10. nóvember 2008

Stríð og friður

Ísland á í stríði. Ísland er þjófkennt og beitt stríðsaðgerðum að hálfu Breta og Hollendinga. Önnur ríki nálgast okkur með mestu varúð. Hvorki ESB eða BNA virðast hjálpleg. Rússland, Japan , Kína, alls staðar virðist Íslandi mætt með efasemdum. Engir tilbúnir í bandalag með okkur nema Færeyingar. Norðurlöndin standa þétt við bakið á okkur með því að fylgjast grannt með!

Ríkisstjórnin hefur ekki þorað að nefna hlutina réttum nöfnum og það hefur vafist fyrir mönnum að skilja þessa kreppu, sem svo er kölluð. Þetta er stíð. Kreppan er að vísu bara að hluta til afleiðing stíðsins, hún er líka kreppa hrunins bankakerfis og gjaldþrota stórfyrirtækja. Kreppa hefði orðið án IceSave. En IceSave er staðreynd, svo við fengum bæði stríð og kreppu. Aðgerðirnar verða að taka mið af þessu.

Ísland er þjófkennt. Fólk, sýslur og sjóðir misstu peninga, um það er ekki deilt. Mótaðilar í þessu stríði kenna íslensku þjóðinni um, ekki nokkrum einstaklingum. Þeir telja greinilega að íslenska kerfið hafi átt sök á þessari glæfralegu starfsemi, sem hirti fúlgur fjár með gylliboðum, en hrundi til grunna á örskömmum tíma. Óreiðumennirnir í þeirra augum heita Davíð, Geir og Björgvin. Íslenska ríkisstjórnin sem ábyrðaraðili eftirlitstofnana og seðlabanka.

Hvað er til ráða? Árni Þór Sigurðsson upplýsir í Mogga dagins um stemmninguna hjá ESB og dregur ekkert undan, enda Evrópusmbandið lastabæli í hans vinstri grænum augum. Árni vill svelta sig út úr þessu. Taka engin lán, borða fisk og kartöflur og elska landið heitt. Iðrast útrásarinnar.

Þessu hlýtur maður að mótmæla. Fyrr en ákveðið er að gefast upp verður að reyna að fá fram frið á lífvænlegum forsendum. Fá aðrar þjóðir til að snúast á sveif með okkur og fá bæði friðinn og tækifæri til að endurreisa landið. Íslendingar verða að segja umheiminum hvers vegna þetta gerðist. Sýna svo í verki að þetta munum við ekki láta gerast aftur.

Bremsulaus frjálshyggja varð íslendingum að falli. Ól af sér hagstjórn sem trúði markaðsfrelsi og hafði óbeit á eftirliti og aðhaldi. Þessi söngur þótti mörgum í heiminum fagur og íslenskir ráðamenn sungu stoltir um haftafrelsið íslenska. Afleiðingar þessarar hugmyndafræði koma nú harðast niður á þeim sem blindast trúðu. Hafi einhverjir haft rangt við voru það einstaklingar sem fengu olnbogafrelsi í kerfi sem hafði rangt fyrir sér. Íslensk stjórnvöld stóðu ekki að svindli. Því síður að íslenskur almenningur hafi viljað að bankarnir sæktu pening með þessum hætti. Íslenska ríkið stendur við lagalegar skyldur, en meira ekki.

Þetta þurfum við að segja hátt og skýrt. Við vorum kannski aular, en hryðjuverkamenn erum við ekki. Allir sem brennimerktir eru hruninni hugmyndafræði eiga auðvitað að hverfa úr valdastöðum strax. Óþarfi að persónugera neitt í því efni. Allar stofnanir brennimerktar sömu hugmyndum þurfa nýja stefnu. Þar með talið Alþingi.

Engin ummæli: