27. nóvember 2008

Hvar er valdið?

Hvar er valdið? Gæfi alvitur andi manni færi á einni spurningu um hrun landins, væri hún þessi. Hefur fólkið tekið valdið í sínar hendur með mótmælum? Þau hafa engan árangur borið utan að frelsa Bónusfánaberann. Hefur ríkisstjórnin valdið? Ekki Samfylkingarráðherrarnir, að minnsta kosti. Þeir geta ekki einu sinni látið reka þrjá embættismenn, sem þeir vilja burt. Samt standa þeir með pálmann í höndunum vegna fyrirlitningar fólks á Sjálfstæðisflokknum. Hefur þá forsætisráðherran valdið, sem misst hefur alla tiltrú því hann veldur engu? Hafa fjárglæframálamennirnir völdin, sem eru fallít með skuldir upp á hundruði eða þúsund milljarða? Hefur Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn völdin, sem aldrei skiptir sér af pólitík? Hefur norskur herkænskuráðgjafi, sem búinn er að segja af sér völdin? Og svo að það sé nefnt, þó fáránlegt hljómi, hefur Alþingi völdin?

Enginn virðist hafa völdin. Ekki í augnablikinu. Hin formlegu völd, hversu veikum fótum sem þau standa, verða hins vegar ekki látin af hendi fyrr en í fulla hnefana. Handhafar þeirra eru ekki viðræðu um að koma til móts við eindregnar óskir landsmanna. Ríkisstjórninni allt...... eða ekkert.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Sæll Hans

Þetta er mjög áhugaverð spurning og svarið við henni vísar okkur liklega líka á hinn meinta sökudólg í bankahruninu. Ég man eftir bók sem kom út um það leiti sem við vorum saman í MR. Hún hét Falið vald og innihélt pælingu um valdið bak við tjöldin. Hún var greinilega byggð á því að Íslandi væri stjórnað af valdi sem ekki sæist.

Ég held að okkar vandi sé ekki eins djúpstæður, heldur liggi hann frekar í því að enginn hefur valið. Það geta allir farið sínu fram hafi þeir á annað borð fjármagn sem þeir vilja hætta. Þannig að það er fjármagnið sem hefur valdið, ekki einstaklingar. Við sjáum þetta í Ólafi Ólafssyn, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Björgólfi Thor, Hannesi Smára og fleirum. Meðan menn hafa peninga, þá ráða þeir miklu. Um leið og peningana þrýtur, þá hlustar enginn á þá. Heldur þú að nokkur maður hlusti á Björgólf eldri nú þegar hann er búinn að tapa öllu.

Sorglegt að það eru ekki hugmyndir manna, heilindi og gjörðir sem skipta máli, heldur hvort þeir geta borgað. Þess vegna munum við t.d. aldrei fá neitt vald. Okkar ríkidæmi felst í því hverjir við erum, en ekki hvað veskið okkar er þykkt.

Mér finnst eiginlega sorglegast að sjá hvað stjórnmálaaflokkarnir eru valdalitlir og úrræðalausir. Og Alþingi! Nú eru rúmar 8 vikur síðan að Glitnir var þjóðnýttur og það hefur ekki komið fram ein einasta tillaga, hvað þá frumvarp á Alþingi sem kemur þar fram að frumkvæði þessara 51 þingmanns sem eru ekki í ráðherrastólum. Þeir sætta sig við að hafa ekkert að segja. Þeir vita að það verður hvort eð er ekki hlustað á þá. Þetta er tregara en tárum tekur. Þingmenn stjórnarandstöðu vita að það þýðir ekkert fyrir þá að segja eitt eða neitt. Stjórnarflokkarnir valta hvort eð er yfir þá.

Þá eru það stofnanir þjóðfélagsins. FME og Seðlabankinn virtust engu geta stjórnað þegar það skipti máli, en eyðileggingar kraftur eins manns er aftur með ólíkindum. Það væri forvitnilegt að sjá þennan kraft nýttan til uppbyggingar í stað niðurrifs. Þetta er dæmi um mann sem gerði sig valdalausan með því að sleppa markaðsöflunum lausum og er ekki ennþá kominn yfir það.

Ég vona að það sé eitthvað vit í þessu.

Kveðja
Marinó

Hans Jakob Beck sagði...

Takk fyrir komment Marínó og gaman að heyra í þér.

Jú vald fylgir peningum og nú veit maður ekki hverjir eiga pening og hverjir ekki. Kemur líka í ljós að þessir sem maður hélt svo ríka áttu bara skuldir. Það virðist jafnvel ennþá vera verðmætt að eiga skuldir. Það er lítið mál að bæta einum og hálfum milljarði við þúsund sem menn skulda. Það má því endurorða spurninguna og spyrja hver eru peningarnir?
Um pólitíska valdið, þá er það samskonar viðsnúningur að nota stuðning sem fékkst fyrir einu og hálfu ári til að réttlæta þaða að ekki sé orðið við kröfum yfirgnæfandi fjölda manna nú. Kjörfyrlgi er lán, en ekki eign. Finnist lánveitendum þeir sviknir verður til skuld.