21. nóvember 2008

Sérðu það sem ég sé?

Bókin "Sérðu það sem ég sé" er á náttborðinu. Snilldarlega vel skrifaðar sögur Þórarins Eldjárn um mörk veruleika og skáldskapar. Ekkert járntjald þarna á milli, en kalt stríð engu að síður. Ef ég ætti að senda ríkisstjórninni póstkort, væri þetta spurningin. Sérðu það sem ég sé? Ríkisstjórnin svarar um hæl: Látum sem ekkert sé. Gagnrýnin eins æpandi og hún verður hjá þessari þýlyndu þjóð og hún kemur úr öllum höfuðáttum gömlu stjórnmálanna. Allt venjulegt fók sér ekki bara peningakreppuna sem hið opinbera talar um, fólk sér samfélagshrun. Fólk sér kerfi spillingar afhjúpað. Spilltar peningastofnanir, spillt stjórnmál, spillt og útvaðið orðspor Íslands. Samt á sama pólitík, sömu fjármálamálamógúlar, sömu pólitíkusar að halda áfram.

Forysturáðherrarnir tala um traust, við verðum að byggja upp traust. Nú er búið að slá lán, það jafn bráðvantar ekki peninga lengur. Íslenskur almenningur borgar. Nú bráðvantar traust. Við eru beðin um að skaffa það líka með því að sætta okkur við orðinn hlut. Ekki kjósa, hætta sífra um nýtt fólk og nýja stefnu. Nú vantar gamla, góða, spaka, blinda íslenska traustið. Það er til í geymslum ríkisins, segja leiðtogarnir. Það er oní kjörkössunum frá því síðast. G-traust, endist í 4 ár.

Nei, gott fólk. Sjáiði ekki það sem ég sé?

Engin ummæli: