28. febrúar 2010

Hruneyjarsaga heldur áfram og spennan orðin óbærileg

Það er meiri húmor í harmsögu Íslands en margan grunar. Eitt helsta frásagnarbragð hins óþekkta höfundar er að snúa öllu á hvolf, gera vinstrimenn að markaðshyggjumönnum og markaðshyggjumenn að skömmtunarsinnuðum búrum. Og í sumar sátu þingmenn Íslands á endalausum fundum við að smíða milliríkjasamning. Upp á sitt eindæmi nýjan samning við Breta og Hollendinga. En nú þegar þegar samninganefndir landanna eru loks farnar að funda, þá ræður í raun öllu um málið hvort íslenskir stjórnmálamenn ná að semja sín á milli. Svo vísast eru þeir þá ekki að gera það.

Sagan er orðin æsispennandi og nálagast hvörf, fresturinn er örstuttur. Fram hefur komið að hin ótrúlega þjóðaratkvæðagreisla veldur meiri titringi í Evrópu en flesta óraði fyrir. Financial Times segir í leiðara að hún kunni að setja bankakerfið í uppnám þar eð ríkisábyrgðir verði ekki lengur jafn sjálfgefnar og þá hlýtur breska ríkistjórnin að eiga skilið sinn skerf af skömminni fyrir að málum sé nú svo komið. Sennilega eru þetta þau óvæntu tíðindi utan úr geimnum sem fjallað var um í síðasta pistli. Taktík okkar virðist vera að bíða róleg eftir að viðsemjendur teygi sig lengra og lengra til að forðast atkvæðagreiðsluna á Íslandi. En auðvitað er þetta Hvor er pútan? eða chicken race, eins og annar hefur bent á. Náist ekki samningar og atkvæðagreiðsla verður haldin eru afleiðingarnar varla skárri fyrir okkur en hina keppendurna í þeim leik.

Þess vegna er það spurningin nú hvort íslenskir stjórnmálamenn séu í raun að semja sín á milli. Er meirihluti fyrir því að semja um Icesave og halda áfram samkvæmt þeirri hagfræðiáætlun sem í orði er fylgt eða er í raun ekki vilji til þess? Hvað þarf að gerast í íslenskri pólitík til að samningasinnar nái saman? Ríkisstjórnin hefur formlega játað vanmátt sinn í þessu máli og lifi hún áfram bíða hennar bara fleiri mál að játa vanmátt sinn gagnvart, enda í raun lifandi dauð minnihlutastjórn. Þess vegna snýst Iscesavemálið ekki um Icesave nema að litlu leyti. Það snýst um fjárlög næstu ára, hugmyndafræði stjórnvalda, samskipti við aðrar þjóðir og ónýtan gjaldmiðil. ESB eða ekki ESB. Þetta eru hinar raunverulegu milljón punda spurningar sem svara verður fyrir næstu helgi.

Fylgist vel með næsta þætti í hinni óborganlegu Hruneyjansögu.

Engin ummæli: