1. febrúar 2009

Fagna ég mjöll sem fellur

Fátt veður slær út fagra vetrardaga. Birtan er svo sterk að heilabörkurinn exponerast og fixerast eins og svarthvít filma. Svona voru vetur bernskunnar finnst manni. Snjókoma kveikir líka hjá mér sérstaklega sterka tilfinningu og stundum örlitla desjavú-angan. Þegar þessi snjór féll, sem nú liggur yfir Reykjavík kviknuðu skyndilega í huga mér myndir frá góðri gönguferð á Ulriken um páskana í fyrra. Í Bergen bindur maður á sig skó eða skíði heima og er á öræfum eftir tuttugu mínútur.

Fyrir mörgum árum, á göngu minni um Norðurmýrina eitt sunnudagskvöld, byrjaði allt í einu að snjóa af sérstökum ákafa. Þungar, stórar flyksur féllu til jarðar í blanka logni og fyrr er varði var allt orðið alhvítt af snjó. Fegurð stundarinnar leiddi göngu mína fram á nótt og það var ógerlegt annað en að yrkja. Stemmningin kallaði á fornan hátt.

Fagna ég mjöll sem fellur
fögur á nætur stræti.
Þagnar þjóð í logni
þreytu er svefnins leitar.
Óspjölluð mjöllin að morgni
marin er fótum offari.

2 ummæli:

ærir sagði...

það er afrek að muna eigin ljóð
kv
ra

J. Valsson sagði...

Glæsilegt!
Gaman að sjá hvað kemur út úr bílskúrnum