28. júní 2009

Grimmt gras

Fögur er Hlíðin, einkum út-Hlíðin. Ég var í Múlakoti um helgina og varð heillaður af Hlíðinni, einkum þó út-Hlíðinni. Þar sem hjalandi skopparalækir heilsa á aðra hönd, en á hina gnæfir Eyjafjallajökullinn, sú hin mikla mynd. Mitt formlega erindi austur var að slá gras. Með garðsláttuvél. Og gras kemur alltaf á óvart, það vex nefnilega yfir og hylur. Veggur sem reistur var fyrir nokkrum árum hefur í sumar sokkið í gras og er að hverfa. Þó sláttuvélar og bensínorf veiti sleitulaust viðnám, hefur grasið alltaf sigur.

Ég gúgglaði því gras þegar ég kom heim. Gras og ljóð. Mundi óljóst eftir samnefndu ljóði Carl Sandburg, án þess að muna höfundinn og hélt í þokkabót að Magnús Ásgeirsson hefði þýtt, en fann þetta ekki í mínum bókum. Kom í ljós að það var Steinn Steinarr sem snarað hafði ljóði Sandburg og það hafði ég oft lesið. Svo verð ég þess vís við að grúska þetta að Steinn hafði í raun ort nýtt ljóð. Aukið, bætt við og hnýtt framanvið Sandburg. Lesið nú finnst manni þetta eiga einkar vel við okkar blæddu útrásarþjóð.

Skreytið hendur og eyru
með glitrandi gimsteinum.
Haldið danskleiki og veislur
undir vorbláum himni.
Hrópið afreksverk ykkar og heljudáðir
af húsþökunum

Ég er gras og ég græ yfir spor ykkar.
......

Önnur og sannari íslensk snörun hlýtur að vera til, og er eins og mig minni að eina sé t.d. að finna í tilraunaútgáfu á nútímaljóðum fyrir skólaunglinga og kennd var í Hagaskólanum á liðinni öld. Nafn Finns Torfa Hjörleifssonar kemur upp í hugann, sennilega ritstjóri.

Snorri Hjartarson orti líka um grasið sem grær yfir leiðin, /felur hina dánu /friði og von. Þetta er úr ljóðinu Vor og það hefst svona:

Blessað veri grasið
sem grær kringum húsin
bóndans og les mér
ljóð hans,
þrá og sigur
hins þögla manns

Tilvitnunin er fengin af vef Mjólkursamsölunnar: jonas.ms.is. Vona ég að hér sé rétt til vitnað, en mjólkursamsalan hafi ekki hnýtt framanvið frá eign brjósti.

En aftur að að grasi Carl Sandburgs. Það er örugglega engin bændahylling og það fjallar ekki um hrokann eins og útgáfa Steins, heldur um grimmdina. Snilldin í þessari hnífbeittu stríðsádeilu er afstaða grassins. Grimmd grassins. Grasið hylmir yfir og því flökrar ekki við neinu. Þannig urðu vígvellir fyrra stríðs, því höfuðafreki vítisverkfræðinnar, strax iðagrænir aftur. Við lærum aldrei neitt, bötnum ekkert. Við teljum okkur trú um að tíminn sé hinn mikli dómari, en þvert á móti er hann á endanum sekur um mestu grimmd allra ódæðisverka, gleymskuna. Og þar af leiðandi endurtekninguna.

I am the grass.
Let me work.

Rekur þá á fjörurnar þessi dásamlegi flutningur skáldsins sjálfs, þökk sé youtube.

3 ummæli:

Unknown sagði...

Blessunarlega grær grasið yfir allt, einungis þannig er hægt að byrja upp á nýtt. Hvort við lærum eitthvað af því sem leynist undir sverðinum er svo annað mál. En tíminn lætur ekki að sér hæða - eða eins og Shakespeare orðaði það.

Drottnari Sesar dó og varð að leir
sem drepið er í vegginn síðar meir
sú mold sem fyrr á heimsins hástól sat
heftir nú vetrarnæðing inn um gat.

Ef ég man rétt stynur Hamlet þetta upp úr sér í frægri kirkjugarðssenu.

Hans Jakob Beck sagði...

Já blessað veri grasið sagði Snorri Hjartarson og tíminn máir út spor manna, bæði kónga og böðla.

Unknown sagði...

Takk fyrir að finna þennan stórkostlega flutning á Grasinu.
Einusinni átti ég leið til Bergen-Belsen. Þar grær beitilyngið yfir allt.
http://www.emusic.com/album/Carl-Sandburg-The-Great-Carl-Sandburg-Songs-of-America-MP3-Download/10865544.html
Þarna syngur Carl Sandburg fyrir okkur sem þrátt fyrir allt sluppum bara furðu vel.