30. nóvember 2008

Ráðamenn bera ábyrgð á landinu

Stjórnmálamenn bera ábyrgð á Íslandshruninu, þeir stjórnmálamenn sem verið hafa við völd. Hvernig dettur mönnum í hug að tala öðruvísi? Skipstjóri ber alltaf ábyrgð á strandi. Æðsta skylda hans er að halda skipinu á floti og vernda líf skipverja. Æðsta skylda þings og ríkisstjórnar er að verja grunnstoðir og gangverk samfélagsins og þar með hag landsmanna. Þetta hefur brugðist jafn áþreifanlega og óvéfengjanlega á Íslandi og skip strandar. Þeir sem neita því að ráðandi stjórnmálamenn beri ábyrgð skilja ekki hvað ábyrgð er.

Auðvitað geta margir aðrir átt að bera ábyrgð. Hver einstaklingur ber ábyrgð á því sem hann er settur yfir og hver ber sína siðferðislegu ábyrgð sem maður og hluthafi í samfélaginu. Og auðvitað geta aðstæður verið ólíkar. Sumir kunna hafa drýgt glæpi og sýnt fullkomið siðleysi, en aðrir verið góði viljinn út í gegn og gert allt hvað þeir gátu til að forða slysinu. Á gerðum sínum ber hver maður ábyrgð, en þar að auki ber maður ábyrgð á því sem manni er falið að vernda.

Ábyrðin á skipinu er grundvallareðli skipstjórastarfsins. Ábyrgðin á landsstjórninni er á sama hátt grundvallareðli ráðherradómsins. Alþingi er svo útgerðin, sem ætti að ráða og reka sína kapteina.

"Tóm sósa", sagði þingmaður um lög sem hann hafði greitt atkvæði að beiðni flokksformannsins, en svo lesið fyrir forvitni eftir á. Er nú sósan farin að slettast víðar en maður hugði, ef fólk heldur að ráðherrar beri ekki ábyrgð, þegar innviðir landsins brotna og hrynja saman.

Engin ummæli: