21. apríl 2009

Stundin er komin

Áður fyrr var ég andsnúinn umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Man að einhver kallaði mig þjóðernisíhaldsmann á háskólaárunum. Ég var á móti aðild vegna þess að mér fannst að þá myndi Ísland ekki ráða sér sjálft. Var undir áhrifum tveggja Jónasa, annars frá Hrauni hins frá Hriflu. Sá síðarnefndi ritaði Íslandssögu fyrir börn, sem svei mér þá virðist enn ráða söguskoðun þorra Íslendinga. Síðar komst ég á þá skoðun að aðild að Evrópusambandinu væri óumflýjanleg og er nú löngu búinn að sætta mig við tilhugsunina. Afstaða mín byggir ekki á neinni aðdáun á þessu fyrirtæki og hún byggir heldur ekki á neinni Brusselglýju, þó ég hafi búið þar einn góðan vetur hér um árið. Afstaða mín hefur sennilega mest mótast af örlítið meiri lestri Íslandssögu.

Þó sagnfræði Jónasar frá Hriflu sé skemmtileg, einkum fyrir únga dreingi og rómantísk þjoðernishyggja Fjölnismanna menningarlegur hornsteinn eru þetta slakir pólitískir manúelar. Íslendingar hafa alltaf verið undir ægishjálmi stórvelda og verða það áfram meðan hér er eftir einhverju að slægjast. Og viðskipti við útlönd hafa alltaf ráðið auðnu þessa lands. Ég sá því Evrópusambandsaðild ritaða á vegginn fyrir löngu. Viðskiptin myndu reynast rómantíkinni sterkari og við því væri hreint ekkert að segja. Og enginn er eyland, ekki einu sinni Ísland. Smám saman sætti ég mig við þessa hugsun svo að þegar ég var beðinn um að skrifa undir sammála.is var því fljótsvarað. Samningaviðræður, svo þjóðaratkvæði: Sammála.

Nú er stundin er komin. Fyrr og verr en nokkurn gat grunað. Í raun er ekkert val, Ísland þarf að leita skjóls. Það er ekki einu sinni val um að vera ósammála, nema bara í nefinu. Þetta er að renna upp fyrir fólki. Tillaga Sjálfstæðisflokksins að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn verði beðinn um að láta leyfa okkur að nota evru!! segir allt sem segja þarf um valkostina. Okkur stendur ekki einu sinni til boða að taka upp rúblu. Teningunum er kastað. Við reyndar misstum þá úr höndunum, en verðum að hlíta kasti engu að síður.

Engin ummæli: