"Af jarðarinnar hálfu/byrja allir dagar fallega" og svo var um gærdaginn. Nálægt hádegi fór ég á hægu skokki um um friðsælar götur og fann með mér einhvern fyrirboða um að nú færi að fjara aftur. Mótmælin í samfélaginu væru í rénun, menn sæju að krafan um kosningar í vor væri óraunsæ og myndu gefast upp á því að bifa níðþungri ríkisstjórn í vörn fyrir kerfinu, embættismönnunum og pukrinu. Kannski var það fyrirboði um miðstjórnafund Samfylkingarinnar sem fór að mér, en svo sannarlega ekki fyrirboði um aðra atburði dagsins.
Mótmælafundurinn í miðbænum var fjölmennari en áður, eins og verið hefur hvern laugardag. Ræðurnar verða líka beittari og áleitnari. Svo urðu þessir merkilegu atburðir við lögreglustöðina við Hlemm, þegar hundruðir manna sóttu að lögregluliðinu til að fá leystan úr haldi fánabera mótmælenda. Þó honum væri haldið inni á grundvelli vangoldinnar sektar, dettur víst engum í hug að andmæla því að tilgangur handtökunnar tengdist mótmælunum. En hver það var sem hjó á hnútinn með því að segjast greiða sjálfur vissu menn ekki. Í dag segir DV að það hafi verið háttsetturm maður í dómskerfinu. Var það einhver inni á lögreglustöðinni? Var þetta að undirlagi ráðherra, kannski hann sjálfur? Fánaberanum var sleppt út í fagnandi fjöldann.
Hann var þéttur, þátturinn hjá Silfur-Agli. Ólíkt fólk, en málflutningurinn er skýr og hangir saman. Efnahagskreppan, bankakreppan er bara hluti vandamálsins. Það ríkir pólitískt upplausnarástand með hrópandi vantrausti á ríkisstjórn og Alþingi. Þær litlu fréttir sem berast innan úr kerfinu segja að ekkert hafi breyst. Sömu bankamenn að afgreiða sömu kúnna með sama siðferðinu. Ekkert er á seyði varðandi rannsókn á vafasömum fyrri viðskiptum. Mótmælendur koma fram sem skynsamlegt og yfirvegað fólk, en málflutningurinn er róttækur. Valdið er fólkið! Þingið og ríkisstjórnin hafa það bara að láni var sagt. Nú er valdið að birtast á götunum og á fjöldafundunum og mun láta til sín taka. Það kemur fram fólk sem greinilega er knúið áfram af aðstæðunum, það getur ekki setið aðgerðalsut hjá. Sú skynsamlega ákvörun Nóvemberhópsins að sneiða hjá stjórnmálamönnum og hagsumnajöxlum hefur skilað árangri. Fram er komin trúverðug hreyfing almennings sem talar æ skýrara máli. Stjórnarflokkarnir eru komnir í nauðvörn án þess að hinir flokkarnir hafi við það fengið ókeypis far. Sjálfstarust mótmælenda eykst jöfnum höndum og þeir hafa sýnt hvers þeir eru megnugir.
Mótmælin munu augljóslega stigmagnast, þangað til þau bera áþreifanlegan árangur. Enn sem komið er hefur fólk sýnt mikla friðsemd, en undirniðri kraumar. Dragi ríksisstjórn og Alþingi ekki lærdóm af atburðum helgarinnar, verða harðari átök og verri á ábyrgð stjórnmálaforystunnar. Viðvaranir hafa nú heyrst og kröfurnar gufa ekki upp.
Tilvitnunin hér í upphafi er byrjunin á ljóðinu eitt, fremsta ljóði í fyrstu ljóðbók Péturs Gunnarssonar. Svona er áframhaldið: "Þolinmóð snýst hún og snýst/með tréin og höfin og vötnin/eyðimerkurnar og eldfjöllin/okkur tvö og ykkur hin/og öll dýrin" Þolinmæði jarðarinnar undir stjórnmálaflokkunum er þorrin og hún snýst ekki lengur.
23. nóvember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli