28. júní 2009

Grimmt gras

Fögur er Hlíðin, einkum út-Hlíðin. Ég var í Múlakoti um helgina og varð heillaður af Hlíðinni, einkum þó út-Hlíðinni. Þar sem hjalandi skopparalækir heilsa á aðra hönd, en á hina gnæfir Eyjafjallajökullinn, sú hin mikla mynd. Mitt formlega erindi austur var að slá gras. Með garðsláttuvél. Og gras kemur alltaf á óvart, það vex nefnilega yfir og hylur. Veggur sem reistur var fyrir nokkrum árum hefur í sumar sokkið í gras og er að hverfa. Þó sláttuvélar og bensínorf veiti sleitulaust viðnám, hefur grasið alltaf sigur.

Ég gúgglaði því gras þegar ég kom heim. Gras og ljóð. Mundi óljóst eftir samnefndu ljóði Carl Sandburg, án þess að muna höfundinn og hélt í þokkabót að Magnús Ásgeirsson hefði þýtt, en fann þetta ekki í mínum bókum. Kom í ljós að það var Steinn Steinarr sem snarað hafði ljóði Sandburg og það hafði ég oft lesið. Svo verð ég þess vís við að grúska þetta að Steinn hafði í raun ort nýtt ljóð. Aukið, bætt við og hnýtt framanvið Sandburg. Lesið nú finnst manni þetta eiga einkar vel við okkar blæddu útrásarþjóð.

Skreytið hendur og eyru
með glitrandi gimsteinum.
Haldið danskleiki og veislur
undir vorbláum himni.
Hrópið afreksverk ykkar og heljudáðir
af húsþökunum

Ég er gras og ég græ yfir spor ykkar.
......

Önnur og sannari íslensk snörun hlýtur að vera til, og er eins og mig minni að eina sé t.d. að finna í tilraunaútgáfu á nútímaljóðum fyrir skólaunglinga og kennd var í Hagaskólanum á liðinni öld. Nafn Finns Torfa Hjörleifssonar kemur upp í hugann, sennilega ritstjóri.

Snorri Hjartarson orti líka um grasið sem grær yfir leiðin, /felur hina dánu /friði og von. Þetta er úr ljóðinu Vor og það hefst svona:

Blessað veri grasið
sem grær kringum húsin
bóndans og les mér
ljóð hans,
þrá og sigur
hins þögla manns

Tilvitnunin er fengin af vef Mjólkursamsölunnar: jonas.ms.is. Vona ég að hér sé rétt til vitnað, en mjólkursamsalan hafi ekki hnýtt framanvið frá eign brjósti.

En aftur að að grasi Carl Sandburgs. Það er örugglega engin bændahylling og það fjallar ekki um hrokann eins og útgáfa Steins, heldur um grimmdina. Snilldin í þessari hnífbeittu stríðsádeilu er afstaða grassins. Grimmd grassins. Grasið hylmir yfir og því flökrar ekki við neinu. Þannig urðu vígvellir fyrra stríðs, því höfuðafreki vítisverkfræðinnar, strax iðagrænir aftur. Við lærum aldrei neitt, bötnum ekkert. Við teljum okkur trú um að tíminn sé hinn mikli dómari, en þvert á móti er hann á endanum sekur um mestu grimmd allra ódæðisverka, gleymskuna. Og þar af leiðandi endurtekninguna.

I am the grass.
Let me work.

Rekur þá á fjörurnar þessi dásamlegi flutningur skáldsins sjálfs, þökk sé youtube.

25. júní 2009

Ugla sat á kvisti, átti börn og missti......

Það er hægara um að tala en í að komast að vera í pólitík, eins og ýmsir fá nú að reyna. Vegna Icesavemálisins blasir við, ég leyfi mér að segja áhugaverð staða í íslenskri pólitík. Við lifum jú á áhugaverðum tímum. Nokkrir þingmenn Vinstri grænna hafa mjög látið í veðri vaka að þeir hyggist ekki samþykkja samninginn í þinginu. Einn þeirra, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sagði vegna þessa máls að nú væri tímabært að þingmenn fylgdu eigin sannfæringu. Sjálf greiddi hún samningsumboði ríkisstjórnarinnar mótatkvæði á þingsflokksfundi VG. Jú, er þetta ekki hárrétt hjá Lilju, eiga þingmenn ekki að fylgja eigin sannfæringu í hverju máli?

Gefum okkur nú að stjórnarandstaðan sammælist um að greiða atkvæði gegn samningnum. Þá standa þeir stjórnarþingmenn sem eru á móti honum frammi fyrir því, fylgi þeir sannfæringu sinni, að fella ríkisstjórnina og setja allar aðgerðir hennar í uppnám. Og sennilega margt fleira, því hvað yrði ekki sett í uppnám, liggur mér við að spyrja. Að ríkisstjórnin falli er auðvitað ekki sjálfgefið, en það yrði skársti kosturinn. Fyrir alla. Því eftir slíka lífsreynslu væri þessi ríkisstjórn óstarfhæf og biði ekki annars, ef hún dræpist ekki strax en að fjara út. Þá hefðu þingmennirnir sem fylgdu sannfæringu sinni komið til leiðar ástandi, sem erfitt er að ímynda sér hvernig yrði, eða til hvers leiddi. Maður gæti til dæmis vel hugsað sér að niðurstaða alls yrði í raun miklu verri en samingurinn sem þeir felldu, og þá meina ég verri á þeirra eigin mælikvaraða. Leiddi af sér enn frekara afsal fullveldis eða leiddi af sér enn þyngri drápskylfjar fyrir íslenskan almenning, svo ég grípi orðalag að láni. Það er einfalt að segjast fylgja eigin sannfæringu, en það er alls ekki einfalt þegar á hólminn er komið og afleiðingarnar eru ófyrirséðar.

Nú kann svo að fara að einhverjir þingmenn stjórnarandstöðunnar greiði atkvæði með samningnum og bjargi þar með ríkisstjórn, sem annars hefði fallið. Mega þá ekki allir vel við una? Tja, stjórnin stæði samt eftir stórlega löskuð. Enginn gæti vitað hvort andstæðingar samningsins í stjórnarliðinu notuðu bara tækifærið til að vera á móti, án þess að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingunum, eða hvort þeir hefðu verið á móti engu að síður. Og þó menn vissu það, þá væri það ekkert skárra. Stjórnin væri byrjuð að liðast í sundur á fyrsta erfiða málinu og eintóm erfið mál framundan.

Nú fer það að hljóma sennilega að stjórnarflokkarnir smyrji þessum Icesave samningi í gegn um þingið uppá eigin spýtur, hvað sem stjórnarandstaðan gerir. En samt geta einhverjir verið á móti, eða amk setið hjá. Og það er bara fínt að glöggt verði á munum, því hann er ekkert ástarbréf þessi samningur. Þá er bara spurningin, hvernig þeir verða valdir sem mega fylgja sannfæringu sinni?

24. júní 2009

Hvað eiga aðilar upp á dekk?

Hver bað Vilhjálm Egilsson, Gylfa Arnbjörnsson, Eirík Jónsson, Árna Stefán Jónsson og þessa kalla sem sigla undir fána "aðila vinnumarkaðarins" að taka við stjórn landsins? Nú sitja þeir og karpa um hvernig ríkisfjármármálunum skuli háttað mörg ár fram í tímann. Fulltrúar opinberra starfsmanna gengu á dyr í dag, því þeir vilja meiri skatt en minni samdrátt ríkisútgjalda. Auðvitað, þeir eru fulltrúar opinberra starfsmanna. Hinir eru svo fulltrúar einhverra annarra, launamanna og atvinnurekenda og ganga á dyr af einhverjum öðrum tilefnum. Fjármálaráðherra er í útlöndum brýnna erindina að slá fyrir næstu útborgun, en minnti í útvarpsfréttunum á góðbónda sem staddur er af bæ þegar hann fregnar að vinnumennirnir séu komnir í hár saman og hættir að moka flórinn. Hvaða vitleysa er þetta, geta mennirnir ekki hætt að jagast um tiltlingaskít meðan mykjuhaugurinn hleðst upp, sagði hann.

Þetta hef ég lengi undrast: Af hverju halda menn að samkomulag "aðila vinnumarkaðarins" jafngildi þjóðarvilja? Hvað þá að menn haldi að útkoman jafngildi bestu þjóðarhagsmunum. Pólitík er ekki debet og kredit mismunandi hópa launamanna annars vegar og atvinnurekenda hins vegar. Pólitík snýst um innviði samfélagsins. Laun og hlutafjárarður eru afleiddar stærðir. Hversu farsæll yrði sá sem ákveður fyrst hvaða hann vill þéna og tekur svo stefnu í lífinu einvörðungu til að þjóna því markmiði?

Fært yfir á frétt dagsins; það er afar mikilvæg pólitísk ákvörðun fyrir kjörna fulltrúa að ákveða hvaða opinbera þjónustu við getum veitt eins og nú háttar, en það er ekkert sem Eiríkur Jónsson og Vilhjálmur Egilsson eiga að ákveða sín á milli.

19. júní 2009

Hver er hræddur við Evu Joly?

Jón Kaldal aðalritstjóri Fréttablaðsins er beygður í leiðara dagsins. Þjóðhátíðartillögu hans um að reka Evu Joly var illa tekið. Jón barmar sér yfir viðbrögðunum. En auðvitað vissi hann hver viðbrögðin yrðu. Hann veit að Íslendingar hafa lagt óhemjutraust á Evu Joly og segir það sjálfur. Traust og trúverðugleiki er Íslendingum latína um þessar mundir og Joly kemur að utan. Hérlendis finnst í besta falli fólk sem talar þetta annarlega tungumál traustsins með sterkum hreim. Jón vissi vel hvers var að vænta þegar hann stendur upp, eins og Guðbergur á frægri bókmenntahátíð og segir við heiðursgestinn: gó hóm. En leiðari dagsins hjá Fréttablaðinu gæti vel hafa verið saminn á undan hinum. Hann er fyrirsegjanlegur þeim sem fylgjast með og sjá tekið í taumana. Þetta liður í tafli, þetta er Sikileyjarvörn. Og orðið Silkileyjarvörn ekki valið af handahófi.

En Jón Kaldal grípur til gamla ráðsins að snúa flíkinni við. Beitir eigin veikleika sem vopni. Fjölmiðlarnir voru skammaðir svo mikið segir hann. Þeim var kennt um svo margt, en sjáið það brugðust allir. Meira að segja listamennirnir, sem eiga þó allra manna fyrstir að vara við, brugðust. Hvers ætlast menn eignlega til af okkur, dauðlegum blaðamönnum? Og nú er þetta að endurtaka sig segir Jón Kaldal. Í þetta skiptið blindast menn af Evu Joly.

Einmitt það. Það má ekki einu sinni segja Eva Joly gó hóm og allt verður vitlaust.
Eigum við ekki að þakka Jóni fyrir að standa vaktina? Fyrir að benda á nýju hættuna. Benda okkur á að við stöndum í sömu sporum og þegar Fréttablaðið, saklaust en blint, boðaði á sínum tíma fögnuð hins íslenska efnahagsundurs . Nú ætlar ritstjórinn hins vegar að standa sig betur og vara við hættunni í tæka tíð. Hættunni sem persónugerist í þessari konu, Evu Joly. Eva Joly gó hóm!


Hver er hræddur við Evu Joly? Ert þú hræddur við Evu Joly eða veistu um einhverja sem hafa ástæðu til að óttast?

