1. janúar 2009

Ávörp, skaup og íslensk tunga

Frábært áramótaskaup. Andrúmsloftið er svo afkáralegt að skaupið er besti fréttaskýringaþáttur ársins. Innhaldslaus malandi stjórnmálamanna, þversagnir og ósannsögli komust vel til skila. Þjóðin ringluð og reið. Helvítis fokking fokk og ævintýri eru að gerst samtímis.

Áramótaávörpin voru ömurleg eins og allir vissu fyrir. Lamaðar afsakanir heyrðust muldraðar án þess að nánar væri tilgreint hvað átt væri við. Svo kom hjal um réttlæti, mikilvægar rannsóknir og lærdóma. Nákvæmlega eins og áður, orð á skjön við gerðir sem róa engan en rugla alla. Reyndar var ekki annað að skilja á forsetanum en að hann viðurkenndi að í mótmælunum fælist vilji þjóðarinnar og krafa um breytingu á sjálfu kerfinu. Vantraust á núverandi pólitík. Hann nefndi í lokin óljósa hugmynd um nýjan þjóðarsáttmála sem yrði borinn undir atkvæði. En þetta eru bara enn fleiri orð út í tómið. Forsetinn gengur bara lengra en pólitíkusarnir í orðum. Skákar í því skjóli að hafa ekki vald til framkvæmda. Engar vísbendingar eru um að neinar viðhróflanir eða breytingar sem skipta máli muni eiga sér stað. Yfirlýsing forseta dregst því í sama dilk og ruglandi stjórnmálamannanna.

Yfirbragð og orðfæri áramótaávarpa var með algerlega hefðbundnu sniði. Þessi talandi er dauður. Hafði aldrei svosem mikið gildi, en eftir hrunið er hátíðlegt yfirborðssnakk skreytt með ljóðatilvitnunum ekki bara absúrd heldur móðgandi í þokkabót.

Nýjir tímar krefjast nýs máls, mannamáls. Klisjan um land, þjóð og tungu sem er fastagestur áramótaávarpanna á kannski eftir að rætast skilvíslegar og fyrrenmargurbjóstvið.

Engin ummæli: