17. febrúar 2011

Ég

Ég átti leið um Eiðistorg í fyrra. Þá voru þar þrír strákar með tombólu. Á leiðinni út varð ég vitni að þessu: Gömul hjón komu paufandi arm í arm og stöldruðu brosandi við hjá strákunum. "Jæja strákar, svo þið eruð með tombólu" sagði karlinn ansi glaðbeittur. "Eru þið að styrkja eitthvert málefni?" Strákurinn í miðjunni horfði upp á kallinn og svarði "Já". ....."Og hvaða málefni?" Nú litu hinir peyjarnir niður á tærnar á sér. "Mig" svaraði strákurinn.


Ólafur Ragnar Grímson forseti var í Silfri Egils á sunnudaginn var. Það er glæsilegur maður, Ólafur. Ég þekki útlenskan mann sem hitti Ólaf Ragnar í heldur hversdagslegri móttöku á Bessastöðum og heillaðist meira af forsetanum en nokkru öðru á þessu landi náttúruundranna. Ótrúlegt að örþjóð eigi slíkan mann, sagði þessi skynugi og víðföli vinur minn hvað eftir annað. Þó gat hann ekki hafa séð þann Ólaf, sem mest af öllum ber, stríðsmannin sem lætur engan eiga neitt inni hjá sér og lifir allt af. Kemur eins og köttur niður á fæturna, þegar vaxið er lekið af vængjunum í hita sólarinnar. Og eins og góður bardagamaður kemur Ólafur sífellt á óvart og finnur vígstöðu sem enginn annar sá. Nú situr hann á krossgötum í stjórnkerfi landsins, sem áður voru ekki til og ákveður einn síns liðs örlög laga sem Alþingi setur. Enginn veit hvað hann gerir næst.


Samt skyggir hjúpur dapurleikans á þessa glæsilegu persónu. Segir nokkur maður oftar "ég" en Ólafur Ragnar forseti og hví þarf hann sífellt að halda á lofti eigin orðspori? Minna á gervileik sinn, menntun og mannkosti. Og hvers vegna kemur alltaf upp hjá honum þessi saga um hann hafi farið um allan heim eða allt land "að undanförnu" og talað við fjölda manna, í höll og hreysi? Hvaða leynivinir Ólafs eru þetta? "Minn herra á aungvan vin" segir Facebookvinur minn og hittir naglan á höfuðið. Hvar sem afburðamaðurinn Ólafur Ragnar kemur og hvað sem hann gerir þá fer hann vinalus á næsta stað. Fyrir hvaða málstað hefur þessi mikli stríðsmaður barist, að eiga ekki eina einustu taug í öllum þeim fjölda sem kynnst hafa honum, í skóla, í stjórnmálum, í stafi? Maður hefur talað við ófáa þeirra. Málstaðurinn er "Ég".


Norðmenn áttu annan Ólaf, Ólaf konung, föður Haraldar sem nú situr. Þennan kóng elskuðu þeir heitar en aðra menn og áttu af honum mynd í hjarta sínu. Þessi mynd er reyndar til sem raunveruleg ljósmynd. Kong Olav på trikken. Hann situr í sporvagninum við hlið óþekktarar konu klæddur fábrotnum skíðagalla með stafina hjá sér og sýnir verðinum miðann sinn. Það eru ólíkir þjóðhöfðingjar þeir nafnar og það eru ólíkar þjóðir sem hvor hampar sínum Ólafi.


Ég tilheyri þjóð Ólafs Ragnars. Nú hafa tugir þúsunda þjóðarinnar ákallað Ólaf í þeirri bæn að hann stöðvi gildistöku nýrra Iscevelaga. Við eigum ekki að borga fyrir misheppnað peningabrall einkafyrirtækis er sagt. Samt hefur enginn þessarra mótmælenda fundið neitt því til foráttu að almenningur borgi upp í topp íslenskum viðskiptavinum Landsbakans, sem sumir voru blekktir og sumir blindaðir af græðgi. Nei, málið er að við eigum ekki að borga fyrir svik okkar manna gagnvart útlendingum, þó við bætum að sjálfsögðu svik sömu manna gagnvart okkar fólki upp í topp. Málstaðurinn er "Ég".


Iscesvae var svikamilla. Tombóla bíræfinna stráka sem ekki hiku að taka við peningum venjulegs fólk og góðgerðafyrirtækja til eigin brúks og vissu að þeir gætu ekki staðið við sín orð. Þeir söfnuðu peningum frá gömlu fólki fyrir málstaðinn "Ég". Um það er aldrei rætt á Íslandi hvaða afleiðingar svona framferði eigi að hafa. Nú safna Íslendingar undirskriftum fyrir sama málstað, "Ég", "Við Íslendingar". Ólíklegustu menn koma í bljúgri bæn til Bessastaða knúðir af hinum mikla málstað. Þessu til undirbúnings kom Ólafur Ragnar fram í sjónvarpinu. Vinalaus spinnur forsetinn að vana vef eigin mannkosta og málar með orðum myndir af mikilfenglegri þjóð, sem stundar viðskipti eins og þeir bestu í heiminum og býr að sterkari lýðræðishefð en nokkir aðrir. Mér líður illa að horfa á þetta.


Þetta er ekki það Ísland sem ég vil búa í. Þetta er ekki sú landsýn sem ég vil hafa á hverjum morgni þegar sólarljósið lyftir fjallakollunum upp úr rökkrinu og maður vaknar senn til starfa sinna. Þjóð sem gerir það að lífskalli sínu að afneita kröfum án þess að íhuga málið frá annari hlið en eign buddu og fyllist í raun stolti yfir bíræfnum strákum sem svíkja fé af saklausum vegfarendum hefur sjálf dæmt sig til útlegðar í eigin landi, eigin glæpanýlendu.

Ekkert efnahagshrun gerir landið jafn óbyggilegt og siðferði Ég-málstaðarins getur gert.