13. janúar 2009

Hvað er Samfylkingin að pæla? Skemmtileg gestaþraut

Margir eru forviða á formanni Samfylkingarinnar, hvað er hann eiginlega að pæla? Hvers vegna gerir Samfylkingin sig að hækju í eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins? Ég hef spurt marga spjallara og lesið færslur. Sumir óttast að eitthvað ógnvænlegt eigi enn eftir að koma í ljós, eitthvað sem girði fyrir stjórnarslit á þessum tímapunkti. Aðrir halda að Samfylkingin hafi á örskömmum tíma orðið valdafíkn dauðans að bráð. Ýmist virðast halda að ISG sé óstarfshæf vegna veikinda. Jón Kaldal tekur málið upp í leiðara Fréttablaðsins í dag http://www.visir.is/article/20090113/SKODANIR04/154435679/-1. Hann leitar skýringa í kenningu Benedikts Jóhannessonar: ISG vilji feta út úr ógöngunum inn í ESB með ervu í stað dauðrar ískrónu. Þar með yrði þessi óvinsæla ríkisstjórn orðin tímamótastjórn.


Er þetta sennileg kenning? Já og nei. Það er ekki sennilegt að Ingibjörg Sólrún deili því lífsviðhorfi með Benedikt að landsfundur Sjálfstæðisflokksins sé æðsta og merkasta samkoma landins. Að sá sem nær að knýja fram stefnubreytingu hjá Sjálfstæðisflokknum verði ódauðlegur af verkum sínum, jafnvel þó krati sé. Og það má hundur í haus minn heita ef Samfylkingin skilur ekki að þessi ríkisstjórn á ekki framtíðina fyrir sér.


Hins vegar kann IGS að meta það svo að evruvæðing sé bráðamál og forgangsatriði. Evra verði hins vegar ekki tekin upp í óþökk ESB. Það dugar þó væntanlega að byrja aðildarviðræður, þó samingur um inngöngu hljóti að hafa fyrirvara um samþykki þjóðar. Samfylkingin neyðist því til að hanga í stjórninni fram yfir frægan landsfund Sjálfsæðismanna, sem hún hefur þó fengið flýtt. Strax í kjölfar hans yrðu þá annað hvort stjórnarslit ef ESB er þumall niður eða, ef þumallinn upp, virkjuð áætlun um snarlega upptöku evru. Með þetta í höfn gæti komið los á Samfylkinguna. Hún mun réttlæta stjórnarsetuna með þessari "neyðaráætlun" sinni. Sjálfstæðisflokkur vill hins vegar auðvitað að draga málið á langinn, eins og GHH lagði til með "sáttatillögu" um þjóðatkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Þetta er slappur leikur, enda staðan léleg. Samfylking hefur tak á Flokknum, sem er þverklofinn í málinu í þokkabót. Svo ber hann með sér að vera fyrir Flokkinn frekar en þjóðina.

Eftir að hafa til gamans glímt við gestaþraut dagsins, má nefna næstu þraut. Hún er þyngri. Hvað verður um þessa stjórnmálaflokka?

Engin ummæli: