Skáldamál og líkingar voru rauður þráður í Silfri Egils í dag. Mörður greip fótboltalíkingu hollenska blaðamannsins á lofti og bætti í. Fjórtán tvö, hvað eftir annað og ennþá sama liðið, sami þjálfari! Vilhjálmur Árnason talaði skýrt sem pólitískur siðfræðingur. Andri Snær sló estetíska strengi, mælskari en ég hef heyrt hann áður og veitti von. Nýrri tegund er nú raðað upp í álitsgjafaliðin, félagsfræðingum og heimspekingum, að skáldum og rithöfunum ógleymdum. Forstöðumenn greiningardeildanna hafa fallið í skuggann, enda jafntraust að leita til seiðkarla um spár, eins og nú háttar. Svo sjá menn að eldveggirnir milli greininga- og gerningadeilda bankanna héldu ekki vindlareyk.
Allir tala um að þögnin sé að brjóta niður þjóðina. Þögnin er auðvitað ráðleysi, en nánar tiltekið er hún ráðleysi siðleysisins. Enginn viðurkennir mistök, svo það er bara að keyra áfram. Sömu menn vilja halda áfram. Hvert? Það má guð vita. Ekki tímabært að ræða stefnuna skilst manni, því það sé svo brýnt að bregðast við áfallinu.
Myndin af þessu birtist í blöðunum á dögunum. Maður hafði ekið á ljósastaur á Álftanesi, rifið hann lausan, en komist samt tveggja kólómetra leið áður en jeppinn stöðvaðist. Þessu fylgdi mynd að nýjum, svörtum Range Rover með heitgalvaniseraðan ljósastaur í öfugu vaffi langsum yfir bílinn. "Ökumaður er grunaður um ölvun" voru lokaorð fréttarinnar.
Allir tala um nýtt Ísland. Menn fyllst skyndilega von um að allt breytist, að það sem áður var svo spillt, rotið og gildislaust hverfi og við fáum eitthvað nýtt og betra. Maður verður að taka þennan vagn, annað er ekki í boði. Það verður að koma eitthvað nýtt og annað. Annað fólk með aðra rödd. Hinn kosturinn er vonleysi, sárauki og niðurlæging.
Það sem virðist enn standa af veröld sem var, er í raun fallið. Það á líka við um ríkisstjórnina. Hverjir hafa mátt til að standa upp úr brakinu, dusta sig og halda til móts við nýja veröld vitum við ekki enn.
9. nóvember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli