17. febrúar 2009

Indriðafundir

Ferill minn í stéttabaráttunni var stuttur. Ég sat nokkra mánuði í samninganefnd Læknafélags Íslands fyrir hönd unglækna. Menn gera sér væntanlega grein fyrir að langt er um liðið. Formaður okkar var Sverrir Bergmann, húmorískur og kvikur taugalæknir sem setið hafði á þingi fyrir Framsóknarflokkinn og hefur eflaust verið fenginn í verkið vegna þekkingar sinnar á stjórnsýslunni og pólitískri refskák. Foringi andstæðinganna, samninganefndar ríkisins, var Indriði Þorláksson, sá ágæti maður sem nú hefur verið kallaður úr pensjón sinni að stýra fjármálaráðneytinu í boði Steingríms Sigfússonar. Hafi Sverrir verið klókur verður honum þó seint jafnað til Indriða.

Nema hvað, þarna sat ég fund eftir fund í afhýsi sem kallað var Hosíló, gömlu fátæklegu timburhúsi sem stóð að baki hins mikla Arnarhváls, eins og Hriflu-Jónasi hafi hreinlega sést yfir að rífa það. Indriði sást hvergi, heldur stýrði nefndinni Gunnar Björnsson, sá sem lengi síðan fyllti föt Indriða sem aðal andskoti ríkisstarfsmanna í launaviðræðum. Sverrir var laus við, átti alltaf einhver brýn erindi hingað og þangað. Hann var kvikur maður á fæti, fótnettur og gekk jafnan í mokkasíum. Fundir þessir voru einhverjir þeir erfiðustu sem ég hef setið. Í upphafi lagði hvor aðili fram sínar kröfur og var úthaf á milli. Svo sátu menn og þögðu. Langtímum saman sátu nefndirnar andspænis hvor annarri og þögðu. Sá sem horft hefur á Gunnar Björnsson þegja heilan dag skilur hvaða mannauð ráðuneyti fjármála á í þeim manni. Í dagslok lá manni við sturlun. Þetta virtist hins vegar lítið bíta á Sverri. Hann hélt sínu létta skapi og káta fasi. Svo loks einn dag eftir langan fund, þar sem ekkert hafði þokast og örvænting var farin að naga hjartað, hóaði Sverrir okkur saman undir húsvegg. Hann leit snöggt á klukkuna eins og undirstrika hversu væri áliðið og sagði "Jæja, nú er orðið tímabært að ganga frá þessu. Ég fer og tala við Indriða". Daginn eftir skrifuðum við undir nýjan kjarasamning.

Þegar þessi saga gerðist hafði ég aldrei heyrt talað um orðræðuna sem heimspekingarnir segja að kenni manni svo margt um þankaganginn í samfélaginu. Þaðan af síður hafði ég heyrt talað um samræðustjórnmál og hafði þó unnið sem liðléttingur hjá stjórnmálfræðiskor Háskóla Íslands á námsárunum. Svona hefur nú heimurinn sótt í sig verið og batnað. Ég hef oft haft það til marks um gamla tímann að tveir kallar hafi gert út um málin sín á milli. Rökræður, samningaviðræður, vinnuhópar og þess háttar atriði verið talin eins konar leiklistarstarfsemi. Í huganum hét slík milliliðalaus afgreiðsla foringjanna indriðafundir.

En hvílíkur barnaskapur var að halda að orðræða um samræðustjórnmál væri til marks um breyttan heim. Indriðafundirnir hafa reynst enn í fullu gildi og hvort sem fótgönguliðarnir eru látnir þegja eða tala, kunna foringjarnir einir að ráða. Loks hefur þó þessi pólitík siglt á sker, eins og sést á skoðanakönnun um traust fólks á stjórnmálamönnum. Fram til þessa þessa hefur hverjum stjórnmálaflokki þótt það mikilvægast að eiga öflugan foringja. Fólk kýs foringja var sagt. Nú raðar almenningur foringjunum, sem haft hafa völdin í eina rófu aftast og forsetinn flýtur með. Og formaður Samfylkingarinnar, sem borinn var til forystu í nafni lýðræðis og samræðustjórnmála stóreykur fylgi flokksins með því loksins, loksins að stíga til hliðar og treysta öðrum.

4 ummæli:

Elísabet sagði...

æ, takk fyrir lesturinn, ég hló eins og hross!

(stjórnmál eru samt ekkert fyndin)

Elísabet sagði...

rakst á þetta á vafrinu:

http://blogg.visir.is/jarl/2009/02/19/hus-austur-a-fjor%C3%B0um-somasta%C3%B0ir-vi%C3%B0-rey%C3%B0arfjor%C3%B0/

Hans Jakob Beck sagði...

Takk fyrir linkinn baun. Við látum auðvitað Regínu vita líka.

Elísabet sagði...

bið að heilsa henni:)