5. janúar 2010

Miðdepilinn

Forseti Íslands hefur unnið afrek. Hann er nú sá miðdepill heims sem nokkurn dreng undir dimmum fjöllum norðurhjarams getur dreymt. Embætti hans hefur hafist til þeirrar valdastofnunar að yfirstígur öll önnur á þessu landi, þegar hann ræður að stíga fram og skipa til málum. En allt kostar. Afrek forsetans fyrir hönd embættisins hafa kostað hann leyfarnar af þeim stuðningi sem hann hafði meðal þjóðarinnar. Pólitískt embætti manns án pólitískrar inneignar er niðurstaðan. Þversögn risin af rökréttri ákvörðun. Forsetinn kaus að vera sjálfum sér samkvæmur til að sanna að hann hafði ekki áður beitt valdi sínu af hlutdrægni gegn gömlum fjanda. En nú ríður á að gamlir fjandar komi honum til varnar þegar sótt verður að Bessastaðavirkinu. Þangað aka þeir ekki gæðingum sínum, heldur trojuhestum.

Allt í einu heyrir maður alls staðar upphrópanir yfir því hvað forsetinn hafi gert. Er hann snar vitlaus segir fólk. Svona geta veðrin snúist, í stað þess að bölva Icesave lögum tvö, sem allir vissu að voru vond en enginn vissi um hvað snérust, getur hinn nýji ofurforseti orðið miðdepill reiði fólks. Það er kannski ekki sá miðdepill sem drengi undir dimmum fjöllum dreymir.

Tóri ríkisstjórnin og kaupi sér tíma fram að kosningum sem öllum þótti í gær einboðið hvernig myndu fara, mun málsvörn hennar felast í því að vera björgunarsveit undir árás víkinganna sem nauðguðu Íslandi. Var ekki Ólafur þar? Hvað sýna myndirnar, hvað segja ræðurnar? Er Hr. Ólafur Ragnar Grímsson ekki sjálfur sá trojuhestur sem veitir forhertrum hægrimönnum og viðskiptadólgum skjól til að ráðast að björgunarliðinu? Enginn skyldi falli annars spá, þótt slíkt hafi margan hent, en nú munu einhverjir örugglega segja að Búsáhaldabyltingin hafi ekki lokið hlutverki sínu, báráttan um nýja Ísland sé hafin á ný. Forseti biður um þjóðarsátt og segist í því nafni hafna óvinsælum lögum staðfestingar. Hvað sem manni finnst um þá rökfærslu, þá er víst að enginn drengur fær þann draum uppfylltan að verða Churchill og Ghandi í einum manni.

1 ummæli:

Elísabet sagði...

Þjóðin er yfir sig ánægð með Ólaf. Segir Gallup. Ótrúlegt leikrit...