11. október 2009

Að sleppa til að halda

Dag nokkurn í fyrra haust lá Range Rover á hvolfi á miðri götunni okkar. Út úr flakinu dró löggan strákinn í næsta húsi, ósáran en alveg útúrspíttaðan. Bíllinn karlsins á horninu hafði sýnilega orðið á vegi hans og karlfautinn lét dæluna ganga með svívirðingum yfir skelkaða nágranna mína, foreldra ökumannsins, sem komnir voru á vettvang. Eftir þetta er lífið í götunni ekki eins og áður.

Það stingur mig í hjartað að minnast þeirra stunda að maður hallaði sér yfir í garðvegginn í spjalli við stolta foreldra, sem töluðu um fátt annað en afrek sonarins. Sögðu stolt frá uppeldi sem byggðist á að banna aldrei, eða letja, enda tíðrætt um sína eigin bældu æsku. Og viti menn, stráksi blómastaði í viðskiptum frá ungum aldri, algerlega óbældur. Og þess gætti sannarlega í öllum umsvifum fjólskyldunnar. En þennan dag var hann afhjúpaður. Þetta stráktrippi var þá bara kengdópað spíttfrík í jakkafötum. Viðskiptaveldi hans ekkert nema skýjaborgir, sukk og skuldir. Skuldir sem foreldranir sitja uppi með og skuldir sem viðskiptavinum hans um allar jarðir eru tapað fé.

Því er ég að rifja þetta upp nú að ég heyrði ég það fyrir skemmstu frá frænda mínum, sem þekkir náið til fjölskyldunnar, að þaðan sé fátt góðra frétta. Útistöður við karlinn á horninu vegna bílviðgerðarinnar hafa heltekið fólkið, og það virðist hafa fengið verkstæðisreikninginn á heilann. Stórfjölskyldan er komin í hár saman og hver höndin upp á móti annarri. Einn vill fara í mál, af því að karlinn á að hafa lagt bílum viltlaust, en annar hefur fundið bónda norður á Stöndum sem getur tekið drossíuna bæði í viðgerð og klössun fyrir nánast ekki neitt. Allir keppast um að segjast vilja borga minna en hinir. Svo rífst þetta fólk og þráttar innbyrðis fram og til baka án niðurstöðu. Samt er þessi krossbölvaði viðgerðarreikningur ekki nema lítill hluti af öllu peningatapi þessa fólks. Það segist vilja standa í lappirnar með því að standa upp í hárinu á karlinum, en hugsar ekkert um að standa í lappirnar gagnvart sjálfu sér.

Sonurinn hefur enn ekki verið látinn svara fyrir eitt eða neitt neitt. Einnhver mun hafa pínt þau til að panta tíma hjá fjölskylduráðgjafa, sem leiddi þau rakleitt í sæla afneitun þangað til. Nú hefur tímanum verið frestað fram í febrúar. Fráleitt að taka eitthvað á sig áður en maður veit hvaða skít þessi ráðgjafi ætlar kasta, hafði einn sagt við frænda minn. Þau barma sér endalaust yfir örlögum sínum og fjölskyldunnar, en minnast ekki einu orði á neinn hinna sem tapað hefur fé og æru fyrir tilstilli sonarins.

Hér er um tvennt að ræða segir frændi. Annað hvort er þetta séræktað fjölskyldulægt siðleysi eða það er skömmin og sektarkenndin sem fær fólkið til að líta undan og loka augunum svo þau sjái ekki í eigin barm. Það forðast allir aðalatriðið. Allir hafa tapað fjársjóðum sínum, líka þeir sem allan tímann voru á móti þessum umsvifum. Þeir töpuðu sakleysi sínu þegar hinir töpuðu peningunum sínum. Saman segist þetta fólk vera að verja efnahaglegt sjálfstæði fjölskyldunnar og stolt sitt, en sér ekki að með hegðun sinni fyrirgerir það sjálfstæði sínu og svívirðir heiðurinn. Það rís ekki undir verkefninu og ferst í storminum. Enginn vill láta neitt af hendi og því missa allir allt.

5. október 2009

Villtar álftir

Sú dæmisaga sem mér verður oftast hugsað til var sögð af Þorsteini Gylfasyni í einhverri alþýðubóka hans. Hún fjallar um siðleysingja. Mann sem lagði á sig að ganga ofan úr Háskóla niður á pósthús til að kaupa frímerki á eitt prívatbréf, frekar en að leggja það með vinnupóstinum. Þessi maður sá, eftir því sem Þorsteinn sagði, ekki mörkin milli siðlegrar og ósiðlegrar notkunar almannafjár, en hélt að það væri ráðvendni að ganga sem lengst. Mun grimmara dæmi skilst mér megi finna í bókinni Villtir Svanir, þar sem pótintáti í kínverska Kommúnistaflokknum lætur þungaða konu sína hlaupa langferðalag á eftir bílnum sínum. Hann vildi ekki að misnota eigur Flokksins og alþýðunnar.


Það eru nýjir tímar og nýtt Ísland. Nú eru komnir þingmenn sem standa við sannfæringu sína fremur en selja atkvæði sín fyrir embætti og bitlinga. Og þessi háttur mun breiðast út og varpa oki gömlu spillingarinnar af herðum þjóðarinnar. Ferðalagið er hafið. Þjóðin fylgir á eftir.


Einhverjir munu þó hafa séð að bílinn ekur í hringi. Og að þjóðin er tekin að mæðast.