31. mars 2009

Ísland: Spillvirkjainni

Ég hef verið beðinn að rökstyðja orð mín um þjóðkirkjuna. Það gefur mér tilefni til að hugsa. Afstaða mín hvílir á tveimur forsendum, annars vegar að efnishyggja síðustu ára hafi verið svo skefjalus að rétt sé að tala um siðbreytingu, siðbrest. Hins vegar að kirkjan eigi að láta til sín taka þegar slíkt hendir.

Fyrri hugmyndin, að á Íslandi hafi orðið siðaskipi, er samferða þeirri hagfræðiskýringu að bóluhagkefið sem spratt upp sé annars konar en það kerfi sem var, eða þeirri læknisfræðilegu skýringu að þjóðin hafi orðið manísk. Margir hafa sem sagt lýst því, hver með sínu orðalagi, að skyndilega hafi samfélagið orðið afbrigðilegt eða sjúkt. Hvað finnst trúmönnum? Hvernig vilja þeir lýsa þessum umskiptum? Ég notaði í fyrri pistli orðið andsetinn, talaði um að andskotinn hefði rænt hjörtum fólks og sagði að guði hefði verið afneitað. Allt saman bara orð amatörs, sem veit ekki hvaða orð guðfræði þjóðkirkjunnar hefur í sínum bókum til að lýsa þessu.

Kannski eru sumir trúmenn ekki sammála. Guðleysið sé það sama hvort sem auðmaðurinn hafi hundraðföld laun verkamansins eða tíföld, hvort sem við látum glepjast af sumarhöll eða uppþvottavél, hvort við förum yfir á visakortinu eða tæmum sjóði Seðlabankans. En slík afstaða er bókstafstrú, sem ég held að þjóðkirkjan okkar sé til allrar guðs mildi laus við. Fúndamentalismi eða bóksafstrú sneiðir hjá því að taka siðferðislega afstöðu til venjulegs lífs með því að halda fram reglu án viðmiðs. Málið hér snýst um það, að traðkað var á öllum venjulegum viðmiðum. Hér má grípa til dæmisögu. Það er bannað að stríða og hrinda eins og kunnugt er. Kennari er látinn fylgjast með skólabörnum að leik í frímínútunum. Hann sér að þau stríða hvert öðru og hrinda, en hann lætur það átölulaust á stað og stund, þrátt fyrir að hafa ótal sinnum kennt að svona eigi ekki að haga sér. Þegar hann verður hins vegar var við einelti, að hann telur, skerst hann strax í leikinn. Börnin skilja kannski ekki mun stríðni og eineltis eða verður a.m.k ekki ætlaður sami siðferðisþroski og kennarinn. Við gerum hins vegar kröfur til þess að kennarinn hafi þroska, þekkingu og frumkvæði til að stöðva einelti.

En hvað getur kirkjan gert? Þessu má líka svara með dæmisögu. Dæmið gefur Kristur sjálfur. "Jesús gekk inn í musterið....borðum þeirra, er reiðupeningum skiptu og stólum þeirra, er dúfur seldu, hratt hann um." Segir Oddur Gottskálksson í sinni þýðingu. "Er það eigi skrifað að mitt hús skuli kallast bænahús öllum þjóðum? En þér hafið gjört það að spillvirkjainni."

Engin ummæli: