22. janúar 2009

Lifi byltingin!

Byltingin hefur brotist út. Byltingin varð um leið og kerfið hrundi, en nú er hún orðin sýnileg á götunum, dansar undir takföstum potthlemmaslætti kring um varðeld reiðinnar. Stemmingin á Þjóðleikhúströppunum í gærkvöldi var þjóðsagnakennd. Fólk dillaði sér undir rythma dósatromma og heimagerðra lúðra fyrir framan biðröðina í Þjóðleikhuskjallarann, þar sem Samfylkingin fundaði. Þetta hefur aldrei áður sést á Íslandi. Á bekk hinna brostnu vona, lága steinveggnum við austurdyrnar, þar sem óparaðir nátthrafnar komu saman eftir böll í Laranum á árum áður, sat óeirðalögreglan með hjálma og skildi. Aldrei áður hafiði séð slíkt á Íslandi. Allt er breytt. Það gamla er hrunið. Það skiptir engu máli hvað forsætisráðherran segir.

Það vill enginn endurtaka pólitík síðustu tuttugu ára. Það vill enginn halda lífi í hinu pólitíska kerfi á Íslandi. Það vilja allir flokkana dauða, stjórnmálaflokkana í sinni núverandi mynd. Þeir hrundu með öllu hinu. Heitir það ekki bylting?

2 ummæli:

Regína Ásvaldsdóttir sagði...

Góðir pistlar frændi. Annars fagna ég appelsínugula litnum á stöfunum hjá þér, hef konu þína grunaða um að vera yfirhönnuð lúkksins á friðsamlegu byltingunni:)

Hans Jakob Beck sagði...

Er ekki appelsínuguli liturinn orðinn tákn fyrir friðsamleg mótmæli?