21. júní 2010

Veiðiferð í afdölum

Var í veiðiferð í afdölum og hef tekið á móti fleiri hamingjuóskum með þennan eina fisk sem ég veiddi, en nokkuð annað sem ég hef afrekað undanfarin ár. Ég er byrjandi og rétt að kynnast þögulli, karlmannlegri samveru veiðiferðanna og þessari einrænu náttúruunun og hugrækt. Með þögninni tala veiðikarlar saman um það skiptir máli í lífinu, hitt ræða þeir af innlifun, fiska og frægar tökur. Og kannski stundum fótbolta. Stórtíðindi og meginatriði eru óorðuð, eða í mesta falli sögð nokkrum orðum. Pólitík og þjark á ekki heima í slíkum ferðum, en ef leiða þarf manni eitthvað fyrir sjónir er það gert að hætti fornmanna og spakvitringa, "hverju reiddust goðin?".

Á leiðinni í veiði urðu þau stórtíðindi að Hæstiréttur felldi dóm um lögleysu gegnistryggðra lána, svo veiðimennirnir töluðu um fátt annað þegar þeir hittust en veiðilega staði og fræga fiska. Eftir þriggja daga tal um fiska og flugur og fræga veiði áræddi ég að stynja upp úr eins manns hljóði í málhvíld veiðimannanna einhverju um hvað hann væri rosaleg tíðindi þessi dómur. Vissum við nokkuð hvað þetta þýddi? Þögn. Svo mælti einn "Hvernig hefði dómurinn fallið áður en bankarnir hrundu?" Svo var urriði aftur kominn á dagskrá.

Nekt íslansvitleysunnar verður sífellt napurri. Sagt er að "tugir, ef ekki hundruð" lögfræðinga hafi skoðað lánveitingar bankanna án þess að finna þeim nokkuð til vansa. Því verr gefast þeirra ráð sem fleiri koma saman gæti maður sagt. Hæstarétti reyndist ekki erfitt að kveða upp dóminn, það þurfti ekki annað en að lesa lögin. Málatilbúningur bakanna var útúrsnúningur. Ekki bara að vörn þeirra væri útúrsnúningur, það eru varnir í vonum málum sennilega alltaf, heldur var sjálf gerðin frá upphafi útúrsnúningur úr lögum, sem nokkuð afdráttarlaust banna gengistryggingu lána og "tugir ef ekki hundruð" lögfræðinga gátu ómögulega séð neitt galt við. Ekki á þeim tíma. En einhver sagði í útvarpinu sér til afökunar að menn yrðu að skilja að á þessum tíma hefði "ríkt hér ákveðið ástand". Svo það var ekki nema von að veiðmanninum hryllti að sögn við að svara eigin spurningu.

Engin ummæli: