4. nóvember 2008

Biðin er verri en allt sem bíður okkar

Biðin er verri en banvænn sjúkdómur. Erfiðastu stundirnar í læknastarfinu eru þegar mikilvæg sjúkdómgreining dregst á langinn. Þetta gerist öðru hvoru hvernig sem á er haldið. Grunsamleg breyting finnst við rannsóknir en sýnataka mistekst þrátt fyrir endurteknar tilraunir. Biðin eftir úrskurðinum frestast endurtekið og fólk bókstaflega tætist í sundur af óvissu. Ég hef séð sterkt og vel gert fólk verða fullkomlega örvinglað í máttleysi sínu. Maður farið að óttast að það gripi til skelfilegra örþrifaráða. Svo þegar niðurstaðan kemur, því miður oft slæm, segir fólk iðulega eitthvað á þá leið að vissulega hefði það vonast eftir betri féttum, en mestu skipti að biðin væri á enda. Nú gæti það byrjað að takast á við vandamálið. Tengja sig við tímann, halda áfram. Biðin er verri en banvænn sjúkdómur.

Nú hefur þessi auðnulausa þjóð, Íslendingar, beðið sex vikur eftir að heyra hvað í raun bíður hennar. Hvaða leið henni er ætlað að feta og með hvaða byrðar. Fyrr en hún veit það, veit hún ekki hvað hefur gerst. Biðin tætir fólk sundur. Ákall um samstöðu er marklaust. Samstöðu um hvað? Hama sig eins og hross í hríðarbyl?

Ríkisstjórnin upplýsir ekki þjóðina um það sem hún á rétt á að vita. Alþingi þrumir ráðalaust, valdalaust. Forystumaðurinn víkur sér inn í þögnia með þægindalygum frá degi til dags. Svona á að gera þetta verst og vitlausast.

Læknir sem eitthvað kann segir sjúklingi sínum allt sem hann veit og getur staðfest strax og hann fær það staðfest. Það er vissulega vandmeðfarið hvað maður segir áður en staðfestingin liggur fyrir, en aldrei þegja þunnu hljóði. Aldrei víkjast undan því að upplýsa alla þá sem eiga á því heimtingu. Og aldrei, aldrei skrökva sér til þæginda.

Reiðin blossaði upp í gær vegna frétta um milljarða afskriftir bankanna á skuldum eigin gæðinga. Frétt sem kviknaði eins og gróusaga í tölvupósti en neyddi svo bankana til játninga í dag. Stjórnmálaflokkarnir skilja eflaust ekki að það er ekkert eins og það var. Allt getur gerst. Lengri þögn og fleiri blekkingar og það sýður upp úr.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Er þetta þá ekki með ráðum gert. Láta menn kveljast og pínast í óvissu dágóða stund. Þegar úrskurðurinn loksins kemur verða allir fegnir sama hversu slæmur hann verður.
kv. Bjöggi