31. október 2008

Grár og gugginn Davíð saknar andskotanna

Davíð Oddson, sjálfum sér líkur, hendir gaman að fámenni á mótmælafundi tileinkuðum honum. Hann væri þá orðinn svona grár og gugginn hefur DV eftir honum 29/10. Þetta passar vel við kenningu sem ég viðraði á þriðja kaffibolla á dögunum. Óvinsældir Davíðs, kannski fremur en vinsældir hafa lagt grunninn að völdum hans.

Davíð var frá fyrstu tíð í pólitík efstur í báðum deildum. Í byrjun var hann persónugervingur hinnar umdeildu frjálshyggju, en varð síðar sjálfur stærri en nokkur stjórnmálakenning í kvosinni íslensku. Frjálshyggja Davíðs tók jafnframt á sig ýmsar einkennilegar myndir heimasmíði og eignin uppfinninga. Þeir sem andmæltu þessari pólitík voru einfaldlega að andmæla Davíð. Þeir voru settir í fríðan flokk andstæðinga hans. Hóp sem ekki þurfti að svara. Skörulegir stjórnmálamenn eiga sér vitaskuld marga andstæðinga. Andstæðingar eru hlutdrægir. Maður rökræðir ekki við fólk sem er persónulega í nöp við mann. Slíka afgreiðir maður best með því að skjóta á þá, vera fyndinn á þeirra kostnað, koma með neyðarlegar athugasemdir og setja þá "paa plats". Ögrun kallar á viðbrögð og það styrkir enn trúna á að málið snúist um Davíð Oddson, ekki um pólitík. Og styrkir um leið enn trúna á að andmæli eigin liðsmenn formanninum afneiti þeir málstaðnum.

Nú varar forsætisráðherra við því að persónugera vandamál þjóðarinnar í Davíð Oddssyni.

30. október 2008

Nykrað ryk

Geir Haarde átti myndlíkingu sem margir tóku eftir honum. Hann vildi fyrst skoða orsakir bankakreppunar eftir að rykið hefði sest. Þetta tóku ýmsir upp og fóru að tala um að bíða með hitt og þetta þar til rykið hefði sest. Efnislega var forsætisráðherranum mótmælt kröftuglega, en látum það liggja milli hluta hér.

Myndlíking Geirs er meira en nykruð, hún snýr rosanum út. Hún er á röngunni. Í hruninu mikla þyrlaðist ryk ekki upp. Það settist, hvarf. Skyndilega sáum við skýrt. Við sáum hvað duldist bak við framhlið bankanna; fyrirtæki í blygðunarlausri þénustu við eigendur sína á kostnað almennra viðskiptavina. Við sáum hvernig stjórnlaus mylla fjárglæframanna hafði tekið völdin undir sýndaryfirborði velferðarsamfélagsins. Við sáum hvernig gamall pólitískur spuni féll marflatur. Og loks sáum við spillinguna sem farið hefur fram fyrir opnum tjöldum.

Séu atburðir þessara örlagaríku og viðburðaríku daga ruglingslegir er það ekki vegna ryks í loftinu heldur þvert á móti vegna þess að við sjáum svo mikið af því sem við megum ekki sjá. Rykinu var stráð í augu okkar meðan allt virtist leika í lyndi.

En þetta stendur ekki lengi. Mýsnar hverfa fljótt eftir að ljósin eru tendruð. Rykinu verður aftur sáldrað í augu okkar, það er eðlilegt ástand.

29. október 2008

Kreppa, lýðheilsa og einfaldar lausnir

Skelfingar efnahagskreppunar eru handan við hornið. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, spáir 10% rýrnun þjóðartekna. Það yrði jafnkröpp niðursveifla og í Finnlandi í byrjun 10. áratugarins. Svona er spáin, hverning verður raunin? En hvernig fer slík kreppa með heilsufar þjóðarinnar? Svo einkennilegt sem það virðist þá benda margar rannsóknir til að efnahagskreppur bæti heilsufarið. Kannski menn borði minna og hollar, hreyfi sig meira, reyki minna. Kannski fólk hlúi betur að öðrum. Þetta er hins vegar ekki einhlýt niðurstaða, rannsóknir stangast á. Í fyrra birtist rannsókn um tengsl efnahags og heilsu í ESB löndunum sem þóttist slá niður með myndugleik þessa kenningu. Samanburður milli landa sýndi sterk tengsl dánartíðni vegna margvíslegra sjúkdóma og efnahagslægðar. Víst er það vont fyrir heilsu þjóðar að ganga í gegn um efnahagskreppu sögðu höfundarnir. Reyndar er forvitnilegt að skoða niðurstöðurnar aðeins nánar. Það sem reynist þjóðunum hollast, er lang sterkasti jákvæði þátturinn, er sem sagt áfengisneysla! Þá vaknar sú spurning hvort maður eigi bara að detta íða. Gæti verið efni í "letter to the editor".

Reykingar

  • Reykingar drepa. Venjulegur reykingamaður lifir 13 árum skemur en reykleysinginn. Styttir líf sitt um korter með hverri rettu. Og áður en venjulegur reykingamaðurinn deyr hefur hann liðið af langvinnum sjúkdómi einhver ár nema dánarorsökin hafi verið hraðvaxta krabbamein. Langvinn lungateppa, kransæðasjúkdómur og annars konar æðakölkun, í útlimum og heila t.d., eru alþekktir fylgifiskar reykinga. Hvers kyns krabbamein, ekki síst lungakrabbamein fylgja reykingum framar nokkru öðru. Reykurinn sem brennur í sígarettunni inniheldur þúsundir efnasambanda, þar af fjöldi krabbameinsvalda. Stöðug erting við innöndun þessa heita eiturlofts veldur viðvarandi bólgu í lungum og líkamanum öllum. Efnin í reyknum berast með blóðrásinni um allt og valda alls staðar skemmdum. Skemmdum sem geta orðið að margvíslegustu sjúkdómum. Eina efnið í sígarettureyknum sem reykingamaðurinn kærir sig um er níkótín. Níkótín er fíkniefni, veldur fíkn vegna áhrifa þess á viðtæki í heilanum og gerir reykingarmanninn ánauðugan og breytir sjálfsmynd hans. Tæknilega stendur bara sprautan reykingum á sporði hvað varðar skammt og hraða efnis beint til viðtækja heilans . Þess vegna reykir fólk níkótínið og þess vegna er þetta óhreina fíkniefni, sígarettan, svona vinsæl. En reykingar eru félagslegt athæfi eins og annað mannlegt atferli og nýtur nú lítillar hylli á vesturlöndum. Þeim sem vilja losna undan ánauðinni má hjálpa með ýmsum ráðum.