfu leiðir. Orðið sjálft "almannatengsl", "public relations", segir sína sögu. Það eru notað um áróður, própaganda, sem hefur ekkert með tengsli að gera. Menn kaupa ekki pí-err til að læra sjálfir eða leita sannleikans, heldur til að gera fiksjónina sennilega. Hitt kann svo að gerast að menn gangi sjálfir inn í skáldskapinn og fari að trúa ímyndinni. Halda að þeir hafi orðið Anna Frank með aðferðum Leni Rifensthal. Leiðin að sannleikanum er hins vegar bara ein.

Lygin býr í okkur sjálfum. Ekkert samfélag byggir slíkar hátimbraðar blekkingaborgir eins og nú hrynja víða um lönd, nema að lygin sem þær eru reistar á hafi áður breiðst út meðal einstaklinganna. Og fólk er ginnkeypt. Miklu hryllilegri lygi en okkar hefur heltekið heilu þjóðirnar bæði nýlega og nálægt okkur. Okkar lygi var auðvitað tilbrigði við dansinn kring um Gullkálfinn. Efnahagsleg gæði hafa verið megin stefið í stjórnmálum með kröfunni um meira handa öllum. Deilan hefur snúist um aðferðina, ekki tilganginn. Við völdum líklega versta kostinn, hreina viðskiptatrú. Viðskipti sem sannleikurinn og lífið, markaðurinn guð. Þetta er sá öfugsnúni kristindómur sem segir að til að komast inn í himnaríki þurfi að kasta frá sér öllu öðru en veraldlegum gæðum. Við lugum því að okkur sjálfum að græðgi væri ekki til, réttlætið fælist í góðum bisness og kærleikurinn í hagnaði. Við sögðum að öræfakyrrðina mætti meta til þeirra verðmæta sem fengjust í aðgangseyri. Sögðum að auðsöfnun einstaklinga endurspeglaði velmegun þjóðarinnar. Héldum að kaupgetan væri manngildi.

Nú snýr það að okkur sjálfum að leiðrétta lygina. Vegurinn að sannleikanum er aðeins einn og hann er liggur inn á við. Til að geta krafið aðra um sannleikann verðum við að vera sjálfum okkur samkvæm og heiðarleg. Við sem viljum breytingar, nýtt gildismat, verðum fyrst að svara hver okkar persónulegu lífsgildi eru. Málið snýst ekki um hverjum jakkafötin fari best.

4 ummæli:

Stefán sagði...

Lygilega góður pistill. Stjórnmálamenn eru einmitt eins og lygalaukar sem spretta í þeirri mold sem erum við. Vil leyfa mér að vitna hér í Bjarna Bjarnason skáld sem hélt því að undirrót alls okkar vanda væri að við lifðum eftir hagsmunum en ekki prinsippum. Held því miður að það komi ekki til með að breytast í bráð.

Hans Jakob Beck sagði...

Já maður heyrði oft að hugmyndabaráttuni væri lokið. Það væru í raun allir sammála í pólitík vesturlanda. Sýnist að það sé kominn tími til að verða ósammála.

ærir sagði...

Heyrði um það í gær að rússneskir læknar hefðu á tímabili gert svolitla aðsókn í að fá leyfi til lækninga hér á landi og jafnvel sótt um störf. Í CV þeirra kom jafnan fram að þeir hefðu fengið menntun í og voru jafnvel með diploma í komunístiskri hagfræði. Staða okkar væri etv einhver önnur ef við hefðum veitt þeim leyfi til lækninga hérlendis og þeim hefði verið veitt leyfi til að mennta okkur á þessum fræðum.

Hvað þetta kemur pistli dagsins við er ég ekki viss en ákvað samt að láta þetta flakka.

Hans Jakob Beck sagði...

Á ókláraða stuttmynd frá tíunda áratug síðstu aldar sem fjallar um íslenskan hagfræðing nýútskrifaðan í sósíalískri hagfræði frá Alexander von Humbult háskólanum. Kom heim rétt eftir hrun járntjaldsins. Var lagður í einelti, kallaður Öreigur. Fyrirmyndin var litla stúlkan með eldspýturnar. Nú mætti gera aðra mynd um frjálshuggjuhagfræðing sem leggur landið sitt í rúst. "Litli drengurinn með eldspýturnar."