4. febrúar 2009

Forvarnir gegn sálarháska

Jón Ásgeir Jóhannesson heldur því fram að fyrirsjánlegt gjaldþrot Baugs Group sé vegna einhvers konar starfslokasamnings sem "skilanefnd Sjálfstæðisflokksins" (í Landsbankanum) gerir við hinn brottrekna Davíð Oddsson seðlabankastjóra. Hvaða fáheyrða þvæla er þetta eiginlega? Hvað fá þeir Ingimundur og Eiríkur fyrir sinn snúð? Verður Fiskbúðin Freyjugötu 1 þvinguð í gjaldþrot fyrir annan og Blómatorgið, Birkimel fyrir hinn?

Það er eins um samsæriskenningar og spádóma, hvoru tveggju er venjulega hreint bull, en samt ómótstæðilegt sumu fólki. Sjálfur féll ég í þá freistni á þessu bloggi mínu að spá leðjuslag, sem aldrei varð. Þetta var um miðjan nóvember og norska sjónvarpið sýndi þátt um Baug sem varð mér tilefni til að spyrja hvort þetta væri liður í því að beina athyglinni að Jóni Ásgeiri fremur en öðrum persónum og leikendum hrunsins . Ég féll sem sagt í samsæriskenningafreistnina líka. Sagði sem svo, að sameiginlegir hagsmunir gætu fengið svarna óvini til að þegja, en þegar engu væri lengur að tapa kæmi hroðinn upp á yfirborðið. Mér finnst nú kjánalegt að hafa fallið í þá gryfju að fara með spádóma um upplausn einhverrar ímyndaðrar þagnarmafíu, omerta, sem ég hef engin rök fyrir. Og mér leiðist líka, eins og flestum, óendanlega þessi sturlungaöld Jóns og Davíðs. Ég veit því ekki af hverju ég er að skrifa um kauða, en held að sálfræðilegir varnarhættir komi málinu við.

Jón Ásgeir kastar hanskanum. Fólk virðast trúa að þessu verði svarað. Senn mun smjörfjallið gjósa, skrifar einhver í dag. Smjörfallið Davíð. Mann hryllir við tilhugsunni um enn einn kafla þessarar ömurlegu sögu. Í þetta skiptið ætla ég engu að spá um leðjuslag þeirra stórbokkanna eða annarra. Orðum Jóns Ásgeirs þarf heldur ekki að svara. En verði það á okkur lagt, og hér koma varnarhættirnir til sögunnar, skulum við líta á það sem nauðsynlega hreinsun. Sem lið í endurnýjuninni. Við erum að skipta um innréttingu og þetta er skíturinn bak við eldavélina.

Engin ummæli: