Fyrst nú er að verða tímabært að kveðja öldina sem leið, áratug eftir kampavínsflaum þúsaldarhátíðarinnar. Tuttugustu öldinni er lokið og okkur verður það senn ljóst.
Tuttugasta öldin á Íslandi hófst með því að landið tengdist umheiminum með símastreng. Hann var umsvifalaust notaður til að lýsa yfir sjálfstæði, "Í þennan síma talar sjálfstætt fólk í eigin landi". Þetta hefur síðan verið viðkvæði Íslendinga hvort sem þeir tala í síma, míkrafón eða talstöð og reynst svo haldgott að fá dæmi eru þess að jafn fámennur hópur hafi náð að beygja stórveldi heimsins með einþykkju sinni, amk fá dæmi utan Asterix bókanna. Bandaríska heimsveldið þurfti að hlýða dyntum hinna sjálfstæðu Íslendinga í slíkar öfgar, að einn þeirra heimsfrægasti utanríkisráðherra, Henry Kissinger, getur loks sofnað svefninum langa í friði eftir að hafa lýst því yfir í ævisögu sinni, að Íslendingar væru heimtufrekasta og þvermóðsufyllsta þjóð í heimi. Og á hinn bóginn, austur í Kreml, þurfti Alþjóðasamband kommúnusta, Komintern, að samþykkja undanþágu frá sínu helgasta boðorði handa Íslendingum. Íslenskir kommar máttu vera þjóðernissinnar dauðans í félagsskap, sem snerist um hið gagnstæða, alþjóðahyggju. Þetta fékkst með því að svara ekki öðru í síma, en að hér byggi sjálfstæð þjóð í eigin landi. Og menn minnast þess auðvitað hvernig nýlega fór fyrir breska sjónvarpsspyrilinum sem ætlaði að grilla hortugan dvergþjóðarforseta, þegar símsvarinn fór í gang. Meiri jöfrar en hann hafa gefist upp fyrir íslenska svarinu.
Í útlöndum er maður iðulega spurður hvernig svo fámennur ættbálkur geti starfsrækt sjálfstætt þjóðríki og maður svarar vitaskuld að á Íslandi búi sjálfstæð þjóð í eigin landi. Það var fyrst fyrir tveimur árum að ég byrjaði að skilja spurninguna, sem nú orðið leitar á mig eins og hvern annan útlending. Þetta er eins og að hafa smitast af óværu. Eitt er fólksfæðin á Íslandi, en hitt er mér meira undrunarefni að þjóð, sem maður skyldi ætla að þyrfti á öllu sínu að halda til að mynda starfshæft ríki, skuli geta hent frá sér talentum og peningum í botnlausa sérhygli, nebútisma og klíkumenningu, en þó státað að slíkri velmegun. Svo til öll opinber embætti eru skipuð prímó rétta einstaklingnum, sekúndó hæfasta einstaklingum. Og prívatgeirinn er varla neitt skárri, þar sem forstjórar stórfyrirtæjanna halda heilsu sinni og stafi með löngum göngutúrum í Heiðmörk, saman í hóp.
Svarið við þessari þraut er að Íslendingar hafa aldrei verið sjálfstæð þjóð í eigin landi. Vita ekkert hvað það er að vera sjálfstæði þjóð, fyrr en kannski bráðum. Sjálfstæð þjóð getur ekki hagað sér eins og við höfum gert, frekar en sjálfstæður einstaklingur getur hagað sér eins og heimtufrekur unglingur. Það er ekki þar með sagt að Íslendingar séu lélegri þjóð en aðrir, en nú fyrst reynir á okkur að svo mörgu leyti. Það er ekki bankahrunið sem ég er að tala um, heldur sá paradísarmissir sem varð þegar kalda stríðinu lauk. Íslendingar stukku fram sem sjálfstæð þjóð í skjóli anglósaxneska heimsveldisins, fyrst Breta svo Kana. Heimsstyrjöldin færði okkur nútímann og peninga og svo tók Kalda Stríðið við með stórveldi á báðar hendur sem vildu hygla okkur. Þegar kalda stríðinu lauk misstum við undramáttinn. Hvað skyldu Kanarnir hafa sagt við pirraðan og ómögulegan íslenskan Oddsson með heimsmynd Björns Bjarnasonar í höfðinu? Ætli þeir hafi haft húmor til að benda honum á Evrópusambandið?
Raunveruleiki tuttugustu aldarinnar er horfinn og nú eru Íslendingar loks sjálfstæð þjóð í eigin landi og vita ekki sitt rjúkandi ráð.
30. desember 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli