5. nóvember 2008

Klárir í bátana

Þögn sem fyrr. Er sennilegt að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn taki umsókn Íslands fyrir á föstudag frekar en í dag? Er sennilegt að skilyrðin verði gerð opinber? Sér nokkuð fyrir endann á biðinni eftir hinu óumflýjanlega? Á meðan getum við virt fyrir okkur nokkur brot af myndinni.

Bankakerfi, 15 falt stærra en þjóðarbúið hrundi. Ekki einn banki, ekki bræðrabylta eins og í BNA, heldur heila sýstemið. Einn sagður felldur af Bretum, en það var vegna þess að annar, sem bauð vexti og vaxtavexti fór á hausinn með gullið í kollinum. Hvort hinn felldi hefði annars staðið orkar reyndar tvímælis að mér skilst. Bretar sögðu viðskipti Landsbankans hryðjuverkastarfsemi. Þeir eru snobbaðar bullur. Kunna að sparka á milli fóta án þess að skvettast uppúr Martini glasinu. (Þess vegna leggjast þeir líka flatir fyrir ennþá sterkari bullum eins og George W. Bush).

Það breytir ekki því að Íslendingar eru fjárglæframenn í augum heimsins. Það mun kosta mikla grænsápu í langan tíma til að þvo þann stimpil af okkur. "Hverju munar vinum að sjá aumur á okkur, bara þrjú hundruð þúsund sálum?" hugsa Íslendingar. Færeyingar einir gefa sig fram. "Hvernig gátu þessir vinir okkar, bara þrjú hundruð þúsund sálir, valdið þessu tjóni?" hugsa útlendingarnir. Þessir fáu sem sýna okkur skilning. Hinir segja: wankers!

Þeir segja sanngjarnt að við borgum. Hverjir bera ábyrgð aðrir en þjóðin, sem valdi stjórnmálamennina, sem völdu bankamennina, sem ollu tjóninu? Þjóðin borgi með ánuð sinni óheft frelsi hinna útvöldu. Summa frelsins sé konstant. Og hér stöndum við og getum ekki annað. Bankakreppa eða þjóðarkreppa? Fjármálaáfall eða siðferðishnekkir? Það er og en ekki eða.

Spilin á borðið. Við róum út á Flóann ef annað bregst. Sjóstakkurinn minn hangir í miðstöðvarkompunni. Það er sama hvað ástandið er svart, framtíðin er björt.....frjálsu fólki.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Nú berast þær fréttir að Geir hafi leitað til Kínverja. Ég hef betri tillögu. Leitum til Araba. Ekki vegna olíuauðsins. Nei, heldur sökum vaxtanna.
Þeir gætu kennt okkur að byggja upp bankakerfið ekki bara án ofurvaxta, heldur beinlínis án vaxta yfir höfuð. Samkvæmt Kóraninum er nefnilega bannað að taka vexti. Í löndum Spámannsins fyrirfinnast engir vextir í öllu bankakerfinu heldur gengur dæmið út á eitthvað allt annað sem ég kann ekki skil á.
kv. Bjöggi