23. maí 2010

Fíflabyltingin

Besti flokkurinn er ekki grínframboð, ekki lengur, heldur fíflaframboð. Grínframboð Jóns Gnarr var góð paródía á stjórnmálin, en þegar fíflinu er orðin fúlasta alvara tekur grínið að grána. Á því er reginmunur að vera í framboði til að koma skopstælingu á framfæri eða ætla eins og hinir að komast til valda.

Fíflið góða og vinsæla fann sem sagt upp á því einn daginn að skopstæla kónginn. Háðið var beitt og hitti svo vel í mark að múgurinn trylltist af fögunuði. Sætast þótti að sjá kónginn sitja reiðan og niðurlægðan undir narri fíflins án þess að mega rönd við reisa. Svo hrópaði einhver: "Fíflið fyrir konung, fíflið fyrir konung......." og brátt tóku allir undir, "fíflið fyrir konung...". Fíflið espasðist upp og gekk lengra og lengra í narri sínu að þykjast vera kóngurinn sjálfur. Og honum steig svo til höfuðs að fólkið hyllti hann, að á endanum rann hann sjálfur inn í eigið narr og varð þess fullviss að hann væri kóngurinn. En í þessu nýja hlutverki kunni fíflið auðvitað ekkert nema leika skopstælingu, frekar en endranær. Fíflakóngurinn varð skopstæling paródíunnar, plús fenginn úr tveimur mínusum. Það sem í vídeóinu hafði verið barn varð fatlað barn í raunveruleikanum. Það sem í vídeóinu hafði verið koss varð ástarjátning í raunveruleikanum, "mamma er eins og þú". Fíflið trúði því að meira gaman, meira grín væri stjórnmálskoðun. Aðferð sem leysi probblemm, öll probblemm.

Þegar döpur hjörtu fólksins fundu bylgjuna rísa, sem kallaði fíflið til konungstignar fannst þeim að þau gætu kastað syndum sínum á bak við sig með því að lyfta fíflinu í hásætið. Þau gætu bætt fyrir þátttöku sína í öllu bullinu með því að niðurlægja kónginn með fíflinu. Samt voru þau bara að gera það sama og alltaf, hrífast með þeim sem bauð ábyrgðarlaust líf. Nú vilja þau grína á daginn og grilla á kvöldin.

Engin ummæli: