30. desember 2008

Að vera eða vera ekki x-D

Eftirmæli Benedikts Jóhannessonar um íslensku krónuna í Fréttablaðinu vöktu athygli. Benedikt hefur getið sér gott orð fyrir skarpskyggni og heiðarleika. Svo hefur hann húmor sem hentar vel minningargreinum. Hann hæðist að þeim sem sögðu bestu kosti krónunnar að geta lækkað laun alþýðunnar með gengisfalli. Hann hæðist að Davíð Oddsyni. Og hann hæðist að efnhagsstjórn síðustu áratuga, efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins.

Hvar stendur Benedikt þessi í pólitík? Er hann einhver Samfylkingargosi? Nei, hann er Sjálfstæðismaður í húð og hár. Það þarf ekki gráðu í neftóbaksvísindum til að vita það. Þeim frændum Birni, Bjarna og Benedikt var vitjað nafns af Sjálfstæðisflokknum. Þegar Benedikt óskar sér í lokin að Íslendingar láti krónuna róa gerir hann það eins og sannur Sjálfstæðismaður. Óskar þess að landsfundur Flokksins álykti um málið. Æðsta pólitíska samkunda landsins. Auðvitað er Benedikt Sjálfstæðismaður í blíðu og stríðu og skiptir engu þó hann sé ósammála pólitík Sjálfstæðisflokksins. Í góðum stjórnmálaflokki lætur maður ekki pólitík koma upp á milli manna.

Er fylgispektin við Sjálfstæðisflokkinn genetísk, x-DNA? Nei, fjöldi manna á, eða heldur sig eiga, veraldargengi sitt að þakka hlutdeild í þeim góða hópi sem innvígðir Sjálfstæðismenn eru. Fyrir hvern einn sem beinlínis er settur í sæti vegna flokkstengsla, og þeir eru margir, eru örugglega tíu sem út um allt í samfélaginu eru valdir fram yfir aðra vegna þessa gæðastimpils. Þar á meðal hinir fáu skarpskyggnu og heiðarlegu.

Þið munið ekki trúa þessu, en spillingin á Íslandi er vegna óeðlilegra tengsla stjórnmála við svokallaða stjórnmálaflokka.

17. desember 2008

Trojuhestar mótmælanna

Það er rót á fólki um þessar mundir og fróðlegt að sjá marga troða marvaðann og leita nýrrar hafnar. Mér sýnist því miður ferskleikinn, sem fylgdi skipbrotinu fara þverrandi. Fyrst voru allir í sjónum og maður hélt að sú líkn leggðist með þraut, að gömlu fylkingarnar liðu undir lok. Öll ósöpin væru jafnvel til vinnandi ef sú yrði raunin. Nú eru fylkingar aftur að verða til. Fólk sem hefur ekkert fram að færa annað en sitt beyglaða sjálfsmat. Það eru margir nýþvegnir fyrirferðamiklir. Fólk sem nær athyglinni með upphrópunum gegn einhverri syndugri fylkingu, en voru þar jafnvel innstu koppar í búri áður. Fólk sem fékk ekki sitt eða er á flótta undan kjölsoginu.

Við þurfum nýtt fólk. Venjulegt fólk með heilbrigða sjálfsmynd, sem gerir það hæft til að vinna að hagsmunum heildarinnar. Venjulegt fólk með eðilegt siðferði vinnur venjulegu fólki eins og þér og mér og öllum hinum gagn. Verum á varðbergi gagnvart þeim sem nota sér mótmælaölduna til að komast í sigurlið sem það telur eða snúa við taflinu. Bara fólk í liði með sjálfu sér og samvisku sinni er í þínu liði.

11. desember 2008

Ný tækni við meðferð lungaþembu


Loftventlar í lungum geta samkvæmt nýjum tilraunum bætt líf fólks með lungaþembu. Þetta eru einstefnuventlar, sem komið er fyrir í berkjum efstu lungnablaðanna of valda því að loft berst auðveldar til annarra og yfirleitt minna skemmdra hluta lungnanna. Áhrifunum svipar til lungnasmækkunaraðgerða, sem vitað er að gera gagn í völdum hópi sjúklinga. Gallinn er að lungnasmækkunaraðgerðir eru mjög erfiðar, kosta 20-30% sjúklinganna talsverð vandamál og dánartíðni er um 8% innan þriggja mánaða. Ísetning ventlanna er hins vegar einföld og án mikilla aukaverkana. Þá má líka fjarlægja aftur. Nýlegar rannsóknir (1,2), sýna mikinn árangur ventlameðferðarinnar á heilsutengd lífsgæði, þ.e. það dró úr óæskilegum áhrifum sjúkdómsins. Einkenni sjúkdómsins, s.s. mæði, urðu vægari og færni batnaði. Öndunarmæling var hins vegar óbreytt og ekki marktækur bati á gönguprófum. Meðferðin stóð aðeins völdum hópi lungaþembusjúklinga til boða, þeim sem höfðu yfirgnæfandi þan á efri lungnablöðum, en sömu skilmerki voru notuð og áður þegar áhrif lungasmækkunaraðgerða voru rannsökuð.
Ný tækni, einstefnuventlar, er því lofandi meðferðarmöguleiki hjá völdum hópi sjúklinga með lungaþembu. Áhrif á einkenni og færni eru mikil og aðgerðin er áhættulítil og einföld.

