6. september 2010

Að skilja Andskotann, þó seint sé

Eftir 40 daga og nætur í eyðimörkinni birtist djöfulinn Jesú og bauð honum allan heiminn fyrir að falla fram og tilbiðja sig, eins og kunnugt er. Á Vestmannsvatni, þar sem þjóðkirkjan rak eitt sinn sumarbúðir fyrir börn, var mér sagt að eftir langa dvöl í eyðimörk væru freistingarnar sterkari en nokkru sinni fyrr og staðfesta Jesú því enn meiri fyrir vikið, þegar hann vék andskotanum frá sér með orðunum "vík burt Satan", ef ég man rétt. En hvaða andskotans freistingatækni var þetta hef ég samt stundum spurt sjálfan mig. Ætti slíkt tilboð ekki betur heima á fögru kvöldi eftir mat og drykk en í sólarbreyskju eyðimerkurinnar. Hví var Satan við slíkar aðstæður að bjóða auð og völd, þegar hugur dauðlegs manns stendur til einfaldra holdlegra hluta, og helst án tafar? Og annað er það einnig sem mig síðar undraði við þessa biflíusögu, þó það hafi sennilega ekki truflað Vestmannsvetningana mikið. Hvaða skilaboð eru það hversdaglegum manni eins og mér að Jesú hafi staðist þá freistingu að eignast allan heiminn? Hverjum mæta stórfreistingar um auð og völd við hvert fótmál? Samt eru dæmisögur Jesú yfirleitt þannig að hver maður getur þekkt þar sjálfan sig í hlutverki.

En nú hefur þjóðkirkjan, seint og um síðir og eftir dæmalusum krókaleiðum loksins skýrt fyrir mér hvað þessi biflíusaga um freistingar andskotans merkir.


Ólafur Skúlason kemur við þessa sögu, eins og vænta má. Hann varði sig af mikilli einurð í sjónvarpsviðtölum í febrúar 1996, eftir að nokkrar konur höfðu opinberlega sagt frá hrikalegri reynslu sinni af honum mörgum árum fyrr. Í viðtali við hann spurður hvort hann gæti haldið áfram sem biskup með þessar ávirðingar á bakinu. Þá svaraði hann með annari spurningu eftir stutta umhugsun. Get ég haldið áfram að vera manneskja? Svo vék hann skyndilega að þessari sögu af Jésu og andskotanum. Þetta var furðulegt að sjá og heyra. Af hverju fór herra Ólafur að tala um freistinguna í varnarræðu sinni? Ef það var freisting í þessu máli, þá var hún hans og það féll vægast sagt illa að málsvörninni annars. Svo leyfði hann sér að binda þá slaufu á sögu sína af Jesú, Satan og sjálfum sér, að hann segði "farðu burt" við gagnrýnendur sína. Undir niðri bjó auðvitað sú hræsni sem er jafngömul kristnum söfnuði, að bendla óvini sína við Myrkrahöfðingjann. En í þessum orðum bjó einnig hyldýpi aldagamallar kvenfyrirlitningar. Konur eru verkfæri Andskotans, þær freista karlanna. Biskupinn yfir var Íslandi talaði sem sagt kinnroðalaust um freistinguna og djöfulinn um leið og þessi alþekkti áreytismaður sór að ekki væri flugufótur fyrir frásögnum kvennanna. Ekki flugufótur. Nú hefur jú verið upplýst að Ólafur beitti ekki aðeins aðvífandi konur ofbeldisfullri áreytni heldur var hann einn þeirra manna sem níðast á eigin börnum. Svo lengi sem orðin lygi og hræsni hafa nokkra merkingu í tungumálinu getur þetta dæmi af biskupi Íslands lifað.


Andskotinn freistaði Krists ekki með smáskitlegri augnablikssvölun, heldur með völdum. Það er vegna þess að sú freisting að taka sér völd, sem manni ekki ber er móðir allra freistinga. En þar liggur líka líka munurinn á auvirðulegum, hversdaglegum freistingum og hinum djöfullegu freistingum. Hvaða vald einn maður má hafa yfir öðrum manni snertir kjarnann í mannlegu samfélagi. Sá sem ekki virðir mannhelgi samfélagsins fyrirgerir eigin helgi og jafnvel mennsku sinni. Og allir eru yfir annan settir, einhvern tímann og á einhvern hátt og verða að getað sett helgi annars lífs ofar eigin hvötum og löngunum. Annars fórna þeir mennsku sinni og hafa selt Andskotanum sálu sína.


Svo hefði maður haldið að ekki væri sá sæmdarljómi yfir sögu hins brokkgengna biskups, að eftirmaður hans þurfi að hika svo augljóslega og gamall kompanjón úr valdstéttinni að gelta svo ákaflega, þegar þjóðin bregst við á afar skiljanlegan hátt.




Engin ummæli: