30. desember 2010
Íslenska svarið
Tuttugasta öldin á Íslandi hófst með því að landið tengdist umheiminum með símastreng. Hann var umsvifalaust notaður til að lýsa yfir sjálfstæði, "Í þennan síma talar sjálfstætt fólk í eigin landi". Þetta hefur síðan verið viðkvæði Íslendinga hvort sem þeir tala í síma, míkrafón eða talstöð og reynst svo haldgott að fá dæmi eru þess að jafn fámennur hópur hafi náð að beygja stórveldi heimsins með einþykkju sinni, amk fá dæmi utan Asterix bókanna. Bandaríska heimsveldið þurfti að hlýða dyntum hinna sjálfstæðu Íslendinga í slíkar öfgar, að einn þeirra heimsfrægasti utanríkisráðherra, Henry Kissinger, getur loks sofnað svefninum langa í friði eftir að hafa lýst því yfir í ævisögu sinni, að Íslendingar væru heimtufrekasta og þvermóðsufyllsta þjóð í heimi. Og á hinn bóginn, austur í Kreml, þurfti Alþjóðasamband kommúnusta, Komintern, að samþykkja undanþágu frá sínu helgasta boðorði handa Íslendingum. Íslenskir kommar máttu vera þjóðernissinnar dauðans í félagsskap, sem snerist um hið gagnstæða, alþjóðahyggju. Þetta fékkst með því að svara ekki öðru í síma, en að hér byggi sjálfstæð þjóð í eigin landi. Og menn minnast þess auðvitað hvernig nýlega fór fyrir breska sjónvarpsspyrilinum sem ætlaði að grilla hortugan dvergþjóðarforseta, þegar símsvarinn fór í gang. Meiri jöfrar en hann hafa gefist upp fyrir íslenska svarinu.
Í útlöndum er maður iðulega spurður hvernig svo fámennur ættbálkur geti starfsrækt sjálfstætt þjóðríki og maður svarar vitaskuld að á Íslandi búi sjálfstæð þjóð í eigin landi. Það var fyrst fyrir tveimur árum að ég byrjaði að skilja spurninguna, sem nú orðið leitar á mig eins og hvern annan útlending. Þetta er eins og að hafa smitast af óværu. Eitt er fólksfæðin á Íslandi, en hitt er mér meira undrunarefni að þjóð, sem maður skyldi ætla að þyrfti á öllu sínu að halda til að mynda starfshæft ríki, skuli geta hent frá sér talentum og peningum í botnlausa sérhygli, nebútisma og klíkumenningu, en þó státað að slíkri velmegun. Svo til öll opinber embætti eru skipuð prímó rétta einstaklingnum, sekúndó hæfasta einstaklingum. Og prívatgeirinn er varla neitt skárri, þar sem forstjórar stórfyrirtæjanna halda heilsu sinni og stafi með löngum göngutúrum í Heiðmörk, saman í hóp.
Svarið við þessari þraut er að Íslendingar hafa aldrei verið sjálfstæð þjóð í eigin landi. Vita ekkert hvað það er að vera sjálfstæði þjóð, fyrr en kannski bráðum. Sjálfstæð þjóð getur ekki hagað sér eins og við höfum gert, frekar en sjálfstæður einstaklingur getur hagað sér eins og heimtufrekur unglingur. Það er ekki þar með sagt að Íslendingar séu lélegri þjóð en aðrir, en nú fyrst reynir á okkur að svo mörgu leyti. Það er ekki bankahrunið sem ég er að tala um, heldur sá paradísarmissir sem varð þegar kalda stríðinu lauk. Íslendingar stukku fram sem sjálfstæð þjóð í skjóli anglósaxneska heimsveldisins, fyrst Breta svo Kana. Heimsstyrjöldin færði okkur nútímann og peninga og svo tók Kalda Stríðið við með stórveldi á báðar hendur sem vildu hygla okkur. Þegar kalda stríðinu lauk misstum við undramáttinn. Hvað skyldu Kanarnir hafa sagt við pirraðan og ómögulegan íslenskan Oddsson með heimsmynd Björns Bjarnasonar í höfðinu? Ætli þeir hafi haft húmor til að benda honum á Evrópusambandið?
Raunveruleiki tuttugustu aldarinnar er horfinn og nú eru Íslendingar loks sjálfstæð þjóð í eigin landi og vita ekki sitt rjúkandi ráð.
9. desember 2010
Bólu-Hjálmar analýserar Icesavemálið
Þess er getið eitt sumar, að Gamli bóndi reri til fiskjar innan af Eyjafirði norður á svokölluð Ólafsfjarðarmið. Hann var við sjötta mann..........sáu þeir í Djúpunum hvar hollensk dugga var að fiski. Gamli mælti við menn sína: "Vér skulum finna fiksiskip þetta og fá okkur í skálinni gott vín..".....Þeir Gamli festu skip sitt við dugguna og gengu upp. Hollendingar fögnuðu þeim vel sem þeim var títt. Voru þeir 10 eða 12 að tölu. Gamli litast nú víða um á skipinu og sér þar margskyns gæði. Kemur honum til hugar að hertaka skipið og flytja inn á Eyjafjörð. Veit hann að það er óheilagt undir danska krónu hér við land. Ræðir hann þetta við menn sína hljóðlega og verða þeir allir á það sáttir. Síðan tekur hann þá hollensku og færir í bönd utan stýrimanninn einn lét hann lausan og setjast að stjórn......Stýrði sá útlenski þó nauðugur væri, en Gamli og menn hans settust að drykkju og héldu sér veizlu góða af efnum skipsmanna. ........
...Gekk nú ferðin harðlega inn á Eyjafjörð, en er kom inn í Bakka-ála sáu þeir Gamli hvar tvær duggur hollenzkar komu eftri þeim á mestu hraðsiglingu og höfðu uppi alla toppa......Hann mælti við sína menn að þeir skildu allir 5 verja annað borð skipsins....en kvaðst sjálfur annað borðið verja meðan kostur væri. Þeir aðkomnu spurðu Gamla, hvort hann vildi ekki gefa upp skipið og leysa þá bundnu heldur en leggja sig og sína menn í hættur og sæta síðan afarkostum. Gamli kvað það engan kost að óreyndu, og dugi nú hver sem má og falli heldur með drengskap, ef falla skal......Stóð bardaginn lengi dags. En svo kom um síðir, að upp var gengið á það borðið er hásetar Gamla vörðu, og urðu þeir handteknir og bundnir. Voru þá fljótt og leystir allir þeir hollensku og gengu þeir í lið með löndum sínum. Var nú sótt að Gamla með liðsfjölda öllu megin....Var hann nú handtekinn og síðan bundinn. Var hann móður mjög en lítt meiddur, en flestir þeir er á fundinum voru, sættu meiðslum og skaða. og mælt er að tveir menn af Hollendingum hafi bana hlotið.
Nú var um rætt, hvert starff Gamli skyldi þola fyrir tiltæki sitt og var það úrskurður eftir fornum skipalögum að hann skyldi dragast þrisvar undir kjölu og síðan frígefast, ef hann af lifði, en það var fárra sem engra af að lifa. Var nú straffi þessu fullnægt, og kom Gamli upp með lífi í þriðja sinn. Var hann þá þrekaður mjög, og er mælt að hann hafi þá beðið að höggva af sér höfuðið sem snarast. Þeim Hollendingum þóttu mjög firn í vera, hvað sá maður afbar og ekki minna um hans hugprýði og hetjulega vörn. Var hann nú með öllu laus gefinn og menn hans, og síðan var hann sæmdur virðulegum gjöfum af öllum skipum fyrir hetjuskap sinn og stórmannlegt tiltæki. Sór hann þeim eið, að hann skyldi aldrei glettast við Hollendinga framar......Varð saga þessi víðfræg, jafnvel erlendis, og þótti flestum sem enn byggi norðmannasál í víkingshjarta á Íslandi.
10. nóvember 2010
Játningar uppgjafa þorskahermanns
Um það leyti sem ég varð stúdent var ég enn logandi þjóðernissinni og hefði sennilega skráð mig í átthagafræði, hefði sú grein verið kennd í Háskóla Íslands. Reyndar fannst mér næstum öll fög koma til greina, nema viðskipta- og rekstrarfög sakir andleysis og lítilmótleika. Og ég man eftir að hafa staðið í háværum orðaskiptum á þessum árum við menn sem hneygðust í átt að Evrópubandalaginu. Ekkert var fjarri mér og Ísland í Evrópubandalaginu. Fórna fullveldinu!
Áhugi á Íslandssögu fylgdi mér og ég hélt áfram að glugga í bækur og rit til að viðhalda þjóðrækninni. Það reyndist mér dýrkeypt. Sem sagt kemur það á daginn, ef þokkalega óbrjáluð sagnfræði er lesin, að farsæld Íslands í gegn um aldirnar, bæði efnahagsleg og menningarleg, byggir ævinlega á samskiptum við útlönd. Einangrun er vesöld og vesöld er einangrun. Viðskipi eru velsæld og velsæld eru viðskipti. Ég þurfti að beygja mig fyrir þessari niðurstöðu og það var ekki auðvelt. Fór í gegnum sorgarferli, eins og það er orðað nú. Ekki ósvipað, en þó talsvert þyngra og það var fyrir mig, gamlan Hagmeling, að sjá íslensku glímuna lúta í lægra haldi fyrir austurlensku náttsloppatogi og vindhöggahoppum.
Afstaða mín til umsóknar um aðild að Evrópusambandinu er lituð þeirri angurværð að hafa lagt upp sem harður andstæðingur, en orðið að sættast við að hafa lifað í blekkingu um dýrð hins sjálfstæða og óháða undralands í úthafi og hafa haldið, að það sem eitt sinn var hægt yrði alltaf hægt, jafnvel í heimi örustu breytinga.
Það er margt sagt um viðræðurnar við Evrópusambandið þessa dagana. Málflutningurinn á móti þeim verður æðisgengnari með hverjum deginum, eins og gerist þegar fólk finnur tímann renna sér úr greipum. Það sýnir þá innstu sannfæringu mótmælendanna, að þeir hafi þegar látið í minni pokann.
Ég ber viðingu fyrir þeirri afstöðu að vera á móti Evrópusambandsþátttöku, þó mér finnist baráttan gegn því að þjóðin fái að greiða atkvæði um samning bæði lágkúrleg, heimskuleg og vond. En sem eindreginn fylgismaður viðræðnanna og ekki ólíklegur fylgismaður samingsins, fyllist ég engu að síður dálítilli sorg yfir þeirri sameinginlegu vissu minni og andstæðinganna að Íslendingar segi Já innan skamms. Ég hefði kosið að svara spurningunni við betri aðstæður. Þegar allt kemur til alls, eins og málum er nú háttað á Íslandi, er innganga í ESB og tenging við evru hreinlega eini augljósi, skiljanlegi og gerlegi kosturinn í stöðunni. En ég segi hins vegar eins og svo margur annar, þetta hrun er bara ekki mér að kenna.
6. september 2010
Að skilja Andskotann, þó seint sé
En nú hefur þjóðkirkjan, seint og um síðir og eftir dæmalusum krókaleiðum loksins skýrt fyrir mér hvað þessi biflíusaga um freistingar andskotans merkir.
Ólafur Skúlason kemur við þessa sögu, eins og vænta má. Hann varði sig af mikilli einurð í sjónvarpsviðtölum í febrúar 1996, eftir að nokkrar konur höfðu opinberlega sagt frá hrikalegri reynslu sinni af honum mörgum árum fyrr. Í viðtali við hann spurður hvort hann gæti haldið áfram sem biskup með þessar ávirðingar á bakinu. Þá svaraði hann með annari spurningu eftir stutta umhugsun. Get ég haldið áfram að vera manneskja? Svo vék hann skyndilega að þessari sögu af Jésu og andskotanum. Þetta var furðulegt að sjá og heyra. Af hverju fór herra Ólafur að tala um freistinguna í varnarræðu sinni? Ef það var freisting í þessu máli, þá var hún hans og það féll vægast sagt illa að málsvörninni annars. Svo leyfði hann sér að binda þá slaufu á sögu sína af Jesú, Satan og sjálfum sér, að hann segði "farðu burt" við gagnrýnendur sína. Undir niðri bjó auðvitað sú hræsni sem er jafngömul kristnum söfnuði, að bendla óvini sína við Myrkrahöfðingjann. En í þessum orðum bjó einnig hyldýpi aldagamallar kvenfyrirlitningar. Konur eru verkfæri Andskotans, þær freista karlanna. Biskupinn yfir var Íslandi talaði sem sagt kinnroðalaust um freistinguna og djöfulinn um leið og þessi alþekkti áreytismaður sór að ekki væri flugufótur fyrir frásögnum kvennanna. Ekki flugufótur. Nú hefur jú verið upplýst að Ólafur beitti ekki aðeins aðvífandi konur ofbeldisfullri áreytni heldur var hann einn þeirra manna sem níðast á eigin börnum. Svo lengi sem orðin lygi og hræsni hafa nokkra merkingu í tungumálinu getur þetta dæmi af biskupi Íslands lifað.
Andskotinn freistaði Krists ekki með smáskitlegri augnablikssvölun, heldur með völdum. Það er vegna þess að sú freisting að taka sér völd, sem manni ekki ber er móðir allra freistinga. En þar liggur líka líka munurinn á auvirðulegum, hversdaglegum freistingum og hinum djöfullegu freistingum. Hvaða vald einn maður má hafa yfir öðrum manni snertir kjarnann í mannlegu samfélagi. Sá sem ekki virðir mannhelgi samfélagsins fyrirgerir eigin helgi og jafnvel mennsku sinni. Og allir eru yfir annan settir, einhvern tímann og á einhvern hátt og verða að getað sett helgi annars lífs ofar eigin hvötum og löngunum. Annars fórna þeir mennsku sinni og hafa selt Andskotanum sálu sína.
Svo hefði maður haldið að ekki væri sá sæmdarljómi yfir sögu hins brokkgengna biskups, að eftirmaður hans þurfi að hika svo augljóslega og gamall kompanjón úr valdstéttinni að gelta svo ákaflega, þegar þjóðin bregst við á afar skiljanlegan hátt.
21. júní 2010
Veiðiferð í afdölum
Á leiðinni í veiði urðu þau stórtíðindi að Hæstiréttur felldi dóm um lögleysu gegnistryggðra lána, svo veiðimennirnir töluðu um fátt annað þegar þeir hittust en veiðilega staði og fræga fiska. Eftir þriggja daga tal um fiska og flugur og fræga veiði áræddi ég að stynja upp úr eins manns hljóði í málhvíld veiðimannanna einhverju um hvað hann væri rosaleg tíðindi þessi dómur. Vissum við nokkuð hvað þetta þýddi? Þögn. Svo mælti einn "Hvernig hefði dómurinn fallið áður en bankarnir hrundu?" Svo var urriði aftur kominn á dagskrá.
Nekt íslansvitleysunnar verður sífellt napurri. Sagt er að "tugir, ef ekki hundruð" lögfræðinga hafi skoðað lánveitingar bankanna án þess að finna þeim nokkuð til vansa. Því verr gefast þeirra ráð sem fleiri koma saman gæti maður sagt. Hæstarétti reyndist ekki erfitt að kveða upp dóminn, það þurfti ekki annað en að lesa lögin. Málatilbúningur bakanna var útúrsnúningur. Ekki bara að vörn þeirra væri útúrsnúningur, það eru varnir í vonum málum sennilega alltaf, heldur var sjálf gerðin frá upphafi útúrsnúningur úr lögum, sem nokkuð afdráttarlaust banna gengistryggingu lána og "tugir ef ekki hundruð" lögfræðinga gátu ómögulega séð neitt galt við. Ekki á þeim tíma. En einhver sagði í útvarpinu sér til afökunar að menn yrðu að skilja að á þessum tíma hefði "ríkt hér ákveðið ástand". Svo það var ekki nema von að veiðmanninum hryllti að sögn við að svara eigin spurningu.
10. júní 2010
Falleg jurt á sér fagra rót
Ekki kaus ég Besta, kemur væntanlega ekki á óvart, en mér var þó orðið rórra þegar ég nokkru fyrir kosningar gerði mér grein fyrir að Besti flokkurinn væri bjórlíki. Hér birtist þessi dásamlega aðferð Íslendinga við að rísa upp og mótmæla með því að leggjast niður. Við leggjumst niður til að mótmæla, kveljum okkur sjálf og niðurlægjum. Flykkjumst á nýopnaðar knæpur og hellum okkur full af kláravíni í pilsner. Þjóð á ímyndunarfylleríi þar sem ímyndunin er bjór en raunverueikinn þetta íslenska kláravín sem henni er skammtað. Nú er ímyndunin almennileg stjórnmál en raunveruleikinn íslensk stjórnmál hrein og ómenguð í boði grínistanna. Okkur er boðið að drekka spillinguna, blekkingarnar, sýndarmennskuna, hugsjónaleysið eins og kláravín út í það þunna öl sem hin formlegu stjórnmál eru.
Menn nefna meðferð. Alþingi sé í ruglinu og þurfi að fara í meðferð segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Og ég tek ofan fyrir henni mína lúnu húfu. Stjórnmál sem orðin eru viðskila við fólkið eru engin stjórnmál heldur hið þveröfuga, þau stuðla að niðurrifi samfélagsins. Pólitíska hrunið, sem nú blasir við er eðlileg og reyndar æskileg afleiðing kerfishruns Íslands. Kannski dreymdi einhverja að þeir slyppu en hinir myndu hrynja, en svo einföld er hvorki verkfræðin né lífið. Stjórnmál eru kerfi þar sem eitt tekur mið af öðru. Fíflabyltingin sýnir með satírunni hvernig hægt er að afhjúpa stjórnmálin með því að stilla saman orðum og gerðum hlið við hlið. Eins og reyndar hægt er að afhjúpa alla sem ganga á lagið að fá fólk til að halda að þeir séu, frekar en að vera. Það er gömul saga og ný.
Mikilvægasta spurningin nú er þrátt fyrir allt ekki sú margtuggða, hver bar ábyrgð, heldur hver getur getur vísað veginn. Það verður ekki gert með því einu að segjast vera öðruvísi, heldur með því að vera öðruvísi, en geta samt vísað veginn. Sá sem er tilbúinn að vera meiri en hann sýnist getur það.
23. maí 2010
Fíflabyltingin
Fíflið góða og vinsæla fann sem sagt upp á því einn daginn að skopstæla kónginn. Háðið var beitt og hitti svo vel í mark að múgurinn trylltist af fögunuði. Sætast þótti að sjá kónginn sitja reiðan og niðurlægðan undir narri fíflins án þess að mega rönd við reisa. Svo hrópaði einhver: "Fíflið fyrir konung, fíflið fyrir konung......." og brátt tóku allir undir, "fíflið fyrir konung...". Fíflið espasðist upp og gekk lengra og lengra í narri sínu að þykjast vera kóngurinn sjálfur. Og honum steig svo til höfuðs að fólkið hyllti hann, að á endanum rann hann sjálfur inn í eigið narr og varð þess fullviss að hann væri kóngurinn. En í þessu nýja hlutverki kunni fíflið auðvitað ekkert nema leika skopstælingu, frekar en endranær. Fíflakóngurinn varð skopstæling paródíunnar, plús fenginn úr tveimur mínusum. Það sem í vídeóinu hafði verið barn varð fatlað barn í raunveruleikanum. Það sem í vídeóinu hafði verið koss varð ástarjátning í raunveruleikanum, "mamma er eins og þú". Fíflið trúði því að meira gaman, meira grín væri stjórnmálskoðun. Aðferð sem leysi probblemm, öll probblemm.
Þegar döpur hjörtu fólksins fundu bylgjuna rísa, sem kallaði fíflið til konungstignar fannst þeim að þau gætu kastað syndum sínum á bak við sig með því að lyfta fíflinu í hásætið. Þau gætu bætt fyrir þátttöku sína í öllu bullinu með því að niðurlægja kónginn með fíflinu. Samt voru þau bara að gera það sama og alltaf, hrífast með þeim sem bauð ábyrgðarlaust líf. Nú vilja þau grína á daginn og grilla á kvöldin.
10. maí 2010
Draumur og ráðning
Nú hef ég fengið þennan draum ráðinn af afar draumspökum manni. Honum fannst einsýnt að þetta boðaði enga hagræðingu í stjórnarráðinu og stórfelldan niðurskurð opinberrar þjónustu án vitrænnar forgangsröðunar.
20. apríl 2010
Stjórnmál á krossgötum
Hér hafa því þau tíðindi orðið, að annars vegar er útilokað að Samfylking verði með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn í fyrirsjáanlegri framtíð og hins vegar víkur Ingibjörg Sólrún, fyrrum formaður, úr vegi fyrir breyttri stefnu Samfylkingarinnar. Kom enda þegar í kjölfarið dánartilkynning Blairisma Samfylkingarinnar, undirrituð af Jóhönnu. Munið að það var jú bara fyrir nokkrum vikum, að samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks virtist hraðbyri nálgast vegna meltingartruflana í villta vinstri rískisstjórnarinnar, en hver vill mynda stjórn með Sjálfstæðismönnum núna, rétt upp hönd.
Játning Ingibjargar Sólrúnar afhjúpar þversögn í Samfylkingunni. Ef hún var stofnuð til að verða andstæða Sjálfstæðisflokksins, þá átti hún sér um leið fyrirmynd í sama flokki, sem hagsmunabandalag um að koma félagshyggjufólki til valda. Þannig er Samfylkingin er að sínu leyti birtingarmynd yfirburða Sjálfstæðisflokksins í íslensku samfélagi, þar sem aðrir stjórnmálaflokkar eru skilgreindir út frá afstöðunni til þessa risaflokks.
Nú hrinur þessi gamli Sjálfstæðisflokkur hefur Ingibjörg Sólrún líklega gert sér grein fyrir og við tekur sögulegt uppgjör, sem á íslenskan mælikvarða verður sambærilegt við uppgjör sósíalistanna við Sovét á sínum tíma. Sennilegast verður línan dregin við valdatöku Davíðs og talað um uppgjör við Davíðstímann, með réttu eða röngu, eins og hann sjálfur segir um það sem honum er eignað í pólitík. En um leið og risinn fellur þurfa allir sem miðað hafa sig við hann á nýju sjálfi að halda og lærdómur Samfylkingarinnar, sem fólst í játningu Ingibjargar Sólrúnar, er að sá sem ætlar að umbylta kerfinu verður að standa utan við það. Nú kemur í ljós hvort Samfylkingin hafi í raun og veru viljað umbylta kerfinu, því ef svo er tekur hún, eða það stjórnmálaafl sem af henni leiðir, forystuna í íslenskum stjórnmálum. Ef ekki, verður reist stytta af Ólafi Thors á Austurvelli og vinstrið jórtrar sínar tuggur áfram án þess að trufla athafnaskáldin.
13. apríl 2010
Gilitrutt
Margir óttuðust fyrir fram að skýrslan yrði langhundur á lagamáli, barinn saman af varnöglum og gæfi tækifæri til endalausra hártogana og túlkana. En í ljós kom vandlega unnin skýrsla og vel skrifuð vegna þess að hún er vel hugsuð. Höfundar skýrslunnar hafa skilið mikilvægi þess að hafa sprokið í lagi. Þegar vaðið er yfir mann á skítugum skónum segir maður ekki við delikventinn, að margt bendi til þess að skórnir hans séu ekki tillhlýðilega hreinir né sólarnir nægjanlegja mjúkir. Þetta hefur nefndin skilið, skilið að skyldur hennar voru gagnvart fólkinu, ekki kerfinu. Grundvallaratriðið núna er að umræðunni verði ekki stjórnað frá valdahreiðrum stjórnmála og viðskipta heldur taki almennir borgarar frumkvæðið, heiðarlegt fólk sem vill bæta samfélagið. Grundvallaratriði er að ráðast á ógnina, rjúfa bannhelgi orðanna og nefna hlutina sínu réttu nöfnum. Keisarinn er nakinn segir í skýrslunni.
Fyrsta skerfið er samt inn á við, eins og alltaf. Við verðum að vera heiðarleg gagnvart okkur sjálfum og eigin ábyrgð, en þar með talin er nefnilega ábyrgð fylgispektar og auðtrúar. Hvort er mikilvægara að verja þína menn, þinn flokk, þitt stolt eða hreinsa út ógeðið í samfélaginu? ("Ógeðslegt" sagði Styrmir í skýrslunni, af öllum mönnum en má reyndar gerst þekkja undirheima hvítflibbanna) Og hvort er mikilvægara að þóknast þeim sem borgar þér eða standa með samfélaginu sem þú ert hluti af? Fyrst þegar þessum spurningum hefur verið svarað rétt gerist það sem allt venjulegt fólk þráir, að gerendur hrunsins sæti réttlátri ábyrgð og að nýjir siðir verði teknir upp. Og þetta er hvorki flókið né fjarlægt þegar allt kemur til alls. Ef við öll í sameiningu höfnum því gamla: fólkinu, vinnubrögðunum og viðhorfunum sem lýst er greinilega í skýrslunni, þá hrynur gamla kerfið á skömmum tíma og nýtt tekur við. Auðvitað ekki himnaríki, heldur annað mannleg kerfi, en eitthvað venjulegra og heilbrigðara en þetta ógeðslega.
Svo til upprifjunar í lokin, þá gerðist það í fyrndinni að húsmóðir ein ung að árum sem gifst hafði á bæ undir Eyjafjöllum reyndist bæði duglaus og dáðlaus þegar til átti að taka. Hún samdi svo við ófrýnilega kerlingu sem birtist á bænum um að vinna alla tóvinnu vetrarins fyrir sig og hafði engar áhyggjur af því að þurfa vinna sér það til lífs að þekkja nafn hennar um vorið. En þegar örlagastundin nálgaðist tók hún að örvænta, en var svo heppin að eiga bónda sem hafði séð og heyrt Gilitrutt í gegn um glufu á kletti, þar sem skessan sat við vefstólinn og hlakkaði yfir ráðaleysi húsmóður. Hann skrifaði nafnið á miða og þessi miði bjargaði húsmóður á þeirri stundu, að hún var við það að drepast úr hræðslu frammi fyrir skessu, sem hvorki hét Signý né Ása heldur Gilitrutt. Það þurfti ekki lengri skýrslu. En niðurlag sögunnar er það sem gefur vonina, því eftir þessa atburði breyttist húsmóðir algerlega og varð bæði iðin og stjórnsöm, segir sagan.
16. mars 2010
Opið bréf til hugsjónamanna
Sjáið nú þetta, fyrir tilstilli stjórnmálmanna sem sumir smyrja og sumir sleikja klípuna á skottinu nær þessi bölvun, Icesave, að magnast upp í slíkt hugarvíl að forsetinn, þingmenn og seinast ráðherra gera hróp að Norðurlöndunum. Evrópusambandið er útmálað kúgunarskrifstofa stórveldanna og dregin sú ályktun af öllu saman að reka beri AGS úr landi. Við hrekjum frá okkur vini, við lokum á sennilegar lausnir á deilumáli okkar og við beinlínis heimtum að standa ein. Frekar alein í heiminum, en að samþykkja Icesave kúgunina.
14. mars 2010
Sparkað í dekkin á druslunni
En í dag birtist skyndilega persóna, sem margir er fylgjast grannt með Hruneyjassögu bjuggust við fyrir löngu. Hún gengur undir nafinu Alex Jurshevski, innheimtusérfræðingur hjá Recovery Patners. Með fangamarkið bróderaða í skyrtumansjetturnar, flaumósa amerískan talanda og sjálfstraust andskotans birtist hann í Silfri Egils og lítur út eins og Jón Gnarr. Það er ekki að spyrja að yndi höfundar á svörtum húmor. Jurshevski kom beint að efninu, meiri lántaka er Íslandi dauðadómur. Koss dauðans, Júdasarkoss. Nei, fylgið mér sagði skuldheimtumaðurinn. Ég þekki svona vandamál og tilbúinn til að leiðbeina ykkur. Ný lán fara bara beint í vasa einhverra jöklabréfahafa. Ekki borga. Segið bara að þeir hafi frosið fastir, þetta eru jú jöklabréf. Svo skuluð þið skera niður og spara og hugsa um það eitt að borga góðar skuldir. Þá koma fjárfestarnir með nýja peninga sagði Jurshevski, ameríski skuldheimtumaðurinn með Gnarrlúkkið.
En þetta hefur áður verið sagt í sögunni okkar, eins og minnugum kann að ráma í. Höfundurinn vill greinilega koma þessu til skila. Peningar hafa ekki minni. Peningar hafa enga samvisku. Það skiptir engu máli hvernig öðrum hefur vegnað í viðskiptum við mann sem þú treystir þér til að græða á. Peningar streyma um heiminn blóðugir, þvegnir eða heiðarlega svitastorknir án þess að fjárfestar fáist hið minnsta um lyktina af þeim og skuldheimtumenn ennþá síður. Það er bara til ein spurning í heiminum, er díllinn góður?
Og þarna var hann kominn maðurinn sem segir það sem allir vilja heyra. Þið þurfið engin lán. Yrðum við ekki útskúfuð þjóð með peninga fólks í jökulfrosti óbyggðanna og Ísland eitt allsherjar icesave? Nei, þvert á móti, sagði skuldheimtumaðurinn, ef þið ætlið að slá enn meiri lán til að gera upp gamlar skuldir verðiði útskúfuð af fjáfestum. Þá hverfur Jurshevski á braut og sést aldrei aftur. Hryllileg tilhugsun. Hann væri reiðubúinn til að leggja ríkinu lið og fjárfesta. I´m kicking the tires of this thing, sagði hann og átti við Ísland. Hann væri hingað kominn til að sparka í dekkinn á druslunni sagði hann. Er að pæla í að kaupa, ef honum hugnast díllinn.
Þarna var hann þá loksins kominn í eigin söguperónu, hinn ómissandi Nosferatu, Skrattinn sjálfur. En það má Andskotinn þó eiga, að hann kemur alltaf upp um sig, ef glöggt er hlustað. Kaldhæðni hrunsögunnar er hins vegar að láta þjóðernissinnaða hugsjónamenn í baráttu gegn heimskapítalsimanum ryðja hingað brautina fjárfestum með breið glott og fangamark á manséttunum.
3. mars 2010
Ó, þér fábjánafjöld
Sumarið 2008 festi ég kaup á nýlegum lúxuséppa, sem einhver þjösni hafði haft á kaupleigu í 1 eða 2 ár. Verðið var hagstætt, en krafðist þó bílaláns fyrir rúmlega hálfu verði bílsins. Myntköfulán varð ofaná, jafnvel þó mér yrði hugsað til Rauðhettu litlu með körfuna sína þegar bílsalinn var að vísa mér fjármögnunarveginn. Svo ók ég heim og bakkaði upp í innkeyrsluna, enda bílinn útbúinn bakkmyndavél. Bráðnauðsynlegur útbúnaður fyrir mann sem er brenndur af því að hafa straujað hliðina á kyrrstæðum Ford Cortina með afurendanum á blæju-rússajeppa í blindri hríð árið 1983. Með því að bakka upp í innkeyrsluna yrði ég líka fljótari að keyra út. Það reyndist vel hugsað, því eiginkonan sendi mig snarlega til baka að skila bílnum. Ég átti sem sagt að kaupa bíl fyrir peninga sem við áttum. Bílinn mátti svo sem vera japanskur, en ekki peningarnir sem ég borgaði hann með. Þegar ég kom til baka á bílasöluna leið mér eins og fábjána. Það stafaði einfaldlega af því að ég var fábjáni. Samt var mér vel tekið og hughresstist nokkuð við það að heyra að ég væri ekki fyrsti fábjáninn á ferli hins unga sölumanns.
Nú hef ég fengið boð um að koma til kosninga næsta laugardag sem gerir það að verkum að mér líður nú aftur eins og fábjána. Það er mér þó kannski hughreysting að vera ekki eini fábjáninn. Og það eru gott betur en 5% þjóðarinnar á kjörskrá.
28. febrúar 2010
Hruneyjarsaga heldur áfram og spennan orðin óbærileg
Sagan er orðin æsispennandi og nálagast hvörf, fresturinn er örstuttur. Fram hefur komið að hin ótrúlega þjóðaratkvæðagreisla veldur meiri titringi í Evrópu en flesta óraði fyrir. Financial Times segir í leiðara að hún kunni að setja bankakerfið í uppnám þar eð ríkisábyrgðir verði ekki lengur jafn sjálfgefnar og þá hlýtur breska ríkistjórnin að eiga skilið sinn skerf af skömminni fyrir að málum sé nú svo komið. Sennilega eru þetta þau óvæntu tíðindi utan úr geimnum sem fjallað var um í síðasta pistli. Taktík okkar virðist vera að bíða róleg eftir að viðsemjendur teygi sig lengra og lengra til að forðast atkvæðagreiðsluna á Íslandi. En auðvitað er þetta Hvor er pútan? eða chicken race, eins og annar hefur bent á. Náist ekki samningar og atkvæðagreiðsla verður haldin eru afleiðingarnar varla skárri fyrir okkur en hina keppendurna í þeim leik.
Þess vegna er það spurningin nú hvort íslenskir stjórnmálamenn séu í raun að semja sín á milli. Er meirihluti fyrir því að semja um Icesave og halda áfram samkvæmt þeirri hagfræðiáætlun sem í orði er fylgt eða er í raun ekki vilji til þess? Hvað þarf að gerast í íslenskri pólitík til að samningasinnar nái saman? Ríkisstjórnin hefur formlega játað vanmátt sinn í þessu máli og lifi hún áfram bíða hennar bara fleiri mál að játa vanmátt sinn gagnvart, enda í raun lifandi dauð minnihlutastjórn. Þess vegna snýst Iscesavemálið ekki um Icesave nema að litlu leyti. Það snýst um fjárlög næstu ára, hugmyndafræði stjórnvalda, samskipti við aðrar þjóðir og ónýtan gjaldmiðil. ESB eða ekki ESB. Þetta eru hinar raunverulegu milljón punda spurningar sem svara verður fyrir næstu helgi.
Fylgist vel með næsta þætti í hinni óborganlegu Hruneyjansögu.
26. febrúar 2010
Þáttaskil í Icesave á morgun, eða hinn
Samkvæmt ónafngreindum heimildarmanni hefur fjörleg umræða um Iscesave á samsiptavef lífhnatta, svokallaðri Spacebook, leitt til þess að áður óformgerðir orkusveipir hafa líkamnast og mun von á sendinefnd líkamninga úr geimnum til jarðar nú um helgina. Fyrir henni fara í sameiningu þeir Egill Skallagrímsson og Eiríkur blóðöxi. Áætlað er að þeir komi fram í Silfri Egils á sunnudag og miðli af reynslu sinni af úrlausn flókinna deilumála. Viðtalið verður svo endursýnt með íslenskum texta í dagsrárlok. Þá munu þeir félagar koma fram á málstofu í Háskólanum í Reykjavík og skýra nánar frá samningatækni sem þeir hafa þróað og byggir á jákvæðri hugsun, orkuhliðrun og þindaröndun. Er yfirskrift erindisins "Öfundsverðar langtímahorfur[broskall]". Talið er að eftir þetta muni Icesavemáið steinliggja.
31. janúar 2010
Íslenskir sigrar
Og hver er svo lykillinn að þessari metamorfósu Ólafs Ragnars Grímssonar. Jú, nákvæmlega það sem vinur minn setti í samhengi, hann er afburðamaður frá dvergríki. Það skiptir engu hversu liðugt president Grimsson krítar í útskýringum á íslenskri pólitík við erlenda fréttarýna, hvatki er missagt er af hans hálfu verður aldrei leiðrétt. Það er ekki fjallað um íslenska pólitík í heimspressunni á hverjum degi. Og fyrirfram veit auðvitað enginn í heiminum neitt um íslensk stjórnmál frá Hriflu-Jónasi til okkar daga, svo Grimsson getur sagt hvað sem er þess vegna. Menn vita ekki einu sinni hvað forseti Íslands er, svo president Grimson getur hæglega látið sem hann sé pólitískur leiðtogi þessa lands. Ekki miklar líkur á að það verði leiðrétt að einhverjum, sem kynni að eigna sér þann sess frekar. Þannig er þessi baráttumaður lýðræðisins í heiminum nánast valdaránsmaður heima hjá sér, þegar hann fer um lönd og rekur sinn prívatpólitíska áróður þvert á ríkisstjórn, sem þó á að heita studd af meirihluta íslenskra þingmanna. Raunar má segja í ljósi atburðarásarinnar, að hann fari um í umboði stjórnarandstöðunnar. Ólafur Ragnar Grímsson fer um heiminn í umboði Sjálfstæðisflokksins og boðar uppreisn alþýðunnar gegn kapítalismanum. Afburðamaður er varla ofmælt.
Hvað er hér á seyði? Jú, Ólafur Ragnar hóf sinn ferill sem íslenskur forseti. Slíkir eru taldir tákngervingar, fyrst og fremst. Eiga, hygg ég, að gera það helst að bera menningarbrag og þjóðlega reisn og koma vel fyrir þegar tigna gesti ber að garði. Svo fór smám saman að bera á dáldið sérstökum prívatpraksis Ólafs forseta. Hann var til dæmis allt í einu orðinn áberandi umhverfisverndarsinni, alþjóðlegur umhverisverndarsinni. Þetta kom Ísendingum á óvart, sem aldrei höfðu tekið eftir neinum sérstökum umhverfisverndaráhuga forsetans á heimaslóðum, né blóðheitri lýðræðishugsjón þegar hatrammar deilur stóðu um virkjunina miklu, sem hrint var af stað með hraði í þann mund sem almenningsálitið snérist gegn henni. En president Grimsson hefur á undanförnum árum sómt sín vel á mörgum ráðstefnum um orku og umhverfismál, enda Ísland umhverfisvænasta land í heimi. En þeim sem þar sátu hefur kannski ekki öllum verið jafn ljóst að þessari staðreynd ráða einvörðungu náttúrulegar aðstæður, fallvötn og jarðvarmi, en ekki president Grimsson's pólitískir leiðtogahæfileikar. Hér var hins vegar að fæðast nýr maður, sem nú stígur fram á sviðið fullskapaður og réttir heiminum nafnspjaldið sitt: Ólafur Ragnar Grímsson, sjálfstætt starfandi stjórnmálamaður á alþjóðavettvangi.
Slíkir höldar eru reyndar ekki margir í heiminum. Þetta eru helst fyrrum stjórnmálamenn stórríkja, eins og Clinton og Al-Gore, sem geta í krafti athyglinnar sem þeim fylgir haft pólitísk áhrif án annars umboðs en eigin orðstír og fjölmiðlafimi. Meira að segja maður á borð við Tony Blair virðist eiga í mesta basli við að komast í klúbbinn. Pólitíkusar af þessari tegund velja sjálfir baráttumál, t.d. umhverfismál eða fátækt og auðvitað ekkert nema gott um það að segja. Ólafur Ragnar okkar kemur auðvitað inn í klúbbinn undir öðrum formerkjum, sem president. Rétt eins og Vigdís vakti heimsathygli sem president og kona, en hún fór öðru vísi að, enda líklega úr öðru efni gerð. Í krafti titilsins nýtur Ólafur nú athygli öflugustu fjölmiðla heims fyrir óvænt inngrip í milliríkjadeilu sem sjálft breska heimsveldið er viðriðið. Þar lætur hann dæluna ganga með slíkum boðaföllum að Hugo Chavez mætti stoltur við una. Þetta vekur ekki litla athygli og um leið hefur president Grimsson af sjálfsdáðum fundið nýtt málefni að berjast fyrir, uppreisn almennings gegn eitruðum stórkapítalisma. Lýðræði eða kapítalismi! þrumar Ólafur og má hann heill mæla. Hitt er svo annað mál, að þetta er sami maður og fyrir skemmstu flaut á þessum eitraða fjárstraumi til glæstra konungshalla í fjarlægum löndum. Svo hitt líka annað mál, að preident Grimson er ekki lengur sá forseti Íslands sem hann var kosinn, heldur umskiptingur í lýðveldisvöggunni. En hvað um það þó nokkrar sálir á Íslandi þurfi að sjá á bak forseta sínum, ef hann getur breytt heiminum.
27. janúar 2010
Hvert miðar?
25. janúar 2010
Þyngra en tárum taki
Á morgun hafa þeir Palli boðað blaðamannfund til að tilkynna þjóð sinni að enn um sinn frestist að hún fái þær verstu fréttir sem nokkur nefnd hefur fært þjóð sinni. Þeir ætla að hnykkja á því hversu þessi tíðindi séu ill og þeir ætla að vera persónulegir og dylja í engu hversu erfitt þetta starf hefur verið. Ekki betra en Hafskipsmálið eða gjaldþrot SÍS, svo öll þau ósköp séu nefnd sem lögð hafa verið á einn mann. Hvað er hann að segja munu kannski einhverjir hugsa? Tengjast þessi mál eða er eitthvað svo svakalegt og ókunnugt við hin gömlu mál, sem gerir þau sambærileg við sjálfar hamfaririnar, hrunið? Þetta verður dramatískur fundur.
Þeir ætla að vara við því að fólk missi á sér tökin þegar sannleikurinn verður birtur. Ekki meiða eða eyðileggja, heldur nota reiðina á uppbyggilegan hátt munu þeir segja. Og svo ætlar Tryggvi að leggja til að þjóðin fái tveggja til þriggja daga frí til að lesa skýrsluna. Þetta höfðu þeir rætt og veltu því fyrir sér hvort margir mundu fatta djókinn. Alla vega mundi þetta vekja athygli. Jú, kannski myndi einhver fatta þetta. Skýrslan á sem sagt að koma út fyrir páskana. Á skírdag. Nægur tími til að lesa hana og sérstaklega við hæfi að verja til þess föstudeginum langa. Svo ber skírdag í ár upp á 1. apríl.
5. janúar 2010
Miðdepilinn
Allt í einu heyrir maður alls staðar upphrópanir yfir því hvað forsetinn hafi gert. Er hann snar vitlaus segir fólk. Svona geta veðrin snúist, í stað þess að bölva Icesave lögum tvö, sem allir vissu að voru vond en enginn vissi um hvað snérust, getur hinn nýji ofurforseti orðið miðdepill reiði fólks. Það er kannski ekki sá miðdepill sem drengi undir dimmum fjöllum dreymir.
Tóri ríkisstjórnin og kaupi sér tíma fram að kosningum sem öllum þótti í gær einboðið hvernig myndu fara, mun málsvörn hennar felast í því að vera björgunarsveit undir árás víkinganna sem nauðguðu Íslandi. Var ekki Ólafur þar? Hvað sýna myndirnar, hvað segja ræðurnar? Er Hr. Ólafur Ragnar Grímsson ekki sjálfur sá trojuhestur sem veitir forhertrum hægrimönnum og viðskiptadólgum skjól til að ráðast að björgunarliðinu? Enginn skyldi falli annars spá, þótt slíkt hafi margan hent, en nú munu einhverjir örugglega segja að Búsáhaldabyltingin hafi ekki lokið hlutverki sínu, báráttan um nýja Ísland sé hafin á ný. Forseti biður um þjóðarsátt og segist í því nafni hafna óvinsælum lögum staðfestingar. Hvað sem manni finnst um þá rökfærslu, þá er víst að enginn drengur fær þann draum uppfylltan að verða Churchill og Ghandi í einum manni.
4. janúar 2010
Í fjörunni á Bessastöðum
Sá hnútur er í raun ekki forsetans heldur þingsins og stjórnmálanna á Íslandi. Málið snýst í raun ekki um hvað ÓRG gerir, skrifar undir eða skrifar ekki undir. Icesvemáli lýkur ekki hvort sem hann gerir, því málinu er ekki pólitískt lokið. Annars vegar höfum við stjórnarmeirihluta sem sundruðu liði gekk að afgreiðslu málsins eftir þrautagöngu á þingi sem á sér enga líka. Skrifað var undir samning sem ekki reyndist almennilegur stuðningur við innan stjórnar og málið svo rekið afar linkulega að hálfu forsætisráðherra og flokks hennar, þó samstaða ríkti þeim megin við afgreiðslu. Á hinn bóginn er stjórnarandstaða sem engum dylst að hefur fyrst og fremst hugsað um eigin pólitíska möguleika sem veikleikar stjórnarinnar og eðli Iscesvae málsins hafa fært þeim í hendur. Uppgjörið við eigin fortíð var með þessu sama máli lagt til hvílu, en hinsta hvíla verður það ekki hvað sem heimskir kunna að vona. Ferill þessa máls í þinginu hefur reynst yfirgengilega sorgleg og kvalarfull upplifun fyrir okkur áhorfendur. Eftir stendur að þjóðin er öll á móti þessum samningi, nema þeir sem fyrir neyð vilja samþykkja ábyrðina. Lang flestir virðast samt á móti og eru á móti af alls konar ástæðum. Við þurfum ekki að borga eða getum ekki borgað eða ættum ekki að borga hvað sem öðru líður. Og nú sitjum við uppi með mál sem Aþingi hefur samþykkt, en samt þó varla. Mál sem landsmenn vilja fella án þess að nokkur samstaða sé um hvað annað eigi að gera. Umræðan er á því plani að telja samninginn sjálfan vera vandamálið sem þá hlyti að hverfa verði hann felldur. Essessaekki?
Forseti Íslands situr því nú á Bessastöðum að veltir milli handa sér gegnheilu klúðri sem komið er til vegna pólitísks forystuleysis, tækifærismennsku og skammsýni. Það er ekki honum að kenna hvernig fer sem fer, skrifi hann undir eða ekki undir. Málið er ónýtt og var það fyrir löngu. En eitt sýnir þetta mál, honum hefur tekist að gera forsetaembættið að pólitísku embætti, hver sem framtíð þess annars verður. Á þessu er þó einn hængur fyrir Ólaf. Í þessu pólitíska embætti situr maður án stuðnings. Stefna þessa forseta fylgdi sömu ógöngum og leiddu hrunið yfir okkur og sýn hans var sami heimskulegi belgingur sem heróp útrásarinnar var. Viðbrögð forsetans við hruninu urðu svo hin sömu og þeirra sem þar bera þyngsta sök. Sá forseti sem nú situr og lætur heiminn bíða eftir sér á sem sagt við annan vanda að etja en að ákveða hvort hann lyftir penna sínum. Hann sjálfur er eins og lögin sem hann veltir milli handa sér, formsatriði án innihalds. Tóm skel.