11. janúar 2009

Hættu. Þetta er vonlaust.

Heilbrigðisráðherra er eins og Roy Roggers í lagi Halla og Ladda. Birtist skyndilega sætur og klár með fyrstu sparnaðartillögurnar í ár. Hafnarfirði er skotið til Keflavíkur, Hornafirði til Selfoss, Sauðárkróki til Akureyrar og Patreksfirði til Skutulsfjarðar. Blaðamannafundi ráðherrans á Hilton hótelinu er hleypt upp af hafnfirsku skurðstofufólki í grænum sloppum með höfuðskýlur. Vantaði bara maska til að hylja með andlitið og hnífa til að berjast með. Það verður næst, lá í loftinu. Viðbrögð almennings eru með sama bragði. Hafnfirðingar púa á ráðherrann á borgarafundi. "Við erum þúsund, þú ert einn. Þú verður drepinn ungi sveinn". Hringinn í kring um landið, alls staðar sömu viðtökurnar hjá þolendum aðgerðanna. Ráðherranum er kastað út úr búllunni í stórum boga.

Þrátt fyrir annálaða ættrækni Sjálfstæðisflokksins gleymdi ráðherrann að hafa mikilvægustu ætt landsins með í ráðum, Heimamannaættina. Þessu var bara slengt framan í Hafnfirðinga, Hornfirðinga, Sauðkrækinga, Barðstrendinga og alla hina. En hengjum ekki heilbrigðisráðherra fyrir forsætisráðherra. Svona eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í öllum málum. Enginn veit fyrr en allt í einu. Talar og hagar sér eins og einhver karakter hjá Ladda.


En þrátt fyrir öll lætin hafa sparnaðartillögur heilbrigðisráðuneytisins samt varla litið dagsins ljós ennþá. Nýju heilbrigðislandafræðinni er ekki ætlað að spara nema fimmtunginn af því sem ráðuneytinu var sett fyrir. En þar sem ráðherrann magalendir nú í forinni fyrir utan búlluna getur hann hætt að telja. Þetta er vonlaust. Næstu tillögum verður mætt af enn meiri hörku, enn meiri reiði. Það verður vonlaust verk að spara áætlaða upphæð í heilbrigðiskerfinu án ófriðar. Svo eru það félagsmálin og menntamálin líka.


Þjóðin er reið og hún treystir ekki ríkisstjórninni. Hvernig ætti nokkur svo sem að treysta henni? Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti fyrir kosningar að efnahagsstjórnin væri stærsta velferðarmálið. Í ljósi reynslunnar af þessari rómuðu efnahagsstjórn er stærsta velferðarmálið að koma flokknum frá völdum. Til að bæta gráu ofaná svart hefur ríkisstjórn ekki einu sinni sýnt vilja til að bæta ráð sitt og ná til baka einhverju trausti, en góð byrjun hefi verið að hætta að segja ósatt og opinbera almenningi aðgerðaráætlun sína.

Ríkisstjórninni er ógerlegt að framkvæma það sem hún ætlar sér og hefur lofað lánveitendum sínum. Öll þjóðin er orðin að mótmælendum. Hún kemur ekki öll saman á Austurvöll á hverjum laugardegi, en hún mótmælir hverjum aðgerðum stjórnarinnar sem á henni brenna. Það ríkir engin sátt um erfiðan niðurskurð. Þessi ríkisstjórn verður að hætta. Þetta er vonlaust.

2 ummæli:

Elísabet sagði...

fínn pistill!

á borgarafundi í kvöld komu fram afskaplega alvarlegar ákúrur, af hálfu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings, á stjórnsýsluhætti í boði hæstvirts heilbrigðisráðherra. vona að vitræn umræða skapist um það mál.

ærir sagði...

í heilbrigðiskerfinu ÞARF? að spara 7 milljarða á sama tíma og greiða á (bara) í vexti kr. 14 milljarða af jöklabréfum sem sem fjárfestar sem bröskuðu með íslensku krónuna eiga. Sýnir hvar áhersuatriði stjórnvalda hafa legið. vernda skal þá sem eiga peninga og láta aðra blæða (nú í orðsins fyllstu merkingu).
ra