4. janúar 2010

Í fjörunni á Bessastöðum

Aftur finnst manni ögurstund í sögunni, þessir dagar þegar beðið er efir kvittun forseta á Icesave-lög hin seinni. Maður er í aðra röndina þakklátur fyrir tillitssemi við seinfæra bloggara eins og mig sem forsetinn sýnir með því að draga málið á langinn. Fyrst eftir samþykkt laganna helltist yfir mig sannfæring um að ÓRG myndi ekki skrifa undir. Það kæmi honum lang best. Svo fór ég að efast, afleiðingarnar gætu orðið ansi afdrifaríkar og inn í þá atburðarás gæti forsetinn flækst undir öðrum paragröffum síns embættis, ef hér yrði stjórnarkreppa til dæmis. Þá gætu fjaðrirnar fokið skjótt úr hatti forsetans. Ólafur er í klípu, en hann er í raun í annarri og verri klípu en þessum Icesavehnút.

Sá hnútur er í raun ekki forsetans heldur þingsins og stjórnmálanna á Íslandi. Málið snýst í raun ekki um hvað ÓRG gerir, skrifar undir eða skrifar ekki undir. Icesvemáli lýkur ekki hvort sem hann gerir, því málinu er ekki pólitískt lokið. Annars vegar höfum við stjórnarmeirihluta sem sundruðu liði gekk að afgreiðslu málsins eftir þrautagöngu á þingi sem á sér enga líka. Skrifað var undir samning sem ekki reyndist almennilegur stuðningur við innan stjórnar og málið svo rekið afar linkulega að hálfu forsætisráðherra og flokks hennar, þó samstaða ríkti þeim megin við afgreiðslu. Á hinn bóginn er stjórnarandstaða sem engum dylst að hefur fyrst og fremst hugsað um eigin pólitíska möguleika sem veikleikar stjórnarinnar og eðli Iscesvae málsins hafa fært þeim í hendur. Uppgjörið við eigin fortíð var með þessu sama máli lagt til hvílu, en hinsta hvíla verður það ekki hvað sem heimskir kunna að vona. Ferill þessa máls í þinginu hefur reynst yfirgengilega sorgleg og kvalarfull upplifun fyrir okkur áhorfendur. Eftir stendur að þjóðin er öll á móti þessum samningi, nema þeir sem fyrir neyð vilja samþykkja ábyrðina. Lang flestir virðast samt á móti og eru á móti af alls konar ástæðum. Við þurfum ekki að borga eða getum ekki borgað eða ættum ekki að borga hvað sem öðru líður. Og nú sitjum við uppi með mál sem Aþingi hefur samþykkt, en samt þó varla. Mál sem landsmenn vilja fella án þess að nokkur samstaða sé um hvað annað eigi að gera. Umræðan er á því plani að telja samninginn sjálfan vera vandamálið sem þá hlyti að hverfa verði hann felldur. Essessaekki?

Forseti Íslands situr því nú á Bessastöðum að veltir milli handa sér gegnheilu klúðri sem komið er til vegna pólitísks forystuleysis, tækifærismennsku og skammsýni. Það er ekki honum að kenna hvernig fer sem fer, skrifi hann undir eða ekki undir. Málið er ónýtt og var það fyrir löngu. En eitt sýnir þetta mál, honum hefur tekist að gera forsetaembættið að pólitísku embætti, hver sem framtíð þess annars verður. Á þessu er þó einn hængur fyrir Ólaf. Í þessu pólitíska embætti situr maður án stuðnings. Stefna þessa forseta fylgdi sömu ógöngum og leiddu hrunið yfir okkur og sýn hans var sami heimskulegi belgingur sem heróp útrásarinnar var. Viðbrögð forsetans við hruninu urðu svo hin sömu og þeirra sem þar bera þyngsta sök. Sá forseti sem nú situr og lætur heiminn bíða eftir sér á sem sagt við annan vanda að etja en að ákveða hvort hann lyftir penna sínum. Hann sjálfur er eins og lögin sem hann veltir milli handa sér, formsatriði án innihalds. Tóm skel.

Engin ummæli: