Ég sé af fréttum að eldhúsdagur á Alþingi er haldinn í skugga fíflabyltingarinnar. Stjórnmálamenn sjá, sumir altént, að hirðfíflin, jogglararnir, gígjusláttarmennirnir og leikarararnir geta hæglega sópað þeim út af þingi. Rök kjósendanna verða þau sömu og í Reykjavík um daginn: þetta fólk getur ekki verið verra en hinir. Gæti meira að segja verið miklu betra.
Ekki kaus ég Besta, kemur væntanlega ekki á óvart, en mér var þó orðið rórra þegar ég nokkru fyrir kosningar gerði mér grein fyrir að Besti flokkurinn væri bjórlíki. Hér birtist þessi dásamlega aðferð Íslendinga við að rísa upp og mótmæla með því að leggjast niður. Við leggjumst niður til að mótmæla, kveljum okkur sjálf og niðurlægjum. Flykkjumst á nýopnaðar knæpur og hellum okkur full af kláravíni í pilsner. Þjóð á ímyndunarfylleríi þar sem ímyndunin er bjór en raunverueikinn þetta íslenska kláravín sem henni er skammtað. Nú er ímyndunin almennileg stjórnmál en raunveruleikinn íslensk stjórnmál hrein og ómenguð í boði grínistanna. Okkur er boðið að drekka spillinguna, blekkingarnar, sýndarmennskuna, hugsjónaleysið eins og kláravín út í það þunna öl sem hin formlegu stjórnmál eru.
Menn nefna meðferð. Alþingi sé í ruglinu og þurfi að fara í meðferð segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Og ég tek ofan fyrir henni mína lúnu húfu. Stjórnmál sem orðin eru viðskila við fólkið eru engin stjórnmál heldur hið þveröfuga, þau stuðla að niðurrifi samfélagsins. Pólitíska hrunið, sem nú blasir við er eðlileg og reyndar æskileg afleiðing kerfishruns Íslands. Kannski dreymdi einhverja að þeir slyppu en hinir myndu hrynja, en svo einföld er hvorki verkfræðin né lífið. Stjórnmál eru kerfi þar sem eitt tekur mið af öðru. Fíflabyltingin sýnir með satírunni hvernig hægt er að afhjúpa stjórnmálin með því að stilla saman orðum og gerðum hlið við hlið. Eins og reyndar hægt er að afhjúpa alla sem ganga á lagið að fá fólk til að halda að þeir séu, frekar en að vera. Það er gömul saga og ný.
Mikilvægasta spurningin nú er þrátt fyrir allt ekki sú margtuggða, hver bar ábyrgð, heldur hver getur getur vísað veginn. Það verður ekki gert með því einu að segjast vera öðruvísi, heldur með því að vera öðruvísi, en geta samt vísað veginn. Sá sem er tilbúinn að vera meiri en hann sýnist getur það.
10. júní 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli