1. nóvember 2008

Af hverju var Palli ekki vakinn?

Óttinn við takkann sem eyðilegði allt var raunverulegur fyrir mér sem smápjakka. Einhver af stóru strákunum hafði sagt mér að ef maður fiktaði í græjum sem maður kunni ekki á gæti maður óvart ýtt á takkan sem eyðlilegði hlutinn. Þegar ég stalst til að fikta í bíl, þrýsti á alla hnappana og rykkti í öll handföngin eins og það er orðað í Palla einum í heiminum, var gleði mín smituð efablöndnum ótta. Ég gat ekki útilokað að sagan um forboðna takkann væri rétt. Svo lærði ég að hvorki bílar né önnur tæki hinna fullorðnu eru útbúin sjálfseyðingartakka, enda fullkomlega fáránlegt.


Það kemur mér því á óvart að uppgötva að samfélagið sem ég bý í skuli útbúið sjálfseyðingartakka. Örfáir menn, sem fengu leyfi til að þrýsta á alla takkana og rykkja í öll handföngin hittu á slíkan takka. Takka sem opnaði peningasugur í nafni ávötunarreikninga úti í heimi og voru á ábyrgð þeirra auðnulausu eyjaskeggja sem Ísland byggja.


Er þetta trúlegt? Getur það staðist að þetta hafi "bara gerst". Hlýtur ekki ríkisstjórn að vera ljóst hvílíkt glæfaspil var um að ræða? Hvað getur skýrt að Palli fái að ganga í svefni og þrýsta á raunverulega takka meðan þeir sem bera ábyrgðina horfa bara á?

1 ummæli:

Unknown sagði...

Ekkert veit ég um takkann en ég uppgötvaði nýlega óvæntan tvist í sögunni góðu. Þegar Palli keyrir sporvagninn segir eitthvað á þá leið að vagnstjórahúfan sé svo stór að hún nái honum niður fyrir eyru. Hinumegin á opnunni er svo mynd af Palla þar sem sést að húfan nær honum alls ekkert niður fyrir eyru.
Mottó: Við trúum því sem okkur er sagt jafnvel þótt sannleikurinn blasi við.
Þarf varla að taka fram að fimm ára dóttir mín benti mér á þetta misræmi. Gamli góði Nýju-fötin-effektinn.
kv. Bjöggi