2. desember 2009

Stríðið um raunveruleikann

Raunveruleikinn er lúxus þeirra sem lifa við stanslaust öruggi, hinir þurfa skáldskap. Dómarar í réttarríki eru varðir í bak og fyrir og hafðir í bómull svo þeir leiðist ekki út í skáldskap. En á Hlemmi, þegar réttað er út af stolinni bokku er ekki spurt um sennilega afleiðingu og orsakatengsl heldur hvor deiluaðila býður betri skáldskap. Í samfélagi sem vaknar til daglegs amsturs í föstum skorðum dag eftir dag og ár eftir ár trúir fólk á raunveruleikann. Malandinn í morgunútvarpinu og dagblaðið með kaffibollanum færir fólki raunveruleikann. Svo er spjallað og smárifist við vinnufélaga og vini um hitt og þetta, sem allt er fyrir fram gefið og augljóst, enda hluti af raunveruleikanum sjálfum. Þetta er kallað að allt leiki í lyndi.

En um leið og stríðið skellur á hverfur raunveruleikinn. Jafnvel kaffinu sjálfu er ekki treystandi, hvað þá blaðinu eða útvarpinu. Þá lifir sannleikurinn bara í skáldskapnum, skopmyndirnar sýna sannleikann en leiðararnir eru húmorslausar skopstælingar. En ef sannleikurinn býr í skáldskapnum, þá hefur hann sama heimilsfang og lygin því lygin er líka skáldskapur og sennilega oft styttra á milli en mann grunar. Það sem var raunveruleiki meðan allt lék í lyndi reynist blekking og lyga verst. Um þetta stendur stríðið. Nýja útgáfu af sannleikanum sem færir okkur aftur líf með rjúkandi morgunkaffi, blaði og þægilegum malanda í útvarpinu.

Fyrst trúðum við því að hrunið myndi færa okkur sannleikann. Iðrunin yrði slík yfir rústum veruleikans og hrikaleiki afleiðinganna myndi þjappa okkur saman. En auðvitað fengum við stríð um nýjan veruleika. Skyldum við nú trúa því að Sannleikurinn, á silfurfati frá Sannleiksnefndinni jafni um þetta stríð og færi okkur réttlæti og nýjan raunveruleika? Nei, auðvitað ekki, hversu þarft sem þeirra starf í nefndinni annars er.

Allt sem okkur hefur verið sagt kann að vera afvegafært, málað og hjúpað, svo við verðum að treysta eigin hjarta og berjast fyrir málstaðinn, sem er raunveruleiki handa venjulegu fólki. Líf fyrir einfalt fólk, sem beygir sig undir sígildar siðareglur um heiðarleika, sanngirni, samhjálp, hófsemi eða hvað það er sem felst í orðinu mannasiðir. Það er einfaldara að greina góðan málstað frá slæmum, en að vita hvað er satt eða logið á hverjum tíma. Og eitt ætti að minnsta kosti að vera einfalt að skilja, gamli raunveruleikinn er vondur málstaður. Það er siðferðislega drukknaður maður sem vill aftur um borð í þann dall. Aumkunarvert er að heyra menn, sem hanga á gamla raunveruleikanum eins og skipbrotsmenn á rekaldi úr brakinu og hrópa: Allir hingað, ég er búinn að finna skipið.