25. janúar 2010

Þyngra en tárum taki

Vel klæddur maður situr við virðulegt skrifborð og grúfir sig yfir skjalabunka. Umhverfis hann myrkur, en ljósið sem fellur á pappírinn lýsir upp skarpleitan vanga mannsins. Innan seilingar slurkur í kristalsglasi. Svo fellur dropi á pappírinn, tær, stór dropi sem pappírinn sýgur fljótt upp. Svo annar og innan skamms hristist maðurinn allur af áköfum ekkasogum. Þetta er Tryggvi Gunnarsson, aleinn með Sannleikanum og grætur.

Á morgun hafa þeir Palli boðað blaðamannfund til að tilkynna þjóð sinni að enn um sinn frestist að hún fái þær verstu fréttir sem nokkur nefnd hefur fært þjóð sinni. Þeir ætla að hnykkja á því hversu þessi tíðindi séu ill og þeir ætla að vera persónulegir og dylja í engu hversu erfitt þetta starf hefur verið. Ekki betra en Hafskipsmálið eða gjaldþrot SÍS, svo öll þau ósköp séu nefnd sem lögð hafa verið á einn mann. Hvað er hann að segja munu kannski einhverjir hugsa? Tengjast þessi mál eða er eitthvað svo svakalegt og ókunnugt við hin gömlu mál, sem gerir þau sambærileg við sjálfar hamfaririnar, hrunið? Þetta verður dramatískur fundur.

Þeir ætla að vara við því að fólk missi á sér tökin þegar sannleikurinn verður birtur. Ekki meiða eða eyðileggja, heldur nota reiðina á uppbyggilegan hátt munu þeir segja. Og svo ætlar Tryggvi að leggja til að þjóðin fái tveggja til þriggja daga frí til að lesa skýrsluna. Þetta höfðu þeir rætt og veltu því fyrir sér hvort margir mundu fatta djókinn. Alla vega mundi þetta vekja athygli. Jú, kannski myndi einhver fatta þetta. Skýrslan á sem sagt að koma út fyrir páskana. Á skírdag. Nægur tími til að lesa hana og sérstaklega við hæfi að verja til þess föstudeginum langa. Svo ber skírdag í ár upp á 1. apríl.

Engin ummæli: