5. október 2009

Villtar álftir

Sú dæmisaga sem mér verður oftast hugsað til var sögð af Þorsteini Gylfasyni í einhverri alþýðubóka hans. Hún fjallar um siðleysingja. Mann sem lagði á sig að ganga ofan úr Háskóla niður á pósthús til að kaupa frímerki á eitt prívatbréf, frekar en að leggja það með vinnupóstinum. Þessi maður sá, eftir því sem Þorsteinn sagði, ekki mörkin milli siðlegrar og ósiðlegrar notkunar almannafjár, en hélt að það væri ráðvendni að ganga sem lengst. Mun grimmara dæmi skilst mér megi finna í bókinni Villtir Svanir, þar sem pótintáti í kínverska Kommúnistaflokknum lætur þungaða konu sína hlaupa langferðalag á eftir bílnum sínum. Hann vildi ekki að misnota eigur Flokksins og alþýðunnar.


Það eru nýjir tímar og nýtt Ísland. Nú eru komnir þingmenn sem standa við sannfæringu sína fremur en selja atkvæði sín fyrir embætti og bitlinga. Og þessi háttur mun breiðast út og varpa oki gömlu spillingarinnar af herðum þjóðarinnar. Ferðalagið er hafið. Þjóðin fylgir á eftir.


Einhverjir munu þó hafa séð að bílinn ekur í hringi. Og að þjóðin er tekin að mæðast.

Engin ummæli: