14. nóvember 2008

Flokkspólitík

Flokkspólitík eru hin náttúrulegu stjórnmál á Íslandi. Fólk er kallað pólitískt ef það fylgir eindregið ákveðnum stjórnmálaflokki. Umhverfisverndarsinnar, jafnréttissinnar, neytendatalsmenn eða lýðræðisbaráttufólk eru kverúlantar, ekki fólk í pólitík. Nema það fylgi eindregið ákveðnum flokki, en þá þarf það líka um leið að aflsala sér baráttumálið í hendur flokksins.

Flokkshollusta er auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri, en hugsunin um flokkspólitík sem hin náttúrulegu stjórnmál er það. Það er að segja meðal lýðræðisríkja, en hið eðlilega fyrikomulag annars staðar. Ættbálkurinn, klanið, trúarhópurinn eða Flokkurinn eiga það sameiginlegt með íslenskri flokkspólitík að koma fyrst, málefnin á eftir. Og ekki bara málefnin heldur líka leikreglurnar. Flokkurinn er stærri en kerfið sem hann tilheyrir. Íslensk stjórnmál eru gegnsýrð af þessari hugsun að allt sé leyfilegt ef það þjónar markmiðum flokksins og hann komist upp með það. Allt er leyfilegt nema að svindla í kosningum. Spillingin fer fram fyrir opnum tjöldum: Stöðuveitingar, útlutun verðmæta og valds, útbýtingar flokka á milli.

Undirliggjandi er þessi hugsun, sem er ekki lengur hugsun heldur reflex, að flokkur sé grunneining og kjarni stjórnmálanna, ekki fólk, ekki lýðræði sem aðferð til að koma valdi fólksins til skila. Þess vegna hefta íslenskir stjórnmálamenn aldrei hendur sínar til þess að þjóna lýðræðinu. Dettur ekki hug að láta lýðræðið njóta vafans, komi sú staða upp. Og þess vegna lýtur flokkur auðveldlega einum vilja, vilja hins sterkasta. Afleiðingarnar hafa reynst hrikalegar.

Fálki íslenskra stjórnmálaflokka, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur í dag skipað nefnd til að móta stefnu í Evrópumálum sem aðstæðurnar hafa þegar ákveðið. Allir íslenskir stjórnmálaflokkar munu brátt standa í sömu sporum, að móta stefnu í lýðræðismálum sem aðstæðurnar hafa þegar ákveðið.

Engin ummæli: