Ég vaknaði snemma í morgun með ungum börnum. Áttafréttirnar tíðindalitlar og meðan börnin sátu stillt yfir sjónvarpinu notaði ég tíman til að skrifa blogg um ríkisstjórn sem er fallin, hvað sem þingstyrk liði. Hún nyti ekki lengur nokkurs trausts, væri framkvæmdavald sem ekkert gæti framkvæmt. Svo birti af degi og okkur langaði út í garð og pistilinn beið. Eftir góða stund í garðvinnu átti granni minn leið úr húsi og vinkaði til mín. Hann sagði mér frá afsögn viðskiptaráðherra. En það var fyrst eftir aukafréttatímann í hádeginu að ég áttaði mig á hvílík stórtíðindi hér væru á ferð.
Sá ráðherra sem þarna talaði virtist allt annar maður en sá sem áður kom fram undir þessu nafni í sama líkama. Þessi stjórnmálamaður sagði hluti sem aldrei hafa áður heyrst í íslenskri pólitík. Björgvin G. Sigurðsson sagði sunnudagsmorguninn 25. janúar að hann segði af sér m.a. því hann bæri sinn skerf af pólitískri ábyrgð á illu ástandi landsins. Til samanburðar talar Geir H. Haarde þessa dagana um pólitíska ábyrgð sem felst í því að hann og ríkisstjórnin megi ekki segja af sér. Björgvin sagði að ríkisstjórninni hefði mistekist að afla sér trausts meðal þjóðarinnar og því gæti hún ekki komið nauðsynlegustu verkum í kring. Hann segði því af sér, m.a. til þess að rýma fyrir öðrum. Til samanburðar sögðu bæði Össur og Þorgerður Katrín hvor í sínu lagi þetta: Ef ríkisstjórnin hefur gert mistök, þá felast þau í því að hafa ekki gumað nægjanlega af afrekum sínum.
Byltingin heldur áfram að birtast í nýjum og nýjum myndum. Nú síðast í þessu ávarpi viðskiptaráðherra, sem markar tímamót í stjórnmálasögunni. Björgvin segir af sér, ekki eins og Framsóknarmaður með hnífasett í bakinu, heldur barinn burt af slætti pottasettanna. Þá allt í einu fer hann að tala mannamál. Skilur hvað er pólitísk ábyrgð. Skilur hvað leiðtogi er. Kannski hann hafi skilið að gamla tungumálið hans er dautt og merkingarlaust. Og það er hugsanlegt nú hafi stjórnmálamaður fattað, að grátbeiðni fólks um upplýsingar er vegna þess að tungumál stjórnmálanna er því óskiljanlegt babl. Um leið og íslenski bankababelsturninn hrundi, í byrjun október 2008, hættu landsmanna að skilja undarlegt tungumál stjórnmálamannanna, skilja nú bara mannamál.
Viðbrögð almennings við afsögn viðskiptaráðherra virtust á einn veg. Þetta þótti rétt. Ýmsir pólitískir bloggarar og stjórnmálamenn eins og Steingrímur Sigfússon, létu sér hins vegar fátt um finnast. Sáu í þessu einhver persónuleg sniðugheit eða fannst þetta lítið og seint. Seint kom það, það er rétt. Og lengi má velta sér uppúr sálarfriði, iðrun og siðbót persónunnar Björgvins G. Sigurðssonar, en frétt dagins snérist ekki um það. Hún snýst um nýja hugsun, nýtt tungumál sem allt í einu heyrðist.
Það segir sína sögu að þeir sem eru innvígðir í íslensk stjórnmál skilji ekki aðal tíðindi dagsins. Þau voru á útlensku.
25. janúar 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli