25. júní 2009

Ugla sat á kvisti, átti börn og missti......

Það er hægara um að tala en í að komast að vera í pólitík, eins og ýmsir fá nú að reyna. Vegna Icesavemálisins blasir við, ég leyfi mér að segja áhugaverð staða í íslenskri pólitík. Við lifum jú á áhugaverðum tímum. Nokkrir þingmenn Vinstri grænna hafa mjög látið í veðri vaka að þeir hyggist ekki samþykkja samninginn í þinginu. Einn þeirra, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sagði vegna þessa máls að nú væri tímabært að þingmenn fylgdu eigin sannfæringu. Sjálf greiddi hún samningsumboði ríkisstjórnarinnar mótatkvæði á þingsflokksfundi VG. Jú, er þetta ekki hárrétt hjá Lilju, eiga þingmenn ekki að fylgja eigin sannfæringu í hverju máli?

Gefum okkur nú að stjórnarandstaðan sammælist um að greiða atkvæði gegn samningnum. Þá standa þeir stjórnarþingmenn sem eru á móti honum frammi fyrir því, fylgi þeir sannfæringu sinni, að fella ríkisstjórnina og setja allar aðgerðir hennar í uppnám. Og sennilega margt fleira, því hvað yrði ekki sett í uppnám, liggur mér við að spyrja. Að ríkisstjórnin falli er auðvitað ekki sjálfgefið, en það yrði skársti kosturinn. Fyrir alla. Því eftir slíka lífsreynslu væri þessi ríkisstjórn óstarfhæf og biði ekki annars, ef hún dræpist ekki strax en að fjara út. Þá hefðu þingmennirnir sem fylgdu sannfæringu sinni komið til leiðar ástandi, sem erfitt er að ímynda sér hvernig yrði, eða til hvers leiddi. Maður gæti til dæmis vel hugsað sér að niðurstaða alls yrði í raun miklu verri en samingurinn sem þeir felldu, og þá meina ég verri á þeirra eigin mælikvaraða. Leiddi af sér enn frekara afsal fullveldis eða leiddi af sér enn þyngri drápskylfjar fyrir íslenskan almenning, svo ég grípi orðalag að láni. Það er einfalt að segjast fylgja eigin sannfæringu, en það er alls ekki einfalt þegar á hólminn er komið og afleiðingarnar eru ófyrirséðar.

Nú kann svo að fara að einhverjir þingmenn stjórnarandstöðunnar greiði atkvæði með samningnum og bjargi þar með ríkisstjórn, sem annars hefði fallið. Mega þá ekki allir vel við una? Tja, stjórnin stæði samt eftir stórlega löskuð. Enginn gæti vitað hvort andstæðingar samningsins í stjórnarliðinu notuðu bara tækifærið til að vera á móti, án þess að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingunum, eða hvort þeir hefðu verið á móti engu að síður. Og þó menn vissu það, þá væri það ekkert skárra. Stjórnin væri byrjuð að liðast í sundur á fyrsta erfiða málinu og eintóm erfið mál framundan.

Nú fer það að hljóma sennilega að stjórnarflokkarnir smyrji þessum Icesave samningi í gegn um þingið uppá eigin spýtur, hvað sem stjórnarandstaðan gerir. En samt geta einhverjir verið á móti, eða amk setið hjá. Og það er bara fínt að glöggt verði á munum, því hann er ekkert ástarbréf þessi samningur. Þá er bara spurningin, hvernig þeir verða valdir sem mega fylgja sannfæringu sinni?

1 ummæli:

Ingibjörg sagði...

Hæ, ertu ekki að koma að sofa?