3. mars 2010

Ó, þér fábjánafjöld

Fullyrðing Þráins Bertelssonar að 5% þjóðarinnar séu fábjánar hefur hleypt velþegnu lífi í annars dauflega fræðigrein, fábjánafræði. En eitt er nauðsynlegt að skýra í ljósi umræðunnar, fábjáni er ekki alltaf fábjáni. Fjöldi fábjána á Íslandi er afar breytilegur. Best að nefna dæmi af sjálfum sér.

Sumarið 2008 festi ég kaup á nýlegum lúxuséppa, sem einhver þjösni hafði haft á kaupleigu í 1 eða 2 ár. Verðið var hagstætt, en krafðist þó bílaláns fyrir rúmlega hálfu verði bílsins. Myntköfulán varð ofaná, jafnvel þó mér yrði hugsað til Rauðhettu litlu með körfuna sína þegar bílsalinn var að vísa mér fjármögnunarveginn. Svo ók ég heim og bakkaði upp í innkeyrsluna, enda bílinn útbúinn bakkmyndavél. Bráðnauðsynlegur útbúnaður fyrir mann sem er brenndur af því að hafa straujað hliðina á kyrrstæðum Ford Cortina með afurendanum á blæju-rússajeppa í blindri hríð árið 1983. Með því að bakka upp í innkeyrsluna yrði ég líka fljótari að keyra út. Það reyndist vel hugsað, því eiginkonan sendi mig snarlega til baka að skila bílnum. Ég átti sem sagt að kaupa bíl fyrir peninga sem við áttum. Bílinn mátti svo sem vera japanskur, en ekki peningarnir sem ég borgaði hann með. Þegar ég kom til baka á bílasöluna leið mér eins og fábjána. Það stafaði einfaldlega af því að ég var fábjáni. Samt var mér vel tekið og hughresstist nokkuð við það að heyra að ég væri ekki fyrsti fábjáninn á ferli hins unga sölumanns.

Nú hef ég fengið boð um að koma til kosninga næsta laugardag sem gerir það að verkum að mér líður nú aftur eins og fábjána. Það er mér þó kannski hughreysting að vera ekki eini fábjáninn. Og það eru gott betur en 5% þjóðarinnar á kjörskrá.

Engin ummæli: