16. júní 2009

Þjóðhátíð 2009

Oft hef ég séð undrunarsvipinn á útlendingum þegar maður svarar þeim um fólksfjölda á Íslandi. Þeim finnst fáheyrt að sjálfstæð þjóð getir verið svo fámenn. Og víst er það fáheyrt, en aðstæður hér eru líka einstakar. Fólk hefur lifað á þessari eyju lengur en ellefu aldir, sami ættstofn, sama menning. Afrek að hjara allan þennan tíma við harðindi, hamfarir, farsóttir og heimsku. Svo skánaði þetta eitthvað, veðrið batnaði og ilmur af nýrri heimsmenningu barst til landsins, þökk sé hinni sönnu móður þessa lands um allar aldir, hafinu og íbúum þess. Hin nýja veröld tækninnar ruddi á Íslandi nýja vegi, nýja atvinnuvegi. Og hin nýja veröld lýðræðis, frelsis og jafnræðis gaf þeirri hugmynd vængi að fólk það sem byggði þessa eyju væri sérstök þjóð, sem verðuskuldaði að vera fullvalda þjóð. En ekki eru allar þjóðir sjálfstæðar og fullvalda, jafnvel þótt stærri séu, margfalt stærri. En hér hefur þessi þjóð búið, í þessari veiðistöð, þar sem enginn skyldi trúa að nokkur kynni að búa, eins og Norðmenn segja. Og eins og fjölskylda sem byggt hefur sama bæinn mann fram af manni eiga Íslendingar landið. Þetta er þeirra land og þeirra veiðislóð og þeir sem hér fæðast eða hingað flytjast eignast hlut í þessu landi um leið og þeir verða hluti af þessari skrítnu þjóð. En þetta er eins og alltaf bæði debet og kredit, eign og skuld í senn. Landsýn Steins Steinarrs hefur mér alltaf fundist eina skynsamlega ættjarðarljóðið: "Sjá hér er minn staður, mín þjáning mín þrá/mitt þróttleysi og viðnám í senn".


En hvernig getur slík örþjóð staðið sjálfstæð, spyrja útlendingar. Ég veit það ekki, en spyr mig af hverju þjóðin lagði ofurkapp á fullkomið sjálfstæði. Við lærðum í barnaskóla miklar sögur af arðráni og verslunránauð nýlenduþjóðarinnar, engum er treystandi til að tryggja afkomu fólksins eða nytja auðlindirnar öðrum en Íslendingum sjálfum, lærðum við. Rökin í sjálfstæðisbaráttunni voru efnahgsleg, hvað sem allri fjalladýrðinni og ylhýrri íslensku leið. Fjórtán ára gamall tók ég þátt í 50 mílna þorskastríðinu. Gekk eldheitur til baráttunar með stríðsöskrum með heimatilbúið kröfuspjald, sem í sjónvarpsfréttum kvöldsins sást hverfa inn um brotinn glugga breska sendiráðsins. Óskoruð yfirráð Íslendinga yfir íslenskum auðlindum, takk fyrir. Þetta var fyrir 34 árum, þá voru 31 ár frá lýðveldisstofnun. Þrjátíu ár frá stríðslokum.


Í dag er 17. júní 2009. Sjáið okkar stað, okkar þjáningu, okkar þrá! Drottinn minn dýri, hvað höfum við gert? Verðskuldar þjóð sjálfstæði sem leyfir örfáum mönnum að vaða yfir allt og alla með bókhaldsránum, yfirgangi og firringu.? Þjóð sem lætur það gott heita að auðlindunum sé úthlutað til örfárra. Þjóð sem leyfir spekúlöntum að veðsetja alla sína sjóði svo þeir geti þjónað sínum hégómadyntum.

Ég veit ekki hvernig örþjóðin fer að því að standa sjálfstæð meðal þjóða. Þrjúhundruð þúsund manns sem standa undir sjálfstæðu, nútíma ríki. En hitt veit ég, að þessi þjóð hefur gengið hreint til verks við að svívirða öll helstu rök eigin sjálfstæðis. Og nú þegar haldin er þjóðhátíð í skugga nauðarsamnings við Breta getur ekkert breytt biturri staðreynd. Hversu ósvífnir sem viðsemjendurnir hafa verið, hversu óhönduglega sem við höfum tekið á málinu á öllum stigum, hverjum lagalegum vafa samningurinn kann að vera orpinn, hversu auðsveipin og aum íslensk stjórnvöld eru í þessu máli, fær ekkert breytt þeirri biturri staðreynd að ánauð okkar kemur nú ekki að utan, hún er okkar.

Við höfum séð nóg af þróttleysi okkar, nú reynir á viðnámið. Viðnámi okkar hvers og eins, þjóðarinnar sjálfrar gegn þeim persónulega, sem augljóslega finnst þeir hafa einskis að iðrast og ætla engu að breyta og viðnámi gegn hugarfarinu sem að baki býr.

1 ummæli:

HT sagði...

Þetta er svo satt að það er sárt!