10. desember 2008

Einelti, ekki vondar kökur

Allir eru á móti ríkisstjórninni. Þjóðin treystir Mjólkursamsölunni margfalt betur segir ný könnun. Bráðum kemur einhver fram og segir að ríkisstjórnin sé lögð í einelti. Davíð er lagður í einelti sagði Styrmir. Þetta er alltaf sagt þegar óvinsældir stjórnmálamanna stíga til himins. Sagðist ekki Finnur Ingólfsson hafa hætt í pólitík þegar hann sá hversu illa var komið fram við Halldór Ásgrímsson.

Auðvitað er svona eindregið vantraust sjaldnast fyllilega réttlátt út frá hlutlægu mati á orðum og gerðum, það er litað af stemmningunni. En stemmningin verkar í báðar áttir. Eins og allt er merkilegt sem viðurkenndur spekingur segir, er allt vitlaust sem viðurkenndur auli segir. Sagt með öðrum orðum, skiptir ekki máli hvað þú leggur þig fram njótir þú ekki trausts. Í pólitík er fáránlegt að kenna öðrum um að traustið vanti. Það er eins og bakarinn brigsli kúnnunum um einelti, kvarti þeir yfir kökunum.

Halldór, bakarasveinn Sjálfstæðisflokksins, bætti ekki baksturinn þrátt fyrir oj, uss og fuss. Kjósendur Framsóknar reyndust hins vegar ekki hafa bragðlauka Sjálfstæðismanna. Að lokum lognaðist stjórnmálamaðurinn Halldór út af og flokkurinn heldur varla höfði. Samfylking Ingibjargar Sólrúnar bakar nú eftir sömu uppskrift. Bakar og bakar þrátt fyrir oj, uss og fuss. Fyrr verður kvartað yfir einelti en baksturinn batni.

8. desember 2008

Stoppum vélræðið!

Sigrún Davíðsdóttir flytur oft frábæra pistla í Glugganum á Gufunni eftir kvöldfréttirnar. Nýlega bar hún saman Ísland og Ítalíu, íslenska og ítalska pólitík.

Clientelismo eða skjólstæðingaveldi einkennir bæði löndin. (http://es.wikipedia.org/wiki/Clientelismo_pol%C3%ADtico). Þetta mun vera kallað pólitísk vél, political machine, í anglósaxneska heiminum. Hagsmuna og hyglunartengsl er límið í svona stjórnmálum. Völdin eru pýramídaformuð og efst situr patróninn, faðirinn eða guðfaðirinn. Skjólstæðingarnir, cliento, eiga líf sitt undir að standa í skjóli enhvers sem tilheyrir valdastéttinni eins og barbarar á dögum Rómaveldis. Þeim sem tilheyra pýramídanum er hyglað með aðgangi að gögnum og gæðum gegn hlýðni og stuðningi við kerfið. Óinnvígðum er meinaður aðgangur og bolað burt. Þeim er refsað gerist þeir of ásælnir. Þar sem pólitískir fulltrúar þurfa atkvæði kjósenda til að komast til valda höfðar kerfið gjarnan til hagsmuna tiltekins hóps sem myndar hryggjaststykkið í kjósendahópnum. Hagsmunir og samsömun með Flokknum ráða, ekki málefni. Áhrif í fjölmiðlum og öflugur spuni er líka nauðsynlegur, enda þolir vélin sjálf ekki dagsljósið.

Svona kerfi hrekur burtu heiðarlegt fólk. Þeir sem ekki eru í Flokknum eru annars flokks, í tvölfaldri merkinu. Svona kerfi er lífseigt, Berlusconi kom til baka þrátt fyrir allt. Og jafnvel þó einhverjar persónur verði hraktar út sætum sínum lifir kerfið. Það er nóg um arftaka og vélin gegur smurt.

Ísland hefur búið við slíkt vélræði sem hér er lýst, bæði á svið stjórnmála og viðskipta. Leikurinn gekk reyndar of langt og grundvöllurinn brast. Bankarnir hrundu. Pólitíski pýramídinn berst líka fyrir lífi sínu, en enginn skyldi vanmeta lífseiglu vélræðisins. Samdauna þjóð þolir mikil vélráð áður en hún brýst út úr gíslingunni.

Við hrópum á kosningar. Umræðan hitnar um gjaldmiðil, Evrópusambandið og mann sem heitir Davíð Oddsson og er alls staðar og alltaf. Þetta er allt skiljanlegt og rétt, en það er samt mikilvægast að fjalla um vélina sjálfa. Vélina sem fengið hefur að níðast á landi og þjóð með pólitískum og peningavöldum.

Hver sem afstaða fólks er til Evrópusambands, einstaklingsfrelsis, velferðarkerfis eða annarra pólitískra mála þá ætti krafa alls heiðarlegs fólks að vera þessi: stoppum vélræðið! Þetta er gert með því að opna fyrir dagsljósið og styrkja lýðræðið. Þessu má byrja að breyta strax. Afnemum skaðlega bankaleynd. Uppboð á eignum banka, ekki pukurdílar. Upplýsum skúmaskotin. Tölum svo um stóru málin eins og stjórnskipun og lýðræði. Lýðræði þarf ljós. Við viljum blóm, ekki meiri sveppi.

Hver getur gripið þennan fána og gert baráttuna gegn skjólstæðingaveldinu, vélræðinu að þeirri hreyfingu sem við þörfumst?