31. janúar 2010

Íslenskir sigrar

Þetta eru góðir dagar. Íslendingar unnu í gær verðskuldaða bronsmedalíu í handboltakeppni Evrópuþjóða og eiga þar að auki afreksmann á heilsmælikvarða í sínu allra besta formi um þessar mundir. Sá er vitaskuld Ólafur Ragnar Grímsson, president. Vinur minn, írakskur læknir í Noregi hefur hitt Ólaf og lýsir honum sem afburðamanni. Þetta sagði hann mér þegar við kynntumst árið 2006 og endurtók við ýmiss tækifæri. Hann hafði hitt Ólaf á Bessastöðum í tengslum við Norræna lungnalæknaþingið hér um árið. Það er með ólíkindum að 300 þúsund manna þjóð skuli eiga slíkan einstakling, sagði þessi vinur minn og ég vissi ekki alveg hvað segja skyldi við því. Nú hefur komið í ljós hver afburða mannþekkjari dr. Al-Azawy er. Íslenski presidentinn hefur ummyndast úr valdalausum selskapsforseta hins íslenska dvergríkis í einn fremsta baráttumann heims í uppreisn gegn ósóma kapítalismans. Hann hefur gert vígorð Davíðs Oddssonar að alþjóðlegu herópi: "Við borgum ekki skuldir óreiðumanna". Ég stóð frammi fyrir vali sagði Ólafur, hvort ég stæði með auðmagninu eða lýðræðinu. Ég valdi lýðræðið.

Og hver er svo lykillinn að þessari metamorfósu Ólafs Ragnars Grímssonar. Jú, nákvæmlega það sem vinur minn setti í samhengi, hann er afburðamaður frá dvergríki. Það skiptir engu hversu liðugt president Grimsson krítar í útskýringum á íslenskri pólitík við erlenda fréttarýna, hvatki er missagt er af hans hálfu verður aldrei leiðrétt. Það er ekki fjallað um íslenska pólitík í heimspressunni á hverjum degi. Og fyrirfram veit auðvitað enginn í heiminum neitt um íslensk stjórnmál frá Hriflu-Jónasi til okkar daga, svo Grimsson getur sagt hvað sem er þess vegna. Menn vita ekki einu sinni hvað forseti Íslands er, svo president Grimson getur hæglega látið sem hann sé pólitískur leiðtogi þessa lands. Ekki miklar líkur á að það verði leiðrétt að einhverjum, sem kynni að eigna sér þann sess frekar. Þannig er þessi baráttumaður lýðræðisins í heiminum nánast valdaránsmaður heima hjá sér, þegar hann fer um lönd og rekur sinn prívatpólitíska áróður þvert á ríkisstjórn, sem þó á að heita studd af meirihluta íslenskra þingmanna. Raunar má segja í ljósi atburðarásarinnar, að hann fari um í umboði stjórnarandstöðunnar. Ólafur Ragnar Grímsson fer um heiminn í umboði Sjálfstæðisflokksins og boðar uppreisn alþýðunnar gegn kapítalismanum. Afburðamaður er varla ofmælt.

Hvað er hér á seyði? Jú, Ólafur Ragnar hóf sinn ferill sem íslenskur forseti. Slíkir eru taldir tákngervingar, fyrst og fremst. Eiga, hygg ég, að gera það helst að bera menningarbrag og þjóðlega reisn og koma vel fyrir þegar tigna gesti ber að garði. Svo fór smám saman að bera á dáldið sérstökum prívatpraksis Ólafs forseta. Hann var til dæmis allt í einu orðinn áberandi umhverfisverndarsinni, alþjóðlegur umhverisverndarsinni. Þetta kom Ísendingum á óvart, sem aldrei höfðu tekið eftir neinum sérstökum umhverfisverndaráhuga forsetans á heimaslóðum, né blóðheitri lýðræðishugsjón þegar hatrammar deilur stóðu um virkjunina miklu, sem hrint var af stað með hraði í þann mund sem almenningsálitið snérist gegn henni. En president Grimsson hefur á undanförnum árum sómt sín vel á mörgum ráðstefnum um orku og umhverfismál, enda Ísland umhverfisvænasta land í heimi. En þeim sem þar sátu hefur kannski ekki öllum verið jafn ljóst að þessari staðreynd ráða einvörðungu náttúrulegar aðstæður, fallvötn og jarðvarmi, en ekki president Grimsson's pólitískir leiðtogahæfileikar. Hér var hins vegar að fæðast nýr maður, sem nú stígur fram á sviðið fullskapaður og réttir heiminum nafnspjaldið sitt: Ólafur Ragnar Grímsson, sjálfstætt starfandi stjórnmálamaður á alþjóðavettvangi.

Slíkir höldar eru reyndar ekki margir í heiminum. Þetta eru helst fyrrum stjórnmálamenn stórríkja, eins og Clinton og Al-Gore, sem geta í krafti athyglinnar sem þeim fylgir haft pólitísk áhrif án annars umboðs en eigin orðstír og fjölmiðlafimi. Meira að segja maður á borð við Tony Blair virðist eiga í mesta basli við að komast í klúbbinn. Pólitíkusar af þessari tegund velja sjálfir baráttumál, t.d. umhverfismál eða fátækt og auðvitað ekkert nema gott um það að segja. Ólafur Ragnar okkar kemur auðvitað inn í klúbbinn undir öðrum formerkjum, sem president. Rétt eins og Vigdís vakti heimsathygli sem president og kona, en hún fór öðru vísi að, enda líklega úr öðru efni gerð. Í krafti titilsins nýtur Ólafur nú athygli öflugustu fjölmiðla heims fyrir óvænt inngrip í milliríkjadeilu sem sjálft breska heimsveldið er viðriðið. Þar lætur hann dæluna ganga með slíkum boðaföllum að Hugo Chavez mætti stoltur við una. Þetta vekur ekki litla athygli og um leið hefur president Grimsson af sjálfsdáðum fundið nýtt málefni að berjast fyrir, uppreisn almennings gegn eitruðum stórkapítalisma. Lýðræði eða kapítalismi! þrumar Ólafur og má hann heill mæla. Hitt er svo annað mál, að þetta er sami maður og fyrir skemmstu flaut á þessum eitraða fjárstraumi til glæstra konungshalla í fjarlægum löndum. Svo hitt líka annað mál, að preident Grimson er ekki lengur sá forseti Íslands sem hann var kosinn, heldur umskiptingur í lýðveldisvöggunni. En hvað um það þó nokkrar sálir á Íslandi þurfi að sjá á bak forseta sínum, ef hann getur breytt heiminum.

Engin ummæli: