19. júní 2009

Hver er hræddur við Evu Joly?

Jón Kaldal aðalritstjóri Fréttablaðsins er beygður í leiðara dagsins. Þjóðhátíðartillögu hans um að reka Evu Joly var illa tekið. Jón barmar sér yfir viðbrögðunum. En auðvitað vissi hann hver viðbrögðin yrðu. Hann veit að Íslendingar hafa lagt óhemjutraust á Evu Joly og segir það sjálfur. Traust og trúverðugleiki er Íslendingum latína um þessar mundir og Joly kemur að utan. Hérlendis finnst í besta falli fólk sem talar þetta annarlega tungumál traustsins með sterkum hreim. Jón vissi vel hvers var að vænta þegar hann stendur upp, eins og Guðbergur á frægri bókmenntahátíð og segir við heiðursgestinn: gó hóm. En leiðari dagsins hjá Fréttablaðinu gæti vel hafa verið saminn á undan hinum. Hann er fyrirsegjanlegur þeim sem fylgjast með og sjá tekið í taumana. Þetta liður í tafli, þetta er Sikileyjarvörn. Og orðið Silkileyjarvörn ekki valið af handahófi.

En Jón Kaldal grípur til gamla ráðsins að snúa flíkinni við. Beitir eigin veikleika sem vopni. Fjölmiðlarnir voru skammaðir svo mikið segir hann. Þeim var kennt um svo margt, en sjáið það brugðust allir. Meira að segja listamennirnir, sem eiga þó allra manna fyrstir að vara við, brugðust. Hvers ætlast menn eignlega til af okkur, dauðlegum blaðamönnum? Og nú er þetta að endurtaka sig segir Jón Kaldal. Í þetta skiptið blindast menn af Evu Joly.

Einmitt það. Það má ekki einu sinni segja Eva Joly gó hóm og allt verður vitlaust.
Eigum við ekki að þakka Jóni fyrir að standa vaktina? Fyrir að benda á nýju hættuna. Benda okkur á að við stöndum í sömu sporum og þegar Fréttablaðið, saklaust en blint, boðaði á sínum tíma fögnuð hins íslenska efnahagsundurs . Nú ætlar ritstjórinn hins vegar að standa sig betur og vara við hættunni í tæka tíð. Hættunni sem persónugerist í þessari konu, Evu Joly. Eva Joly gó hóm!


Hver er hræddur við Evu Joly? Ert þú hræddur við Evu Joly eða veistu um einhverja sem hafa ástæðu til að óttast?

Engin ummæli: