16. mars 2010

Opið bréf til hugsjónamanna

"Þarna var hann þá loksins kominn í eigin söguperónu, hinn ómissandi Nosferatu, Skrattinn sjálfur" sagði ég í síðasta pistli um þennan Alex Jurshevski. Fjölmiðlarnir, sem slóu honum upp á sunnudagskvöldi sem miklum sérfræðingi slá honum upp á þriðjudagskvöldi sem fjármagnsvampíru og hrungammi.

Sjáið nú þetta, fyrir tilstilli stjórnmálmanna sem sumir smyrja og sumir sleikja klípuna á skottinu nær þessi bölvun, Icesave, að magnast upp í slíkt hugarvíl að forsetinn, þingmenn og seinast ráðherra gera hróp að Norðurlöndunum. Evrópusambandið er útmálað kúgunarskrifstofa stórveldanna og dregin sú ályktun af öllu saman að reka beri AGS úr landi. Við hrekjum frá okkur vini, við lokum á sennilegar lausnir á deilumáli okkar og við beinlínis heimtum að standa ein. Frekar alein í heiminum, en að samþykkja Icesave kúgunina.
Og um götur Reykjavíkur ganga nú menn eins og Alex Jurshevski. Þér hugsjónamenn: til hvers er barist, til hvers er barist?

14. mars 2010

Sparkað í dekkin á druslunni

Höfundur Hruneyjarsögu heldur áfram að leika sér að sögupersónum sínum eins og köttur að mús. Jafn ráðvilltar og alltaf klóra þær sér nú í hausnum eftir hinar tragikómísku kosningar. Samningsstaðan styrktist svo við stóra NEI-ið að Hollendingar og Bretar þora ekki að samingaborðinu og vofa íslensku lýðræðisbyltingarinnar, sem á eftir að velta um koll spilltu fjármálakerfi heimsins virðist hafa villst og hefur enn ekki komið fram í Færeyjum. Allt situr við sama og áður, það er bara klukkan sem bifast. Allt er kyrrt, allt er fast. Nú bíða menn að því er virðist eftir næsta kafla sögunnar, hinni grætilegu rannsóknarskýrslu.

En í dag birtist skyndilega persóna, sem margir er fylgjast grannt með Hruneyjassögu bjuggust við fyrir löngu. Hún gengur undir nafinu Alex Jurshevski, innheimtusérfræðingur hjá Recovery Patners. Með fangamarkið bróderaða í skyrtumansjetturnar, flaumósa amerískan talanda og sjálfstraust andskotans birtist hann í Silfri Egils og lítur út eins og Jón Gnarr. Það er ekki að spyrja að yndi höfundar á svörtum húmor. Jurshevski kom beint að efninu, meiri lántaka er Íslandi dauðadómur. Koss dauðans, Júdasarkoss. Nei, fylgið mér sagði skuldheimtumaðurinn. Ég þekki svona vandamál og tilbúinn til að leiðbeina ykkur. Ný lán fara bara beint í vasa einhverra jöklabréfahafa. Ekki borga. Segið bara að þeir hafi frosið fastir, þetta eru jú jöklabréf. Svo skuluð þið skera niður og spara og hugsa um það eitt að borga góðar skuldir. Þá koma fjárfestarnir með nýja peninga sagði Jurshevski, ameríski skuldheimtumaðurinn með Gnarrlúkkið.

En þetta hefur áður verið sagt í sögunni okkar, eins og minnugum kann að ráma í. Höfundurinn vill greinilega koma þessu til skila. Peningar hafa ekki minni. Peningar hafa enga samvisku. Það skiptir engu máli hvernig öðrum hefur vegnað í viðskiptum við mann sem þú treystir þér til að græða á. Peningar streyma um heiminn blóðugir, þvegnir eða heiðarlega svitastorknir án þess að fjárfestar fáist hið minnsta um lyktina af þeim og skuldheimtumenn ennþá síður. Það er bara til ein spurning í heiminum, er díllinn góður?

Og þarna var hann kominn maðurinn sem segir það sem allir vilja heyra. Þið þurfið engin lán. Yrðum við ekki útskúfuð þjóð með peninga fólks í jökulfrosti óbyggðanna og Ísland eitt allsherjar icesave? Nei, þvert á móti, sagði skuldheimtumaðurinn, ef þið ætlið að slá enn meiri lán til að gera upp gamlar skuldir verðiði útskúfuð af fjáfestum. Þá hverfur Jurshevski á braut og sést aldrei aftur. Hryllileg tilhugsun. Hann væri reiðubúinn til að leggja ríkinu lið og fjárfesta. I´m kicking the tires of this thing, sagði hann og átti við Ísland. Hann væri hingað kominn til að sparka í dekkinn á druslunni sagði hann. Er að pæla í að kaupa, ef honum hugnast díllinn.

Þarna var hann þá loksins kominn í eigin söguperónu, hinn ómissandi Nosferatu, Skrattinn sjálfur. En það má Andskotinn þó eiga, að hann kemur alltaf upp um sig, ef glöggt er hlustað. Kaldhæðni hrunsögunnar er hins vegar að láta þjóðernissinnaða hugsjónamenn í baráttu gegn heimskapítalsimanum ryðja hingað brautina fjárfestum með breið glott og fangamark á manséttunum.

3. mars 2010

Ó, þér fábjánafjöld

Fullyrðing Þráins Bertelssonar að 5% þjóðarinnar séu fábjánar hefur hleypt velþegnu lífi í annars dauflega fræðigrein, fábjánafræði. En eitt er nauðsynlegt að skýra í ljósi umræðunnar, fábjáni er ekki alltaf fábjáni. Fjöldi fábjána á Íslandi er afar breytilegur. Best að nefna dæmi af sjálfum sér.

Sumarið 2008 festi ég kaup á nýlegum lúxuséppa, sem einhver þjösni hafði haft á kaupleigu í 1 eða 2 ár. Verðið var hagstætt, en krafðist þó bílaláns fyrir rúmlega hálfu verði bílsins. Myntköfulán varð ofaná, jafnvel þó mér yrði hugsað til Rauðhettu litlu með körfuna sína þegar bílsalinn var að vísa mér fjármögnunarveginn. Svo ók ég heim og bakkaði upp í innkeyrsluna, enda bílinn útbúinn bakkmyndavél. Bráðnauðsynlegur útbúnaður fyrir mann sem er brenndur af því að hafa straujað hliðina á kyrrstæðum Ford Cortina með afurendanum á blæju-rússajeppa í blindri hríð árið 1983. Með því að bakka upp í innkeyrsluna yrði ég líka fljótari að keyra út. Það reyndist vel hugsað, því eiginkonan sendi mig snarlega til baka að skila bílnum. Ég átti sem sagt að kaupa bíl fyrir peninga sem við áttum. Bílinn mátti svo sem vera japanskur, en ekki peningarnir sem ég borgaði hann með. Þegar ég kom til baka á bílasöluna leið mér eins og fábjána. Það stafaði einfaldlega af því að ég var fábjáni. Samt var mér vel tekið og hughresstist nokkuð við það að heyra að ég væri ekki fyrsti fábjáninn á ferli hins unga sölumanns.

Nú hef ég fengið boð um að koma til kosninga næsta laugardag sem gerir það að verkum að mér líður nú aftur eins og fábjána. Það er mér þó kannski hughreysting að vera ekki eini fábjáninn. Og það eru gott betur en 5% þjóðarinnar á kjörskrá.