16. júní 2009

Þjóðhátíð 2009

Oft hef ég séð undrunarsvipinn á útlendingum þegar maður svarar þeim um fólksfjölda á Íslandi. Þeim finnst fáheyrt að sjálfstæð þjóð getir verið svo fámenn. Og víst er það fáheyrt, en aðstæður hér eru líka einstakar. Fólk hefur lifað á þessari eyju lengur en ellefu aldir, sami ættstofn, sama menning. Afrek að hjara allan þennan tíma við harðindi, hamfarir, farsóttir og heimsku. Svo skánaði þetta eitthvað, veðrið batnaði og ilmur af nýrri heimsmenningu barst til landsins, þökk sé hinni sönnu móður þessa lands um allar aldir, hafinu og íbúum þess. Hin nýja veröld tækninnar ruddi á Íslandi nýja vegi, nýja atvinnuvegi. Og hin nýja veröld lýðræðis, frelsis og jafnræðis gaf þeirri hugmynd vængi að fólk það sem byggði þessa eyju væri sérstök þjóð, sem verðuskuldaði að vera fullvalda þjóð. En ekki eru allar þjóðir sjálfstæðar og fullvalda, jafnvel þótt stærri séu, margfalt stærri. En hér hefur þessi þjóð búið, í þessari veiðistöð, þar sem enginn skyldi trúa að nokkur kynni að búa, eins og Norðmenn segja. Og eins og fjölskylda sem byggt hefur sama bæinn mann fram af manni eiga Íslendingar landið. Þetta er þeirra land og þeirra veiðislóð og þeir sem hér fæðast eða hingað flytjast eignast hlut í þessu landi um leið og þeir verða hluti af þessari skrítnu þjóð. En þetta er eins og alltaf bæði debet og kredit, eign og skuld í senn. Landsýn Steins Steinarrs hefur mér alltaf fundist eina skynsamlega ættjarðarljóðið: "Sjá hér er minn staður, mín þjáning mín þrá/mitt þróttleysi og viðnám í senn".


En hvernig getur slík örþjóð staðið sjálfstæð, spyrja útlendingar. Ég veit það ekki, en spyr mig af hverju þjóðin lagði ofurkapp á fullkomið sjálfstæði. Við lærðum í barnaskóla miklar sögur af arðráni og verslunránauð nýlenduþjóðarinnar, engum er treystandi til að tryggja afkomu fólksins eða nytja auðlindirnar öðrum en Íslendingum sjálfum, lærðum við. Rökin í sjálfstæðisbaráttunni voru efnahgsleg, hvað sem allri fjalladýrðinni og ylhýrri íslensku leið. Fjórtán ára gamall tók ég þátt í 50 mílna þorskastríðinu. Gekk eldheitur til baráttunar með stríðsöskrum með heimatilbúið kröfuspjald, sem í sjónvarpsfréttum kvöldsins sást hverfa inn um brotinn glugga breska sendiráðsins. Óskoruð yfirráð Íslendinga yfir íslenskum auðlindum, takk fyrir. Þetta var fyrir 34 árum, þá voru 31 ár frá lýðveldisstofnun. Þrjátíu ár frá stríðslokum.


Í dag er 17. júní 2009. Sjáið okkar stað, okkar þjáningu, okkar þrá! Drottinn minn dýri, hvað höfum við gert? Verðskuldar þjóð sjálfstæði sem leyfir örfáum mönnum að vaða yfir allt og alla með bókhaldsránum, yfirgangi og firringu.? Þjóð sem lætur það gott heita að auðlindunum sé úthlutað til örfárra. Þjóð sem leyfir spekúlöntum að veðsetja alla sína sjóði svo þeir geti þjónað sínum hégómadyntum.

Ég veit ekki hvernig örþjóðin fer að því að standa sjálfstæð meðal þjóða. Þrjúhundruð þúsund manns sem standa undir sjálfstæðu, nútíma ríki. En hitt veit ég, að þessi þjóð hefur gengið hreint til verks við að svívirða öll helstu rök eigin sjálfstæðis. Og nú þegar haldin er þjóðhátíð í skugga nauðarsamnings við Breta getur ekkert breytt biturri staðreynd. Hversu ósvífnir sem viðsemjendurnir hafa verið, hversu óhönduglega sem við höfum tekið á málinu á öllum stigum, hverjum lagalegum vafa samningurinn kann að vera orpinn, hversu auðsveipin og aum íslensk stjórnvöld eru í þessu máli, fær ekkert breytt þeirri biturri staðreynd að ánauð okkar kemur nú ekki að utan, hún er okkar.

Við höfum séð nóg af þróttleysi okkar, nú reynir á viðnámið. Viðnámi okkar hvers og eins, þjóðarinnar sjálfrar gegn þeim persónulega, sem augljóslega finnst þeir hafa einskis að iðrast og ætla engu að breyta og viðnámi gegn hugarfarinu sem að baki býr.